Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 22:28:41 (4472)

1999-03-08 22:28:41# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[22:28]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Á næsta ári verða liðin 90 ár frá því að samþykkt var að gera 8. mars, daginn í dag, að alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Það gerðist á ráðstefnu verkakvenna í Kaupmannahöfn árið 1910 og var dagurinn einkum tengdur verkalýðshreyfingunni og baráttunni fyrir kosningarrétti kvenna framan af öldinni. Þegar sá réttur var tryggður kom bakslagið með heimskreppu og stjórnarherrum sem sviptu konur áunnum réttindum í stórum hluta Evrópu. Meðan sú óáran gekk yfir bar lítið á 8. mars sem baráttudegi.

Meðan heimsstyrjöldin síðari geisaði héldu konur um víða veröld uppi verksmiðjum og þjónustu, en karlar börðust á vígvöllunum. Eftir styrjöldina komst karlveldi allra landa að þeirri einróma niðurstöðu að senda ætti konur heim til að rýma fyrir körlum á vinnumarkaði, hvernig sem á stóð. Rekinn var gífurlegur áróður til að sannfæra konur um að hin æðsta sæla fælist í velskaffandi eiginmanni, fullu húsi af börnum og fögru heimili þar sem ryksuga, þvottavél og ísskápur innsigluðu lífshamingjuna. Enn bar lítið á 8. mars.

Tilbúin glansmynd eftirstríðsáranna stóðst ekki lengi, enda miklar þjóðfélagsbreytingar í gerjun. Þar kom á sjöunda áratugnum að kvennabaráttan braust fram að nýju með miklum krafti, enda ekki vanþörf á. Þá var rifjað upp að einu sinni höfðu konur átt sinn baráttudag og hefur hann verið nýttur til að vekja athygli á margvíslegum málefnum kvenna æ síðan.

[22:30]

Hæstv. forseti. Frá því að ég var unglingsstúlka í menntaskóla hef ég fylgst með íslenskri kvennabaráttu og verið virkur þátttakandi í henni í meira en 20 ár, fyrst í Rauðsokkahreyfingunni sem einkum beindi sjónum að stöðu kvenna á vinnumarkaði, síðan í Kvennaframboðinu í Reykjavík og Kvennalistanum.

Upp úr 1980 varð stefnubreyting í kvennaumræðunni hér á landi er sú hugmynd kom upp að taka upp gamla baráttuaðferð og bjóða fram sérlista kvenna. Hugmyndin var ekki einungis sú að koma konum að eins og það var orðað í upphafi aldarinnar, heldur að halda inn fyrir múra karlveldisins, það kerfi sem var smíðað af körlum fyrir karla, til þess að breyta því innan frá. Sérframboð kvenna komu fram að nýju í sveitarstjórnarkosningunum 1982 og hafa átt fulltrúa á Alþingi frá 1983.

Í tæp 16 ár starfaði þingflokkur Kvennalistans á Alþingi Íslendinga. Sögu hans lauk fyrir örfáum vikum eftir mikið átakaskeið. Þar með urðu enn á ný þáttaskil í íslenskri kvennabaráttu. Sögu einnar merkilegustu stjórnmálahreyfingar aldarinnar er að ljúka og ég hygg að það muni líða ár og dagur þar til konur reyna aftur leið sérframboðanna.

Þótt ég hafi sjálf yfirgefið Kvennalistann fyrir meira en ári síðan eftir að hafa lagt framboðshreyfingu kvenna lið frá fyrsta degi ætla ég að leyfa mér að leggja dóm á það starf sem unnið hefur verið.

Á þessum 16 árum hefur Kvennalistinn unnið mikið og merkilegt verk og hann hefur haft mikil áhrif. Á þessum tíma hefur hlutur kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum vaxið verulega þótt við séum enn langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum. Fjöldamörg ný mál sem snerta hag kvenna hafa verið tekin til umræðu og öðrum þokað áfram, svo sem um ofbeldi gegn konum og börnum, um fæðingarorlof, heilsu kvenna, kaup og kjör, að ekki sé minnst á umhverfismálin sem Kvennalistinn flutti inn í sali Alþingis, en höfðu áður verið talin Íslendingum nánast óviðkomandi. Síðast en ekki síst var Kvennalistinn stöðug áminning til valdhafa um að hvorki á né má ganga fram hjá konum og að hagsmunir þeirra krefjast aðildar þeirra sjálfra að valdastofnunum samfélagsins, aðgerða og nýs hugsunarháttar.

Þótt saga Kvennalistans á Alþingi sé nú öll eru verkefnin ærin. Vinna okkar í félagsmálanefnd Alþingis undanfarnar vikur við nýtt frumvarp um jafnrétti kynjanna sannfærði mig um að kominn er tími til að söðla um. Nú þarf að efla baráttu kvenna utan stjórnkerfisins og beina sjónum að vinnumarkaðnum að nýju. Þar ríkja gamalgrónar hugmyndir um konur sem nauðsyn er að breyta. Þar blasa enn við okkur lág laun kvenna, óþolandi launamisrétti, erfiðleikar fólks við að samræma einkalíf og atvinnu sem og heilu atvinnugreinarnar sem nánast eingöngu er stjórnað af körlum. Að ekki sé nú talað um aðila vinnumarkaðarins, þar sem einsleitir karlahópar viðhalda Mesópótamíulögmálunum eftir bestu getu. Það er enn mikið verk að vinna í þágu kvenna, en til þess að það verði unnið þarf lifandi umræðu og lifandi hreyfingu. Sú hreyfing er því miður ekki lengur til hvað sem síðar verður.

Hæstv. forseti. Þegar ég nú kveð sali Alþingis eftir átta ára setu er það með blendnum tilfinningum. Ég get ekki leynt því að ég er afar vonsvikin yfir því hvernig fór fyrir þeirri merku hreyfingu sem ég var kosin fulltrúi fyrir. Það verður verkefni sagnfræðinga framtíðarinnar að greina hvernig það gerðist að þessi hreyfing sem ætlaði sér að sameina konur, velta um valdastólum, snúa hefðbundnum valdapíramídum við, breyta vinnubrögðum og áherslum, já, hvernig það gerðist að sú niðurstaða varð ofan á að þessi fyrrum róttæka kvennahreyfing ætti best heima í hefðbundnum krataflokki.

Á dögunum gaf Kvenréttindafélag Íslands út bókina Gegnum glerþakið. Þar draga þrjár sænskar blaðakonur saman reynslu fjölmargra kvenna á Norðurlöndum af pólitísku starfi. Niðurstaða þeirra svarar að mínum dómi þeirri spurningu hvers vegna fór sem fór fyrir Kvennalistanum. Rótgróið stjórnmálakerfið malar og malar og steypir smám saman alla í sama mótið ef menn ekki halda vöku sinni, hvort sem þeir tilheyra sænskum sósíaldemókrötum, dönskum sósíalistum, hægri mönnum í Noregi eða íslenska kvennalistanum. Hin ævagömlu lögmál karlveldisins eru enn býsna sterk og þau vinna sitt verk.

Niðurstaða sænsku blaðakvennanna er sú að það þurfi kvennabyltingu, byltingu sem hafi það að leiðarljósi að breyta vinnubrögðum og snúa valdapíramídanum við.

Hæstv. forseti. Jafnframt vonbrigðum er ég líka ákaflega þakklát. Ég er þakklát fyrir það tækifæri sem mér hefur gefist til að beita mér í þágu kvennabaráttunnar í starfi mínu sem þingmaður. Ég hef átt þess kost að kynnast nánast öllum geirum samfélagsins, ég hef hitt alls konar konur og karla, bændur og sjómenn, verkakonur og verkstjóra, atvinnurekendur, skólamenn og vísindamenn. Starf alþingismannsins hefur leitt mig til Kína og Albaníu, Grænlands og Færeyja, inn í Evrópuráðið, EFTA og Vestnorræna þingmannaráðið. Ég hef ferðast um landið mitt, upp á jökultinda, út í eyjar, um fjöll og dali, þorp og kaupstaði, heimsótt jafnt frystihús, fjós, fjárhús og refabú sem sjúkrahús og skóla í krafti þingmennskunnar.

Fyrir alla þessa margvíslegu reynslu er ég afar þakklát sem og þá hvatningu og stuðning sem ég hef notið. Mikilvægust eru þó kynnin af þeim konum sem löngum héldu fána kvennabaráttunnar á lofti og öllum þeim stjórnmálamönnum, konum og körlum, sem átt hafa samleið með mér þessi átta ár. Þá má ekki gleyma starfsfólki Alþingis sem oft leggur nótt við dag til þess að löggjafarstarfið megi hafa sinn gang. Um leið og ég þakka ykkur öllum samvinnuna á ég þá ósk heitasta Alþingi til handa að þjóðin megi fá jákvæðari sýn á allt það mikilvæga og merka starf sem unnið er hér innan dyra þrátt fyrir margvíslegan pólitískan ágreining. Ég trúi því að með auknum hlut kvenna, með virðingu og aðgerðum í þágu kvenfrelsis, jöfnuðar og réttlætis verði lýðræðið best treyst í sessi og þar með staða Alþingis.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum vitna í bók sænsku blaðakvennanna, Gegnum glerþakið, okkur öllum til umhugsunar. Þær segja:

,,Nú á dögum ríkir glundroði vegna þess að draumum og hugsjónum hefur verið útrýmt úr stjórnmálunum. Skortur á draumum veldur óöryggi, þörf fyrir að fylgjast með öðrum og jafnvel hræðslu og hagsmunapoti. Eitthvað alvarlegt hefur gerst síðan á 8. áratugnum þegar Palme sagði að vilji væri allt sem þyrfti. Þá þýddi stjórnmálaþátttaka að vera með og hafa áhrif. Ungu fólki fannst framlag sitt mikilvægt. Nú hafa afskaplega fáir trú á að framlag einstaklingsins sé einhvers virði. Og hvers vegna skyldu þeir þá vera með?

Skortur á hugsjónum og einlægni í sænskum stjórnmálum bendir til að eitthvað sé að. Fólk lokar augunum fyrir því að vinnufyrirkomulag stjórnmálanna leiðir til misréttis. Lýðræðið --- sem vissulega er ófullkomið, en lýðræði þó --- er í lífshættu. Fjöldinn er óvirkur og málsmetandi menn eru jafnvel farnir að láta sér um munn fara að lýðræðið verði að takmarka vegna þess að það standi efnahagslegum framförum fyrir þrifum.

Það er kominn tími til að hver og einn þori að grandskoða þátt sinn í þessu kúgandi kerfi. Konurnar líka.`` --- Góðar stundir.