Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 21:37:03 (4465)

1999-03-08 21:37:03# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[21:37]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Nú þegar þessu kjörtímabili er senn að ljúka er rétt að líta yfir farinn veg og einnig að hyggja að framtíðinni. Í komandi kosningabaráttu munum við sjálfstæðismenn leggja verk okkar og framtíðarsýn fyrir kjósendur. Ég er ekki í vafa um að fólkið í landinu mun meta þá styrku stjórn sem við Íslendingar höfum búið við undanfarin tvö kjörtímabil. Til samanburðar er málefnasundurþykkja Samfylkingarinnar og forustuleysi.

Þau ánægulegu tíðindi eru líka að gerast að konum í þingliði Sjálfstfl. mun að öllum líkindum fjölga um a.m.k. fjórar frá síðustu kosningum. En á sama tíma er það sorgleg staðreynd að í þingliði Samfylkingarinnar mun sennilega fækka um þrjár konur. Það er dapurleg þróun að samfylkingarbröltið verði til þess að minnka áhrif kvenna á vinstri væng stjórnmálanna. Eðlileg afleiðing af þessu er að þær konur sem litið höfðu til Samfylkingarinnar með von um að þar væri helst að vænta aukinna áhrifa kvenna á stjórnmálin munu nú sjá að það er í Sjálfstfl. sem konur hafa áhrif.

Kjörtímabili mikilla framfara er nú að ljúka. Ekkert bendir til annars en að íslenska þjóðin muni lifa hagsældartíma næstu fjögur árin ef stjórnartaumarnir verða áfram í traustum höndum. Það hefur sýnt sig að efnahagsstjórn undangenginna ára hefur tryggt stöðugleika og þann trausta grunn sem við getum byggt framtíð okkar á. Þau skýru efnahagsmarkmið sem ríkisstjórnin setti í upphafi ferils síns hafa gengið eftir. Verkefnið var að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum, skapa skilyrði fyrir auknum hagvexti, fjölga störfum og stuðla að bættum lífskjörum. Allt þetta hefur gengið eftir og allt þetta hefur treyst grunninn svo að nú getum við með miklum krafti hugað að þróun byggðamála. Grundvöllurinn er fenginn.

Aðgerðir í byggðamálum hljóta því að verða eitt aðalviðfangsefni næsta kjörtímabils. Góður grundvöllur var samþykkt tillögu til þál. um byggðamál. Stefnan er byggð á viðamiklum rannsóknum sem fram fóru að tilhlutan stjórnar Byggðastofnunar á orsök núverandi byggðaþróunar.

Fábreytni atvinnulífsins er þungamiðjan í umkvörtunum þeirra sem flytja af landsbyggðinni. En nú hefur stefnan verið tekin markvisst á atvinnuþróun og nýsköpun. Þróunarstofur í landshlutunum munu hafa forustu í þessum efnum. Það er lykilatriði að heimamenn taki sjálfir á vandanum og glími við þau tækifæri sem gefast.

Á fjárlögum yfirstandandi árs hefur þegar verið hafist handa um þessi verkefni með framlögum til eignarhaldsfélaga til að tryggja eigið fé í nýsköpunarverkefnum. Grundvöllur atvinnumálakafla tillögunnar byggir á því að virkjaðar verði tillögur og framtak heimamanna því þeirra er þekkingin á umhverfinu og hagur að verkefnin gangi upp.

Annar meginþáttur tillögunnar snýst um menntun, þekkingu og menningu. Engum dylst hversu menntamál hafa mikil áhrif á búsetuþróun. Einn þeirra þátta sem íþyngja heimilum á landsbyggðinni er mikill kostnaður við að senda unglinga að heiman til mennta í framhaldsskólum. Til að létta þær byrðar hefur verið aukið fé til jöfnunar á námskostnaði. Ég heyri það á foreldrum og unglingum sem búa við þessar aðstæður að sú hækkun sem nú kemur fram er vel metin. Að mörgu fleiru er að hyggja varðandi menntamál landsbyggðarinnar og ekki síst að tryggður verði rekstrargrundvöllur þeirra framhaldsskóla sem eru úti um land og efling háskólamenntunar.

Í ljós hefur komið að menningarstarfsemi skiptir sífellt fleira fólk máli og það er ánægjuleg þróun. En við því verður jafnframt að bregðast með sýnilegum hætti. Það sýnir sig að það fjármagn sem fer til menningarstarfsemi á landsbyggðinni er vel nýtt og margfaldar sig auðveldlega í meðferð heimamanna. Það er menningarleg skylda stjórnvalda að stuðla að menningarstarfsemi sem víðast úti um land.

Þriðji þáttur tillögunnar snýr að jöfnun lífskjara og bættri samkeppnisstöðu. Vil ég sérstaklega nefna jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í samgöngumálum. Það er ekki umdeilt að góðar samgöngur eru nauðsynlegar í hverju nútímasamfélagi. Stytting vegalengda á milli þéttbýlisstaða, m.a. með jarðgöngum, mun einnig efla og stækka atvinnusvæðin. Slíkar aðgerðir geta haft grundvallaráhrif á byggðaþróun.

Fjórði þáttur tillögunnar snýr að umhverfismálum og bættri umgengni við landið. Mikil vakning hefur átt sér stað í umhverfismálum og er það vel. Aðeins með góðri umgengni við landið getum við byggt það og nýtt áfram eins og nauðsynlegt er eigi íslenska þjóðin að lifa áfram. Engin þjóð lifir aðeins í einni borg.

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Að lokum þetta: Byggðastefna núv. ríkisstjórnar hefur verið mörkuð. Hún er vel rökstudd og vandlega unnin í samráði við fólkið í landinu og færustu sérfræðinga á þessu sviði. Í vor verður m.a. kosið á milli þessara hugmynda og sundurleitra sjónarmiða Samfylkingar. --- Góðar stundir.