Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 21:04:09 (4461)

1999-03-08 21:04:09# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[21:04]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Til hamingju með daginn, 8. mars, alþjóðlegan baráttudag kvenna sem hæstv. forseti minntist svo ágætlega við upphaf þingfundar fyrr í dag. Hann benti m.a. á þá staðreynd að um þessar mundir fylla konur þriðjung þingsæta á hv. Alþingi og mundi nú kannski einhver vilja spyrja eins og í leikverkinu forðum: ,,Ertu nú ánægð, kerling?`` En auðvitað er markinu ekki náð að þessu leyti fyrr en konur hafa viðlíka stöðu og áhrif og karlar. Það er hin eina rétta lýðræðislega niðurstaða og fyrr verður kerlingin ekki ánægð hvað þetta atriði varðar.

Kvennabaráttan snýst um það en hún snýst líka um margt fleira. Aldagömul viðhorf eru undarlega lífseig og þess vegna er kvennabaráttan eins og fjallganga þar sem sífellt blasir við nýtt leiti einmitt þegar tindurinn ætti að vera í augsýn.

Þegar litið er yfir það kjörtímabil sem nú er að ljúka er því miður fátt um markverða áfanga í kvennabaráttunni. Ástæðan er ekki skortur á hugmyndum og tillögum sem fyrst og fremst konur hafa flutt og talað fyrir á Alþingi heldur steinrunnin viðhorf og viljaleysi ráðandi afla til að taka myndarlega á þeim þáttum sem standa í vegi fyrir jafnstöðu kynjanna og jöfnum rétti hinna ýmsu hópa samfélagsins til mannsæmandi lífsskilyrða.

Herra forseti. Í átta ár hefur Sjálfstfl. ráðið ferðinni á Alþingi og í ríkisstjórn með einstaklingshyggju og rétt hins sterka í fyrirrúmi. Fyrst með dyggilegri aðstoð fulltrúa Alþfl., sjálfskipaðra merkisbera jafnaðar og bræðralags, sem stóðu fyrir heiftarlegum árásum á velferðarkerfið og láta nú eins og þeir hafi hvergi komið nærri. Sporgöngumenn þeirra eru svo framsóknarmenn sem alla tíð hafa sýnt meistaratakta í smíði slagorða sem eiga ekkert skylt við þær áherslur sem birtast í verkum þeirra í ríkisstjórn. Þeir hafa dyggilega framfylgt stefnu Sjálfstfl. í flestum greinum.

Manngildi ofar auðgildi, er t.d. eitt aðalslagorð framsóknarmanna fyrr og síðar en af einhverjum ástæðum flíka þeir því ekki um þessar mundir. Kannski ræður einhverju að þessa dagana linnir ekki fréttum af góðum hagnaði fyrirtækjanna í landinu, ekki síst fjármálastofnana. Einn bankinn skilaði hagnaði upp á hálfan annan milljarð á síðasta ári og þeir sem höfðu efni á að kaupa sér bréf í banka á haustdögum eru þegar farnir að uppskera.

Peningarnir streyma inn og út úr bönkum og sjóðum. Sú tíð er liðin þegar fólk þurfti að standa í biðröð á tröppum bankanna og knékrjúpa fyrir hans hátign til að kreista út víxil fyrir nýjum bíl eða útborgun í íbúð. Nú elta bankastjórar viðskiptavinina uppi og biðja um að fá að lána þeim fyrir nýjum jeppa eða lóð á landi sem einstaklingur keypti fyrir 700 millj. kr. á borðið.

En á sama tíma og sagt er frá ofsagróða fjármálastofnana og lífleg viðskipti með verðbréf hafa öðlast fastan sess í fréttatímum fjölmiðlanna berast okkur fregnir af skýrslum sem staðfesta aukið misrétti í þjóðfélaginu, vaxandi gjá milli ríkra og fátækra, aukið launamisrétti kynjanna, himinhrópandi mun á tekjum og aðstæðum hinna best settu og þeirra sem höllum fæti standa. Öryrkjar og aldraðir eru afgreiddir á forsendum ölmusuhugsunar svo að margir þeirra eiga bágt með að halda sjálfsvirðingu. Sjúkum er raðað á biðlista eftir aðgerð og þjónustu. Laun heimsins er skortur á hjúkrunarrými þegar hinn aldraði þarfnast síðustu aðstoðar. Þetta er staðan í marglofuðu góðæri vegna þess að viðhorf og gildismat ráðamanna er og hefur verið rangt.

Herra forseti. Það er þörf fyrir stjórnmálaafl með skýr markmið í þessu efni, önnur lífsgildi sem eiga ekkert skylt við ölmusuhugsun heldur byggjast á forsendum mannréttinda, sjálfsvirðingar og mannlegrar reisnar. Mannréttindi, félagslegt réttlæti og virðing fyrir manneskjunni er rauði þráðurinn í hugmyndafræði Vinstri heyfingarinnar -- græns framboðs sem landsmönnum gefst í fyrsta skipti kostur á að styðja í kosningunum í vor. Græni þráðurinn í hugmyndafræði þessa nýja stjórnmálaafls stendur hins vegar fyrir vernd náttúru og umhverfis og virðingu fyrir móður jörð. Hann er tákn fyrir landið okkar og dýrmæta náttúruna og fyrir framtíð barnanna okkar.

Stjórnmálasamtök með megináherslu á umhverfis- og náttúruvernd hafa starfað árum saman í mörgum löndum Evrópu og haft mikil áhrif. Slík samtök hafa hingað til ekki náð neinu flugi hérlendis og er ástæðan fyrst og fremst almennt andvaraleysi Íslendinga í umhverfismálum. Það ástand er góðu heilli óðum að breytast og því eðlilegt að margir renni hýru auga til nýs stjórnmálaafls sem leggur mikla áherslu á þennan málaflokk. Fáar þjóðir hafa jafnmikla möguleika og við Íslendingar til þess að koma í veg fyrir óbætanleg spjöll á náttúru og umhverfi og sækja fram á forsendum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar. Stærsti vandinn er skilningsleysi stjórnvalda og yfirgangur þeirra gagnvart sjónarmiðum náttúruverndar. Þau halda áfram að klappa stóriðjusteininn, beita honum til atkvæðaveiða og hafa færst í aukana við þær aðstæður að ýmis iðnaðarríki hafa séð sitt óvænna að losa sig við mengandi iðnað og koma honum fyrir hjá andvaralausum þjóðum með skammsýna menn í forustu.

Nú ríður á að sækja fram af metnaði og ábyrgð á öllum sviðum umhverfis- og náttúruverndar og tryggja þannig rétt komandi kynslóða til góðra lífsskilyrða í landi okkar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hlýðir kalli tímans og setur fram trúverðuga stefnu í umhverfismálum. Talsmenn hennar munu ekki tala einni röddu á suðvesturhorni landsins og annarri á norðausturhorni þess. Verkefnið er að byggja upp vistvænt samfélag í þágu núlifandi og komandi kynslóða, skapa græna framtíð í þessu landi tækifæranna.

Góðir áheyrendur. Það er vor á vinstri kantinum eftir umhleypinga síðustu mánaða. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð kallar eftir stuðningi og þátttöku í hreyfingu þar sem konur og karlar starfa saman með fullri virðingu hvert fyrir annars hugmyndum, aðstæðum og reynslu, stjórnálaafli með róttækar hugmyndir um réttlæti og jöfnuð og virðingu fyrir grunnþáttum lífs og mannvistar í nútíð og framtíð.

Ég þakka þeim sem hlýddu.