Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 22:38:00 (4473)

1999-03-08 22:38:00# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, VS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[22:38]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir nokkrum dögum var þess minnst að 100 ár voru liðin frá fyrsta búnaðarþingi. Athöfnin var með miklum myndarbrag. Afurðir íslenskra bænda voru bornar fram, vara sem sómir sér við hvaða veisluborð sem finnst á byggðu bóli. Á fyrsta búnaðarþingi snerist barátta bænda um að útvega hrífu og kvísl.

Nú er öldin önnur og hagsmunamálin flóknari. Engu að síður er enn full þörf á samstöðu og vilja til þess að snúa bökum saman hjá bændastéttinni eins og öðrum stéttum þjóðfélagsins. Þróun íslensks samfélags í 100 ár hefur verið byltingarkennd. Það er ekki sjálfsagður hlutur að þróunin varð á þennan veg. Margt ræður þar um, m.a. stjórnvaldsaðgerðir.

Það ríkir meiri sátt um íslenskan landbúnað nú en verið hefur lengi. Ég fullyrði að það er vegna þess að vel hefur verið haldið á málefnum bænda í tíð núv. landbrh. Samningar hafa náðst við bændur um framleiðslu í mjólk og sauðfé og fyrir nokkrum dögum náðist samkomulag um fjárframlög til þróunar og nýsköpunar í landbúnaði svo sem leiðbeinendaþjónustu. Íslenskur landbúnaður hefði getað hrunið ef þau stjórnmálaöfl sem vissulega voru hávær í þjóðfélaginu og ráku áróður gegn honum fyrir nokkrum árum hefðu haft meiri völd. Mér segir svo hugur að hættan sé ekki liðin hjá. Áfram þarf að vinna að því að bæta kjör bænda, ekki síst vegna þeirrar þjóðmenningar sem við hljótum að vilja hlúa að og varðveita.

Háskólarektor sagði nýlega í útvarpsviðtali að hann teldi að sá tími væri ekki langt undan að þróun í byggðamálum mundi snúast við og fólk færi aftur að flytja út á land. Fólk muni meta meira en nú er návistina við fagra náttúru og kyrrð sveitanna. Til þess að svo geti orðið þarf umræðan að breytast. Það er mikilvægt að þeim þáttum sé haldið á lofti sem eru landsbyggðinni í hag og sem styrkja sjálfsímynd landsbyggðarfólks.

Það er áhyggjuefni hversu lítið er orðið um að börn fái að kynnast lífi í sveit, fái að vasast innan um dýrin og eignast þau að vinum. Það lofar ekki góðu ef einu kynnin af dýrum eru gegnum kvikmyndir sem oft eru nokkuð langt frá raunveruleikanum. Við eigum að líta á sveitirnar sem verðmæti, sem auðlind sem okkur ber að nýta og varðveita.

Nú er farsælt kjörtímabil fyrir íslenskt samfélag senn á enda. Fjögur ár eru liðin síðan Framsfl. kom að ríkisstjórnarborðinu og tók við þeim ráðuneytum sem Alþýðuflokkurinn -- jafnaðarmannaflokkur Íslands, hafði farið með í síðustu ríkisstjórn. Það var kallað þá að okkar ráðherrar hefðu ekki fúlsað við að fara í kratabælin.

Það er hins vegar aðalatriðið að okkur tókst að skipta á rúmunum. Það er allt öðruvísi umhorfs í þjóðfélaginu í dag en það var fyrir fjórum árum. Þetta sjá allir sem sjá vilja en ég ætlast ekki til að stjórnarandstaðan hafi gefið sér tíma til að velta þessu fyrir sér í önnum sameiningar eða miklu heldur sundrungar. Ég stenst ekki þá freistingu að minna á að hinn stóri og öflugi þingflokkur jafnaðarmanna, sem þingmenn hafa margnefnt í kvöld, er nákvæmlega jafnstór þingflokki framsóknarmanna.

Í upphafi þessa kjörtímabils var atvinnuleysið að festast í sessi eftir viðvarandi atvinnuleysi á síðasta kjörtímabili. Fólk, ekki síst ungt fólk flýði land af vantrú á framtíðarmöguleika í landinu. Nú segir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að hún þurfi að fá völdin til að gera þjóðfélagið fýsilegra fyrir ungt fólk.

Í upphafi kjörtímabilsins lá fyrir að viðlíka skuldasöfnun ríkissjóðs næsta áratug eins og áratuginn þar á undan hefði getað stefnt efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða. Slíkt hefði birst í því að erlendir lánardrottnar hefðu getað sett Íslendingum skilyrði um efnahagsaðgerðir. Nú er staðan sú að skuldir ríkissjóðs verða greiddar niður um 30 milljarða á árunum 1998 og 1999. Sparnaður ríkissjóðs af lægri vaxtagreiðslum vegna þessa skiptir þegar milljörðum króna.

Það er athyglisvert að Samfylkingin svokallaða hefur reynt að telja fólki trú um að hún ein sé að berjast fyrir lítilmagnann í þjóðfélaginu. Man nokkur eftir krataskerðingunum frá síðasta kjörtímabili? Allt var tekjutengt sem viðkom félagslegum greiðslum og þjónustugjöldum var komið á þar sem þeim var við komið. Lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna var breytt þannig að aðeins þeir efnameiri höfðu möguleika til langskólanáms. Var þetta allt saman gert af félagslegum hugsjónum?

Hvað sem líður taugaveiklun nýs formanns vinstri flokksins, vinstra framboðsins eða hvað það nú heitir, þá er Framsfl. og verður félagshyggjuflokkur. Við framsóknarmenn höfum í þessari ríkisstjórn staðið vörð um velferðarkerfið og ég held því fram að það hafi verið styrkt verulega. Okkur vannst ekki tími til að afnema allar krataskerðingarnar en vonandi fáum við styrk til þess að halda starfi okkar áfram eftir kosningar og halda áfram á þeirri braut.

Í desember sl. var stigið fyrsta skrefið í þá átt að minnka skerðingu á lífeyri öryrkja vegna tekna maka. Það er í fyrsta skipti sem tekið er á þessu óréttlæti en lögin eru um 30 ára gömul. Þegar þeim var breytt í tíð síðustu ríkisstjórnar, kratastjórnarinnar, var ekki gerð breyting á þessu ákvæði þrátt fyrir að Öryrkjabandalagið hafi barist fyrir því. Hvernig var svo ástandið í húsnæðismálum í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrrv. félmrh.? Eru landsmenn búnir að gleyma afföllunum í húsbréfakerfinu? Það var hægt að fá húsbréf en afföllin voru allt að 25%. 4 milljónir urðu að 3 milljónum í höndum húsbyggjenda. Auk þess var félagslega kerfið komið í slíkar ógöngur að neyðaróp barst frá sveitarstjórnarmönnum um úrbætur. Þetta var kerfið sem þingmaðurinn sá svo eftir að skyldi aflagt að hún talaði í 10 klukkustundir úr þessum ræðustól. Hún setti vissulega landsmet, landsmet sem lítill sómi var að.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun sem m.a. kveður á um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Kjörorð áætlunarinnar er: Maður, nýting, náttúra. Engri þjóð er það mikilvægara en okkur Íslendingum að finna þann gullna meðalveg sem hafa ber að leiðarljósi í ákvörðunartöku um nýtingu náttúruauðlinda til hagsældar fyrir fólkið í landinu.

Í 1200 ár höfum við búið í landinu og lifað af því sem það hefur gefið okkur. Stundum höfum við gengið of nærri landinu sem oft gerðist af vankunnáttu en þó fyrst og fremst af brýnni neyð. Nú eigum við að hafa þekkingu til að bera þannig að ekki verði tekið af höfuðstól þegar um endurnýjanlegar orkulindir er að ræða.

Það er ánægjulegt að á næstu dögum verða væntanlega ný náttúruverndarlög að lögum á hv. Alþingi sem er metnaðarfull lagasetning.

Hæstv. forseti. Ég vil að síðustu þakka fyrir samskiptin á þessu kjörtímabili við samherja og andstæðinga. Öll verk mannsins eru umdeilanleg og það eru pólitískar ákvarðanir að sjálfsögðu líka. Það verður seint sagt um þau fjögur ár sem nú eru að baki að yfir þeim hafi ríkt lognmolla. Fjöldi stórmála hefur orðið að lögum og grundvallarbreyting hefur verð gerð í veigamiklum atriðum sem varða allar starfsgreinar og félagslegt umhverfi. Grunnurinn hefur verið lagður fyrir kynslóðir framtíðarinnar að byggja á sókn til betra lífs og meiri framfara á nýrri öld. --- Ég býð góða nótt og þakka áheyrnina.