Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 20:40:33 (4458)

1999-03-08 20:40:33# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, BH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[20:40]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Fátt er okkur hjartfólgnara en ástin á afkvæmum okkar og umhyggja fyrir nýfæddu ungviði. Hún hreyfir við harðgerðustu mannverum og við leggjum allt í sölurnar til þess að börnum okkar séu skapaðar aðstæður sem gefi þeim tækifæri til að blómstra, nýta hæfileika sína og fá þrár sínar uppfylltar.

Það er þó einhvern veginn þannig að börn hafa ekki verið framarlega í umræðu stjórnmálanna í gegnum tíðina, a.m.k. ekki hér á landi. Réttindi barna eru flestum okkar aðeins framandi ákvæði í alþjóðasamningum og barnafólk er ekki sá hópur sem stjórnmálin gera daglega að umfjöllunarefni. Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins á tyllidögum en það blasir annað við í gráum hverdagsleikanum. Samspil fjölskylduþátttöku og atvinnulífs reynist okkur flestum flókið og nærri óleysanlegt verkefni og sambúð þessara tveggja meginstoða samfélagsins er stormasöm svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Hún byggir ekki á ást og gagnkvæmri virðingu eins og kristilegt siðgæði hefur innrætt okkur að eigi að vera megininntak góðrar sambúðar heldur drottnar atvinnulífið yfir fjölskyldulífinu og tekur lítið tillit til þarfa þess. Við skipulagningu atvinnulífsins er svo til ekkert horft til þess að launafólk þurfi að sinna fjölskylduábyrgð ef undan eru skilin einstaka ákvæði í kjarasamningum um fjarveru foreldra frá vinnu vegna veikinda barna. Þá má nefna nýlegan samning evrópskrar verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnurekenda um foreldraorlof sem ánægjulega undantekningu frá þessu.

Það hefur sýnt sig að atvinnuþátttaka er óvenjumikil hér á landi og að auki er vinnutími lengri á Íslandi en gengur og gerist á meðal nágrannaþjóða. Við eigum metið hvað varðar óhóflegan vinnutíma á Evrópska efnahagssvæðinu og erum langt á undan þeim sem næstir okkur koma í þeim efnum.

Þótt Íslendingar séu í forustu um langan vinnutíma blasir önnur mynd við þegar við skoðum þau úrræði sem í boði eru til þess að samræma atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf. Þá kemur í ljós að við eigum rétt á mun styttra fæðingarorlofi en flestir nágrannar okkar og greiðslur á þeim tíma eru skammarlega lágar. Skortur á sveigjanleika við töku fæðingarorlofs gerir það að verkum að flestir standa frammi fyrir tveimur valkostum, annaðhvort að yfirgefa atvinnulífið algjörlega á meðan ungviðinu er fylgt fyrstu skrefin eða að fela öðrum umönnun barnsins og henda sér út í hringiðu atvinnulífsins af fullum krafti. Hvorugur kosturinn er góður.

Afleiðingin af þessu verður slæm fyrir alla, barnið, foreldrana og ég leyfi mér að fullyrða, atvinnurekandann líka. Því miður höfum við fengið vísbendingar um að ekki sé jafn vel búið að íslenskum börnum og víða annars staðar. Hér er slysatíðni barna t.d. mun hærri en á Norðurlöndum og er það vissulega áhyggjuefni. Agaleysi í skólum er algengt umfjöllunarefni í dag sem hlýtur að skrifast að einhverju leyti á þá þjóðfélagsgerð sem við bjóðum íslenskum barnafjölskyldum upp á og fleiri slík dæmi mætti nefna.

Góðir áheyrendur. Samfylkingarfólk á Íslandi á sér sameiginlega lífssýn. Við viljum færa stjórnmálin nær fólkinu og setja þau mál sem landsmönnum öllum eru hjartfólgin á dagskrá í þjóðmálaumræðunni. Það á ekki aðeins við um perlurnar á hálendinu sem við þurfum að hlúa að af skynsemi og tilfinningu. Það á ekki bara við um auðlindir sjávar sem við þurfum að umgangast af virðingu með réttlætið að leiðarljósi. Það á líka við um lífsbaráttu okkar í hversdeginum, um rétt okkar til að lifa fjölskyldulífi samhliða atvinnuþátttöku, um öryggi og mannlega reisn lífeyrisþega og síðast en ekki síst um meira jafnvægi á milli dreifbýlis og þéttbýlis en nú er.

Við viljum tryggja öllum Íslendingum frelsi til að þroskast og dafna og taka ákvarðanir um líf sitt sem mótast af ábyrgð gagnvart okkur sjálfum, samfélaginu, náttúrunni og komandi kynslóðum. --- Góðar stundir.