Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 20:45:23 (4459)

1999-03-08 20:45:23# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[20:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nýlega sat ég fund með erlendum starfsbræðrum. Þar var m.a. rætt að sífellt þyrfti meira fé til menntamála, umfang þeirra væri að aukast, fleiri færu í nám og meiri þjónustu væri krafist í skólum. Tveir ráðherrar úr hópi jafnaðarmanna sögðu sérstaklega erfitt fyrir sig að ganga til kosninga með þann boðskap á vörunum að ekki væri svigrúm til að auka opinber útgjöld. Kjósendur þeirra væru vanir loforðum um meira opinbert fé til allra hluta. Hingað til hefði alltaf verið unnt að lofa hækkun útgjalda og seilast síðan dýpra ofan í vasa skattborgaranna. Sá tími væri liðinn. Æ fleiri áttuðu sig á því að forsenda blómlegs atvinnu- og efnahagslífs væri að ríkið héldi að sér höndum í skattheimtu og setti umsvifum sínum hófleg mörk. Þá var minnt á að í Bretlandi hefði Verkamannaflokkurinn aldrei sigrað í tvennum kosningum í röð. Tony Blair forsætisráðherra ætlaði að breyta stjórnmálasögu Breta og ná endurkjöri. Því marki næði hann hins vegar ekki nema með því að draga úr ríkisútgjöldum. Forsætisráðherrann gæti ekki hækkað skatta og þess vegna væri hann að takast á við hin sjálfvirku útgjaldakerfi ríkisins, jafnvel þótt þau væru jafnaðarmönnum kær.

Nú, þegar í senn er litið yfir farinn veg og fram á við í lok kjörtímabils, ber okkur Íslendingum að meta eigin stöðu á þessum sömu forsendum. Hér eru stjórnmálamenn sem telja að leggja megi enn þyngri byrðar á skattgreiðendur. Við Reykvíkingar kynnumst því undir stjórn R-listans með hækkun á útsvari á okkur og öðrum auknum álögum, ekki síst á eldri borgara. Á sama tíma og ríkisvaldið hefur dregið úr skattheimtu undir styrkri fjármálastjórn Sjálfstfl. hrifsar borgarsjóður meira fé til sín undir stjórn vinstri manna. Undir forustu Sjálfstfl. í landstjórninni á þessum áratug hefur frábær árangur náðst. Stöðnun í efnahags- og atvinnumálum hefur verið snúið í mestu framfarasókn Íslandssögunnar. Atvinnuleysi er ekki lengur til umræðu. Góð tök hafa náðst á ríkisfjármálum. Tekjuskattur lækkar nú þriðja árið í röð. Á sama tíma hefur skuldasöfnun ríkissjóðs erlendis verið stöðvuð. Í hennar stað eru erlendar skuldir ríkisins greiddar niður um tugi milljarða. Vextir lækka og kaupmáttur atvinnutekna hvers og eins eykst um tugi prósentna. Nú fá menn um 20% meira fyrir launin sín en áður.

Í komandi kosningum ákveða kjósendur hvort haldið verður áfram á þessari braut forsjálni og framfara sem hefur skilað árangri fyrir alla. En kjósendur eiga vissulega annan kost. Þeir geta ákveðið að hækka útgjöld ríkisins og þyngja á sjálfum sér skattbyrðina, auka hlut ríkisins í efnahagslífinu, þrengja þar með að fyrirtækjum einstaklinga og draga úr frumkvæði þeirra. Einfaldasta leiðin til að gera þetta er að kjósa þá frambjóðendur sem kenna sig við Samfylkingu og jafnaðarmennsku. Fjörbrot þriggja flokka, Alþb., Alþfl. og Kvennalista leggja grunn að nýju stjórnmálaafli sem fylgir yfirboðastefnu í krafti stóraukinnar skattheimtu. Hvernig halda menn að annars sé unnt að framkvæma stefnu sem talið er að kosti hækkun ríkisútgjalda um 40 til 60 milljarða kr.?

Samfylkingarleiðin hefur legið til vinstri. Þegar jafnaðarmenn um alla Evrópu eru að fikra sig til hægri og inn á miðjuna gerist það hér að þeir taka stórt skref til vinstri. Hér eru ekki aðeins boðaðar aðgerðir sem jafngilda stórauknum ríkisafskiptum og útgjöldum með skattaálögum, heldur eru vaktar upp umræður um öryggismál þjóðarinnar á úreltum forsendum. Atlantshafsbandalaginu er hallmælt og réttmæti aðildar að því dregið í efa, auk þess sem rykið er dustað af gamla slagorðinu um herinn burt.

Margflokkastjórnir vinstrisinna einkennast af yfirboðum og óráðsíu. Hið sama á við hér og í Bretlandi, kjósendur endurnýja ekki umboð vinstri stjórna. Þegar þær komast til valda verður helsta áhyggjuefnið hve mikill skaði hljótist af verkum þeirra áður en kallað er á sjálfstæðismenn til að koma þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl.

Þótt allar alþjóðlegar rannsóknir á stjórn íslenskra efnahagsmála undanfarin ár leiði til ágætiseinkunnar mætti ætla af orðum stjórnarandstæðinga hér í kvöld að þjóðin væri að fara á vonarvöl. Vissulega má betur gera á mörgum sviðum. Skynsamlegasta leiðin til að ná árangri er þó ekki að lofa einhverju sem ógerlegt er að efna. Öfundarpólitík er til þess eins fallin að ala á úlfúð og illindum. Slík stefna hefur aldrei leyst neinn vanda. Hún er aðalsmerki þeirra sem telja upplausn bestu leið sína til valda og áhrifa. Íslensk stjórnmál þarfnast ekki slíkra manna eða flokka.

Jöfnuður er meiri í íslensku þjóðfélagi en nokkru öðru. Markmið okkar á að vera að ná betri árangri fyrir alla. Við Íslendingar höfum mikinn metnað til að búa vel að þeim sem standa höllum fæti. Við þurfum ekki að kjósa um svo augljósa hluti. Þeir sem eru komnir á efri ár telja að þeim sé ekki sýnd nægileg sanngirni, af opinberri hálfu sé gengið um of á þeirra hlut. Hlusta ber á öll slík rök og koma til móts við þau eftir því sem unnt er.

Þrír málaflokkar: stjórn fiskveiða, svonefnt hálendismál og byggðamál eru ofarlega á dagskrá. Stjórnmálabarátta á ekki að snúast um jafnsjálfsagða hluti og þá hvort auðvelda eigi öryrkjum lífsbaráttuna eða sýna öldruðum sanngirni. Hún snýst ekki heldur um það hvort finna eigi skynsamlegustu leiðina til að nýta fiskimiðin, sameign þjóðarinnar, fara vel með náttúru landsins eða stuðla að búsetu um land allt. Stjórnmálabaráttan snýst um það hvaða aðferðum er beitt til að takast á við öll þessi málefni og mörg fleiri. Ég fullyrði að sjálfstæðisstefnan, vinnubrögð og viðhorf þeirra sem henni fylgja, duga best til að tryggja jafnrétti borgaranna og góða úrlausn mála. Á þessari öld höfum við rækilega kynnst hörmulegum afleiðingum þess að beita aðferðum sósíalismans. Sjálfstæðismenn geta hins vegar vísað með stolti til þess að stefna þeirra hefur sigrað hina hugmyndafræðilegu keppni og borið glæsilegan árangur.

Herra forseti. Keppni milli þjóða fer vaxandi um leið og alþjóðleg samvinna eykst. Við viljum að Íslendingar verði áfram í fremstu röð í samanburði við hina bestu. Þessu markmiði náum við ekki nema með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi og mikilli áherslu á menningu, listir, menntun, rannsóknir og vísindi. Leggja ber rækt við hina nýju upplýsingatækni því hún eyðir fjarlægðum og skapar ný sóknarfæri í öllum greinum og um landið allt. Almenn menntun og jafnrétti til náms er ein meginstoð lýðræðis. Menntun er undirstaða menningar og almennrar velgengni og hún á að efla gagnrýna sjálfstæða hugsun hjá einstaklingum og hæfileika þeirra til að bregðast við nýjum aðstæðum, takast á við og tileinka sér nýjungar og framfarir á öllum sviðum. Í skólum ber að efla með nemendum sjálfstraust og metnað, þjálfa þá til heilbrigðs samstarfs og samkeppni við aðra, kenna þeim að varast hættur nútímaþjóðfélags og nýta sér hin mörgu tækifæri sem það býður.

Nýrri skólastefnu undir kjörorðinu ,,Enn betri skóli`` hefur verið hrundið í framkvæmd á þessu kjörtímabili. Fjárveitingar til allra þátta menntamála hafa aukist jafnt og þétt, eða um marga milljarða króna. Allt tal stjórnarandstæðinga um markvisst fjársvelti í skólakerfinu er úr lausu lofti gripið. Upplýsingatækni hefur verið nýtt þannig í íslensku skólastarfi undanfarin missiri að aðrar þjóðir líta til okkar öfundaraugum. Prýðilegur einhugur hefur náðst um inntak nýju skólastefnunnar á vettvangi stjórnmála og í samvinnu við kennara, nemendur og foreldra. Á næstu missirum tekur starfið í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum að breytast í samræmi við stefnuna á grundvelli nýrra námskráa.

Ný lög hafa verið sett um háskólastigið sem skapa háskólum ný sóknarfæri. Meira fé er nú varið til rannsókna og þróunar en nokkru sinni fyrr. Sátt hefur náðst um lagaumhverfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem var mikið deilumál fyrir síðustu kosningar. Sjóðurinn hefur styrkt stöðu sína og á þeim forsendum á að vera unnt að auka útlán hans enn frekar, strax á þessu ári.

Í menningu og listum er gróskan meiri en nokkru sinni fyrr. Mikilvægt er að sækja enn fram í þessum greinum og mun hinn nýi Listaháskóli skipta miklu í því efni. Búseta á Íslandi og um landið allt ræðst af því hvernig búið er að menntun og menningu. Virðing þjóðarinnar út á við er ekki síst mæld af því hvernig hún stendur sig á sviði lista. Íslenskir listamenn eru ekki síður góðir merkisberar en frábærir íþróttamenn.

Góðir áheyrendur. Ísland er land tækifæranna og þau eru fleiri og meira spennandi þegar nýtt árþúsund gengur í garð, en nokkru sinni fyrr. Við erum samhent þjóð, búum við heilbrigða stjórnarhætti og eigum stjórnarskrá sem tryggir jafnan rétt borgaranna, frelsi til orðs og æðis. Virðing fyrir fjölskyldunni er okkur í blóð borin. Kristin gildi móta menningu okkar og viðhorf. Við Íslendingar höfum því einstæðar forsendur til að ná enn betri árangri fyrir alla ef við kunnum fótum okkar forráð. --- Góðar stundir.