Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:32:07 (4474)

1999-03-09 10:32:07# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:32]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Sl. fimmtudag fór ég þess á leit við hæstv. dómsmrh. Þorstein Pálsson að utandagskrárumræða yrði í þinginu um löggæsluna í Grindavík.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að alveg síðan 1992, þegar lögreglan í Grindavík var sameinuð lögregluembættinu í Keflavík, hefur stöðugur niðurskurður verið á löggæslu í þessum einum stærsta útgerðarbæ á Suðurnesjum. Fram til þess tíma hafði þótt sjálfsagt að hafa fimm menn í einu á vakt um helgar sem þýddi að hægt var að gera út tvo lögreglubíla og hafa einn mann á stöð. Þá voru að jafnaði tveir menn á útkallsvakt. Nú hefur verið fækkað niður í þrjá á vakt, aðeins einn bíll er til ráðstöfunar, hinn bíllinn var færður til Keflavíkur 1998.

Árið 1995 var ákveðið að aðeins einn maður yrði á útkallsvakt í sparnaðarskyni og til að forða því að félagi þeirra lenti einn í hættuástandi hafa lögreglumennirnir sjálfir tekið það á sig að vera til taks, ef svo bæri undir, launalaust. Bakvaktin sem er alger lágmarksneyðarráðstöfun hefur kostað ríkið um 1.200 þús. kr. á ári.

Nú er fyrirhugað að því er sagt er í sparnaðarskyni að sinna bakvöktum frá Keflavík en það tekur lágmark 25 mínútur að komast frá Keflavík til Grindavíkur og er þá miðað við að lögreglubíllinn standi fullmannaður tilbúinn á hlaðinu hjá lögreglustöðinni sem er auðvitað ekki nálægt því alltaf því að lögreglan í Keflavík er líka undirmönnuð. Þessar ráðstafanir, sem ekki hefur verið unnt að fá afturkallaðar þrátt fyrir harða baráttu bæjarstjórnar Grindavíkur, hafa valdið miklum ugg í bænum. Menn óttast mjög um öryggi fólks á svæðinu en þarna eru fjölsetnar verbúðir og mikill fjöldi aðkomufólks í bænum. Við þessar aðstæður fór ég fram á utan dagskrárumræðu um málið.

Er skemmst frá því að segja að hæstv. dómsmrh. kvaðst vera á útleið úr þinginu og hann yrði ekki viðstaddur þar meira. Hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason mundi gegna fyrir hann. En þegar leitað var eftir því var hæstv. ráðherra ekki tilbúinn til að taka utandagskrárumræðuna heldur. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort honum finnist ekki æskilegt að hæstv. ráðherrar verði við slíkum beiðnum og hvort hæstv. forseti muni beita sér fyrir því að utandagskrárumræðan geti farið fram.