Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:36:24 (4477)

1999-03-09 10:36:24# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Auðvitað er umhugsunarefni að erfitt er fyrir þingmenn að nýta þá heimild sem þeir hafa til utandagskrárumræðu, t.d. ef ráðherra er fjarverandi, er ekki í þinginu eins og í þessu tilviki. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ráðherra sem leysir af í slíku tilviki þekkir ekki málin og það munum við væntanlega fá að heyra. Það er umhugsunarefni að þingmenn muni ekki eiga möguleika á að fá umræðu um brýn mál og þetta er miklu stærra mál en það hljómar.

Hvers vegna skyldu svo vera átök núna um löggæslumál í Grindavík? Það er vegna þess að í fjárlögum var sýslumönnum þröngt skorinn stakkur og ég spyr stjórnarliða: Vissu þeir, þegar þeir voru að afgreiða fjárlög í desember, að sýslumenn yrðu að grípa til niðurskurðar á jafnmikilvægum þætti og eftirlitsstörf á þessum smærri stöðum eru að skera niður bakvaktirnar á stöðum eins og Grindavík, sjávarútvegsplássi? Vita hv. þm. að fyrirhugað er, herra forseti, á fleiri stöðum en á Suðurnesjum og Grindavík að skera niður bakvaktir? Vita hv. þm. að fyrir liggur að það verði gert á Vesturlandi? Vita hv. þm. að það liggur fyrir að sýslumenn víða um land eigi engan kost á að uppfylla fjárlagaramma sinn og standa við fjárlög sín öðruvísi en grípa til slíkra aðgerða og þeir eru víðar búnir að sjá að eina leiðin er að þurrka út bakvaktirnar á litlu stöðunum, ágætu þingmenn? Þetta er það sem við blasir á síðustu dögum þingsins þegar við fáum ekki utandagskrárumræðu til að ræða slík mál.

(Forseti (ÓE): Forseti bendir á að það stendur yfir umræða um störf þingsins en ekki efnisleg umræða um lögreglumál í Grindavík.)