Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:43:09 (4481)

1999-03-09 10:43:09# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:43]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að taka málið upp. Það er í reynd tvíþætt, þ.e. alvarleiki málsins og að það þurfi úrbætur. Það er hins vegar ekki til umræðu heldur hvort fara hefði átt fram utandagskrárumræða um þetta efni.

Ég tel, herra forseti, að svo hefði átt að vera. Það er alveg ljóst að þó svo dómsmrh. sé að skyldustörfum erlendis gegnir annar ráðherra störfum fyrir hann. Það er ekki svo að það hefði verið gagnslaust að hafa hæstv. menntmrh. til svara varðandi þetta mál því að spurningarnar hefðu verið mjög einfaldar, þ.e. til hvaða úrbóta hæstv. dómsmrh. mundi grípa varðandi þetta mikla vandamál og þeirra svara getur ráðherra þá leitað í samvinnu við embættismenn í dómsmrn. En það er svo augljóst að humma á málið fram af sér þar til þing er farið heim. Það gefst því ekki tækifæri fyrir okkur þingmenn að draga fram hversu alvarlegt það vandamál er sem snýr að löggæslumálum í Grindavík. Það er ámælisvert, herra forseti, að þessi utandagskrárumræða skyldi ekki fara fram. Þó að það sé réttur ráðherra að neita því með þessum hætti hefði hann að mínu mati ekki átt að gera það með þessum rökum vegna þess að spurningin í málinu var mjög einföld.