Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 21:48:31 (4467)

1999-03-08 21:48:31# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[21:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir síðustu kosningar, fyrir rétt tæpum fjórum árum síðan, fór Halldór Ásgrímsson fyrir liði framsóknarmanna um landið og sagði þá að hann hefði í hyggju að beita sér fyrir myndun vinstri stjórnar. Einnig sögðu þeir framsóknarmenn að þeir mundu hafa fólk í fyrirrúmi. Nú vitum við hvernig þetta fór. Þeir framsóknarmenn hoppuðu upp í glóðvolgt bælið hjá íhaldinu jafnskjótt og búið var að bera Alþfl. grátandi og nauðugan á dyr. Síðan hafa álver en ekki fólk verið í fyrirrúmi.

Það var einkar athyglisvert að heyra formann Framsfl. hér áðan nota þátíð þegar hann ræddi um tengsl Framsfl. við félagshyggjuna en nútíð þegar hann talaði um miðjuna. Ég held, herra forseti, að það sé búið að flytja þessa miðju í íslenskum stjórnmálum eitthvað til. Fyrir mér er þetta þannig orðið að ef Halldór Ásgrímsson er miðjumaður þá er Hannes Hólmsteinn orðinn krati.

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn hefur um margt verið heppin, ef gæfa ríkisstjórnar felst aðallega í ytri aðstæðum, eins og margir stjórnmálaspekingar halda nú. Það hefur fiskast nokkuð vel og við höfum búið við hagfelld ytri skilyrði að ýmsu leyti. Þetta að viðbættum stóriðjuframkvæmdunum á suðvesturhorni landsins hefur þýtt að hér a.m.k. hefur verið talsverður uppgangur. Þetta heitir Góðærið með stórum staf og ákveðnum greini í munni hæstv. forsrh. Og það er góðærið sem er kosningastefna Sjálfstfl. frá upphafi til enda. Það er bara eitt orð í kosningaprógrammi Sjálfstfl. Það er góðærið. Með reglulegu millibili kemur hæstv. forsrh. í fjölmiðla og segir: ,,Sjá þjóð mín. Það er góðæri.`` Og ef vel tekst til fáum við sjálfsagt að sjá þá félagana saman í göngutúr á Þingvöllum, hæstv. forsrh. og Tanna, eins og síðast og þá er allt í góðu lagi.

Jú, það verður ekki deilt um það að ýmsir hafa haft það gott. En hinu verður heldur ekki mótmælt að þessu góðæri hefur verið ákafleg misskipt. Góðærið er ekki hjá öryrkjum landsins. Góðærið hefur ekki barið að dyrum aldraðra. Góðærið hefur ekki gist í sveitum landsins, a.m.k. ekki hjá sauðfjárbændum og góðærið er almennt ekki á landsbyggðinni.

Byggðaröskunin hefur verið stórfelld og hinn þjóðhagslegi herkostnaður af þessu ástandi er gríðarlegur. Nú hafa, nokkur ár í röð, tæplega tvö þúsund manns flutt af landsbyggðinni og hingað á suðvesturhornið á ári hverju. Þessu fylgir gríðarlegur kostnaður, ekki síst fyrir sveitarfélögin hér sem taka við þessum fólksfjölda, eða upp á 3--5 millj. kr. fyrir hvern mann sem hingað flyst. Eftir standa vannýttar fjárfestingar á landsbyggðinni í þeim byggðarlögum sem eru að tapa fólki.

Þessi óheillaþróun er öllum til tjóns. Hún kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar, veldur félagslegum erfiðleikum og er án nokkurs vafa eitt alvarlegasta vandamál og samfélagsmein sem við er að glíma á Íslandi um þessar mundir. Viðbrögðin hingað til geta í besta falli kallast hálfkák. Sjálfstfl. verður að horfast í augu við þá staðreynd að forsrh. og formaður flokksins hefur nú farið með byggðamál samfellt í tæp átta ár. Þetta ástand hlýtur að skrifast að verulegu leyti á þá sem ábyrgðina hafa borið.

Það er kostulegt að sjá svo stjórnarþingmenn um þessar mundir vakna upp við það eins og vondan draum hvernig ástandið er í raun og veru. Þá spýtast þeir út í sín kjördæmi til fundahalda og lofa þar jarðgöngum á báða bóga eða öðrum slíkum framkvæmdum, sömu þingmenn, sömu stjórnarþingmenn og hafa stutt hér vegáætlun og langtímaáætlun til heilla tólf ára þar sem jarðgöng eru hvergi á blaði. Er það nú málflutningur.

Var ekki líka kostulegt að sjá framsóknarþingmenn rjúka upp til handa og fóta þegar þeirra eigin ríkisstjórn og þeirra eigin einkavæðingarnefnd einkavæddi Áburðarverksmiðjuna, eins og henni bar að gera samkvæmt umboði sínu? Nei, þá átti þetta ekki að fara svona. En hvað hafa mennirnir verið að hugsa allan þennan tíma?

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lítum á það sem sérstakt forgangsverkefni að koma á jafnvægi í byggðaþróun í landinu. Til þess þarf að grípa til markvissra jöfnunaraðgerða. Ekki síst þarf stefnan í atvinnumálum landsmanna að styðja við byggðina í landinu en ekki vera henni mótdræg eins og hún er að mörgu leyti, bæði í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og heftir nýliðun og fleira mætti þar til tína.

Rauði þráðurinn í umfjöllun okkar um atvinnumál er einmitt að atvinnulífið styðji við byggðina og sé fyrir fólkið í landinu en ekki í þágu erlendra auðhringa eða fjármagnsaflanna. Fyrir hverja er atvinnulífið? Formaður Framsfl. hefði kannski átt að ræða um það við okkur líka en ekki gerast svo barnalegur að halda því fram að allir sem eru í stjórnmálum á Íslandi og ekki tilheyra ríkisstjórninni gefi skít í atvinnulífið. Fannst mönnum trúverðugur eða merkilegur málflutningur frá þeim ágæta manni hér áðan?

Herra forseti. Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er og hefur verið ójafnaðarstjórn, frjálshyggjukreddustjórn, og virðist það grátlega litlu skipta í íslenskum stjórnmálum hvort það eru kratar eða framsóknarmenn sem halda þeim við völd. Einna háskalegust hygg ég þó að framganga ríkisstjórnarinnar hafi verið í umhverfismálum með þeirri blindu stóriðjustefnu sem þar hefur verið fylgt.

Þar viljum við sem stöndum að hinni nýju grænu vinstri hreyfingu gjörbreyta um áherslur. Við viljum móta sjálfbæra orkustefnu þar sem vernd umhverfis og hinna ósnortnu víðerna og hálendisgersema er höfð að leiðarljósi eins og kostur er. Þar í liggja framtíðarhagsmunir Íslands en ekki í fleiri mengandi fabrikkum og gamaldags stóriðjuverum sem aðrar þjóðir eru nú að ýta af höndum sér. Eiga það að verða örlög Íslands að verða ruslakista fyrir þann iðnað sem menn vilja losna við annars staðar?

Í utanríkismálum hefur það borið helst til tíðinda að Framsfl., undir forustu formanns síns, hefur nú opnað allar gáttir í sambandi við aðild að Evrópusambandinu. Í hverri ræðunni á fætur annarri gengur nú aftur það orðalag að við eigum að skoða alla möguleika, við eigum að halda þessu öllu opnu. Og kannski getum við fengið undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þetta er athyglisvert merkjamál. Það er reyndar, herra forseti, nánast óhugnanlega keimlíkt hinni þokukenndu stefnu Samfylkingarinnar í sama stóra máli.

Við í Vinstri heyfingunni -- grænu framboði tölum alveg skýrt. Við erum andvíg aðild að Evrópusambandinu og við viljum þróa þessi samskipti í aðra átt, í átt til einfaldari, tvíhliða samninga og samskipta um viðskipti og samvinnu á sviði menntunar, menningar og vísinda o.s.frv. Ég hvet til þess að kjósendur krefji alla stjórnmálaflokka sem bjóða fram við næstu kosningar um skýr svör og afdráttarlaus svör í þessu stóra máli. Það á enginn stjórnmálaflokkur að komast upp með það að læðast í gegnum kosningabaráttuna í þoku óljósrar umfjöllunar um svo mikilvæg og afdrifarík stórmál. Í Evrópumálunum hræða sporin. Á máli kratanna á Norðurlöndum hefur ,,að skoða`` þýtt sama og ,,að sækja um og fara inn``.

Þegar kemur að afstöðunni til erlends hers og hernaðarbandalaga þá hefur einnig verið boðið upp á ýmislegt dapurlegt þessa síðustu daga, herra forseti. Á ég þá við fleira en fylgispekt Halldórs Ásgrímssonar utanrrh. við línuna frá Washington. En utanrrh. er, eins og kunnugt er, einn helsti aðdáandi amerískrar utanríkisstefnu á norðurhveli jarðar um þessar mundir.

Reynslan af samstarfi Sjálfstfl. og Framsfl. hefur jafnan verið slæm og þjóðin hefur yfirleitt kvatt slíkar stjórnir með litlum söknuði. En það er ekki nóg og verður ekki nóg að veita stjórnarflokkunum verðskuldaða ráðningu í næstu kosningum. Einnig þurfa að felast í úrslitunum skýr skilaboð um hvað menn vilja í staðinn. Með því að veita Vinstri heyfingunni -- grænu framboði stuðning gera menn allt í senn. Menn láta í ljós skýr skilaboð um áherslur í þágu vinstri stefnu og umhverfisverndar. Menn mótmæla núverandi stjórnarstefnu misskiptingar, frjálshyggju og einkavæðingar og sofandaháttar í umhverfismálum. Og menn veita nýrri hreyfingu, nýjum málsvara mikilvægra hugsjóna og gilda, brautargengi.

Herra forseti. Ísland er gott land og við erum gæfusöm þjóð að fá að búa hér og nýta auðlindir þess. En við höfum einnig fengið þetta land til varðveislu, að láni, eins og stundum er sagt, frá börnum okkar, barnabörnum og komandi kynslóðum. Við sem nú lifum höfum mitt í allsnægtunum, þótt þeim sé að vísu misskipt, ekkert okkur til afsökunar ef við sökum græðgi eða vegna fyrirhyggjuleysis spillum lífsgæðum komandi kynslóða með rányrkju eða náttúruspjöllum.

Sem sjálfstæðri þjóð hefur okkur Íslendingum á síðari helmingi þessarar aldar vegnað vel. Með því að nýta hugvit okkar og auðlindir lands og sjávar hefur okkur orðið mikið ágengt. En við getum gert betur. Við þurfum að rjúfa vítahring lágra launa og langs vinnudags. Við þurfum að bæta aðstæður og kjör barnafólks. Við þurfum að veita öryrkjum, öldruðum og öðrum sem lakar standa að vígi eðlilega hlutdeild í aukinni hagsæld. Við þurfum að snúa við byggðaröskuninni og hefja sókn í þeim efnum þannig að þjóðin njóti gæða landsins alls í framtíðinni. Og við eigum umfram allt að varðveita fjöreggin okkar, sjálfstæði þjóðarinnar, menningu og tungu og landið sjálft, auðlindir þess og náttúru, í samræmi við það sem þessi fjöregg eru, það dýrmætasta sem þjóðin á.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Lifið heil.