Kennaraháskóli Íslands

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:58:53 (4452)

1999-03-08 13:58:53# 123. lþ. 80.38 fundur 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv. 42/1999, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997. Hér er um 511. mál þingsins að ræða.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóri Ólafsson, rektor Kennaraháskóla Íslands, og Arndísi Hilmarsdóttur og Sigurð Sigurðarson frá nemendaráði Kennaraháskóla Íslands.

Lagt er til að bætt verði við lögin sérstökum kafla sem fjalli um kennslu, framkvæmd prófa og agaviðurlög. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði um heimild til gjaldtöku fyrir ýmsa þjónustu sem skólinn veitir og heimild til að semja við ýmsa aðila um að taka að sér þjónustu fyrir skólann. Einnig er lagt til að háskólinn hafi sams konar heimildir og aðrar háskólastofnanir til að veita doktorsnafnbót.

Breytingarnar auka við almennar heimildir skólans á mikilvægum sviðum og kveða einnig skýrar á um réttarstöðu stúdenta. Settar eru skýrari reglur um málsmeðferð í máli stúdents hafi hann gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans er talin ósæmileg eða óhæfileg. Þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir eftir málsmeðferð innan skólans á stúdent þess kost að skjóta máli sínu til sérstakrar áfrýjunarnefndar sem hefur endanlegt úrskurðarvald.

Menntmn. mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, þingskjali 1022. Þær eru gerðar í þeim tilgangi að samræma hugtakanotkun laganna.

Undir nál. skrifa Sigríður Anna Þórðardóttir formaður, Kristín Ástgeirsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Tómas Ingi Olrich og Hjálmar Árnason.