Raforkuver

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 11:17:06 (4490)

1999-03-09 11:17:06# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[11:17]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta hv. iðnn. um raforkuver.

Allmörg mál hafa verið á dagskrá nefndarinnar á þessum vetri og sérstaklega upp á síðkastið hefur verið að bætast í það safn og fundir haldnir allt fram á þennan dag. Um mörg málanna hefur verið gott samkomulag eins og fram hefur komið á fundum og í atkvæðagreiðslum, síðast á þessum morgni. Eitt mál sker sig þó úr í þessum efnum og það er málið sem hér er á dagskrá, frv. til laga um breytingu á lögum um raforkuver, og hef ég skilað um það minnihlutaáliti.

Ég fagna því, virðulegur forseti, að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er meðal þeirra sem fylgjast með umræðunni, og ég held að æskilegt væri að hv. þm. yrði viðstaddur að hluta til vegna þess að ég ætla að beina til hans orðum. Málið snertir þingheim allan að sjálfsögðu og er margt sem þarf að koma að í sambandi við frv.

Þannig vill til, virðulegur forseti, að frv. sem kom fyrir nefndina var í þremur efnisþáttum en af hálfu meiri hluta iðnn. hefur einum þætti verið aukið við eins og fram kemur í brtt. við frv., þ.e. að heimila sérstaka jarðvarmavirkjun, 40 megavött að afli, í Bjarnarflagi í Mývatnssveit.

Það eru auðvitað talsverð tíðindi, virðulegur forseti, þegar Alþingi, ekki framkvæmdarvaldið heldur Alþingi, tekur sig til að flytja tillögu um að veita heimild fyrir sérstakri jarðvarmavirkjun í hjarta Mývatnssveitar. Ég kem að því síðar í umræðunni en málið allt er þess eðlis að varpa þarf á það ljósi og ég ætla að kynna, virðulegur forseti, a.m.k. nokkra þætti úr nál. minni hlutans sem ég tala hér fyrir og er reyndar eini talsmaður fyrir í nefndinni, því að fyrir utan stjórnarliða sem sameinast um þetta mál sem eru kannski ekki stór tíðindi að öðru leyti en því sem snertir tillöguflutninginn varðandi Bjarnarflagsvirkjun, þá styðja fulltrúar Samfylkingarinnar svonefndu í nefndinni þetta mál, ég held án fyrirvara, og er athyglisvert að þeir skuli þjappa sér upp að ríkisstjórnarliðinu í þessu máli í sambandi við frv.

Þetta frv., virðulegur forseti, felur í sér nýjar virkjanaheimildir fyrir Landsvirkjun sem nema allt að 270 megavöttum í afli. Orku frá viðkomandi þremur virkjunum er að langmestu leyti fyrirhugað að selja til orkufreks iðnaðar. Orkuframleiðslan frá virkjununum, miðað við sölu til orkufreks iðnaðar, gæti numið um 2 teravattstundum miðað við sölu til stóriðju, en eins og menn þekkja er einingin tera með níu núll frá grunneiningunni frá vattstundum reiknað. Ég hef kosið að nota þá einingu hér til einföldunar vegna þess að það er óþægilegt fyrir marga að vera að setja þessi mál inn í stórar tölur þegar um er að ræða orkuframleiðslu og ástæðulaust þegar við höfum í raun eininguna tera til að miða við. Það er vert fyrir okkur, virðulegur forseti, að hafa það í huga í þessu sambandi að orkuforði landsmanna, miðað við hagkvæma kosti eins og það hefur verið reiknað af sérfræðingum, Orkustofnun og fleirum, hefur lengi verið miðaður við um 50 teravattstundir samtals, vatnsafl og jarðvarmi meðreiknað. Einhver viðleitni hefur verið til að hækka þessa tölu nokkuð upp á síðkastið, allt upp í 57 teravattstundir, en á hverju það byggir hef ég ekki kannað sérstaklega. Menn sjá af því að það framleiðslumagn sem fælist í þessum virkjunum er umtalsvert miðað við orkuforða í landinu, hagkvæman orkuforða á mælikvarða verkfræðinnar.

Heildarraforkuframleiðsla á Íslandi nam á síðasta ári um 6,5 teravattstundum, þar af til stóriðju um 3,8 teravattstundum að ótryggðri orku meðtalinni. Ég nefndi áðan 2 teravattstundir út úr þessu afli sem hér er verið að afla heimilda fyrir af hálfu Alþingis og sem ætlað er að renni að mestu leyti til stóriðju, þannig að menn sjá að þetta er stór upphæð miðað við það sem framleitt er og selt er til stóriðju í landinu nú.

Þá er lagt til í frumvarpinu að flytja virkjanaheimild vegna Villinganesvirkjunar í Skagafirði frá Landsvirkjun til Rafmagnsveitna ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði. Er þar um að ræða heimild sem nemur 40 megavatta afli og áætlaða 180 gígavattstunda orkuframleiðslu, sem væri í teravattstundum 0,180 teravattstundir á ári. Minni hlutinn getur stutt þá breytingu sem þar er um fjallað en með fyrirvörum þó um útfærslu virkjunarinnar, mat á umhverfisáhrifum og samhengi virkjunarinnar varðandi virkjun ofar í Héraðsvötnum.

Vöxtur almenns orkumarkaðar kallar ekki á umtalsverðar virkjunarframkvæmdir á næstu fimm árum umfram það sem yrði til ráðstöfunar í raforkukerfinu eftir að núverandi virkjunarframkvæmdum lýkur. Orkuspárnefnd áætlar vöxt í almennri raforkuþörf fram til ársins 2005 um 350 gígavattstundir (0,350 teravattstundir á ári.)

Virkjanaheimildirnar sem afla á fyrir Landsvirkjun samkvæmt tillögum meiri hlutans eru vegna Vatnsfellsvirkjunar 110 megavött og Búðarhálsvirkjunar 120 megavött á Þórisvatns-Tungnaársvæðinu og jarðgufuvirkjunar í Bjarnarflagi í Mývatnssveit 40 megavött. Stóriðjan sem sögð er kalla á þessar virkjanaheimildir er stækkun álbræðslu Norðuráls á Grundartanga um 30 þúsund tonn á ári, hugsanleg orkusala til fjórða ofns járnblendiverksmiðjunnar og bygging álbræðslu á Reyðarfirði, en þangað er gert ráð fyrir eða fyrirhugað að selja orkuna frá Bjarnarflagsvirkjun samkvæmt því sem fram kom á fundi iðnn. af hálfu talsmanna Landsvirkjunar og sem lesa má um í frægu fylgiriti með Morgunblaðinu fyrir tíu dögum síðan varðandi álbræðslu á Austurlandi.

(Forseti (ÓE): Það er fullmikill hávaði í salnum.)

Já, virðulegur forseti, ég þakka fyrir. Það er full ástæða fyrir hv. þingheim að velta fyrir sér þeim aðstæðum sem tengjast frv., þar á meðal fulltrúum Samfylkingarinnar svokölluðu.

Þessar stóriðjuhugmyndir sem þarna er um rætt hvíla á veikum grunni svo ekki sé meira sagt. Að minnsta kosti á það við um fjórða ofn við járnblendiverksmiðjuna sem engum dettur í hug að verði á dagskrá á næstunni, nema kannski hæstv. iðnrh. og nánasta skylduliði, sem og álbræðslu Norsk Hydro á Reyðarfirði. En eins og kunnugt er eru það einungis örfáir sanntrúaðir í forustu Framsfl. sem hafa þau orð uppi að sá möguleiki geti verið raunhæfur á næstunni. Því eru út frá stóriðjuforsendum ríkisstjórnarinnar lítil sem engin rök til þess að veita nú umbeðnar virkjanaheimildir til Landsvirkjunar.

Í greinargerð með frv. er staðhæft að gera þurfi, eins og þar segir, ,,ráð fyrir að sala til stóriðjufyrirtækja aukist umtalsvert og að ný fyrirtæki hefji rekstur``. Auk fyrrgreindrar stóriðju er þar nefnd stækkun álbræðslu Ísals um 40 þúsund tonn, stækkun álbræðslu Norðuráls um 90 þúsund tonn í viðbót og magnesíumverksmiðja á Reykjanesi. Þetta samanlagt mundi samkvæmt greinargerð með frv. kalla á um 4 teravattstundir í viðbót í orku á ári eða samtals 480 megavatta aflaukningu. Er þá ekki meðtalin 480 þúsund tonna risaálbræðsla Norsk Hydro á Reyðarfirði, sem hugmyndir hafa verið uppi um, og virkjanir henni tengdar í Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá á Dal til að fullnægja orkuþörf hennar sem nemur ekki minna en 7 teravattstundum á ári. Ég tel, virðulegur forseti, að menn þurfi að setja þessa tölu í samhengi við heildarorkuframleiðslu á síðasta ári í landinu sem nam 6,5 teravattstundum. Það er því ekkert smáræði sem þar er á blaði tengt álbræðsluhugmyndinni á Reyðarfirði.

Í heild gera þannig stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar ,,næsta áratug eða svo``, sem fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu, ráð fyrir aukinni orkuþörf til stóriðju sem svarar um 12 teravattstundum í viðbót við núverandi tæpar 4 teravattstundir sem bundnar eru í stóriðjusamningum. Ríkisstjórnin sér þannig fyrir sér að hér verði samtals um 16 teravattstundir af orku bundnar í málmbræðslum útlendinga eftir 10--12 ár --- kannski að Landsbankanum meðtöldum, virðulegur forseti, sem heyrst hefur að hafi áhuga á að leggja einhverja aura í púkkið.

[11:30]

Líta ber á, virðulegur forseti, hvers konar viðskipti eru þarna á ferðinni og að því er vikið í greinargerð minni hlutans nokkrum orðum. Ríkisstjórnin hefur, sumpart með stuðningi þeirra sem nú standa að Samfylkingunni, á undanförnum árum gert hvern samninginn á fætur öðrum við erlend stóriðjufyrirtæki. Má þar nefna samninginn um stækkun verksmiðju Ísals, um álbræðslu Norðuráls á Grundartanga og þriðja ofn Íslenska járnblendifélagsins. Ég hygg að t.d. hv. þm. Gísli S. Einarsson sem hlýðir á umræðuna kannist við áhuga sinn, virðulegur forseti, á þessari síðasttöldu uppbyggingu og viðbótum við hana.

Öllum þessum samningum fylgdi starfsleyfi um langtum rýmri framleiðslumörk á sama tíma og í undirbúningi var Kyoto-bókunin svonefnda sem setur losun gróðurhúsalofttegunda ákveðin mörk. Þannig voru fyrirtækjunum færðar á silfurfati losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir sem hefðu getað kostað þau stórar fjárhæðir að gerðri bókuninni sem kennd er við Kyoto, þ.e. bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Þessi fyrirframgreiðsla, sem svo má kalla, til stóriðjufyrirtækjanna bætist við sáralágt raforkuverð í samningum Landsvirkjunar við þau. Samningar þessir hafa verið lýstir viðskiptaleyndarmál í tíð hæstv. núv. iðnrh. þannig að þeir liggja ekki opnir til skoðunar fyrir Alþingi Íslendinga og frjálsrar umræðu. Það er kapítuli út af fyrir sig. Í því sambandi hefur stundum verið vitnað til þess að alþjóðlega gildi að slíkir samningar séu lokaðir sem viðskiptaleyndarmál. Ég veit að svo er alls ekki alls staðar. Það hefur því ekki við traustar hefðir að styðjast fyrir utan það að efnislega er um að ræða samninga opinbers fyrirtækis, Landsvirkjunar. Þeir eiga auðvitað að vera til frjálsrar skoðunar fyrir þingið, eftir atvikum á lokuðum fundi, virðulegur forseti, ef menn vilja ekki ræða málið fyrir opnum tjöldum.

Ekki þarf langt að leita til að við blasi hið óhæfilega lága raforkuverð samkvæmt gildandi stóriðjusamningum, bæði gömlum og nýjum og það þrátt fyrir að tekist hafi að leiðrétta nokkuð raforkuverð til Ísal-bræðslunnar 1984, í framhaldi af hörðum deilum íslenskra stjórnvalda við fyrirtækið vegna skattsvika. Þær gerðu raunar kleift að ná samningsstöðu til að tvöfalda raforkuverðið. Undirritaður óskaði eftir yfirliti frá Landsvirkjun um rafmagnssölu Landsvirkjunar árið 1998. Þaðan barst það iðnn. og er að finna sem sérstakt fylgiskjal með nefndaráliti.

Samkvæmt yfirlitinu sem fylgir áliti minni hlutans, þ.e. fylgiskjali III með nefndaráliti, var söluverð til almenningsveitna að meðaltali 2,86 kr. á kílóvattstund árið 1998, en til stóriðju aðeins 0,88 kr., þ.e. innan við þriðjungur af verði til almenningsveitna.

Virðulegur forseti. Þetta er meðalverð upp gefið af Landsvirkjun sem vissulega tíundar að verðið á árinu 1998 hafi verið óvenjulágt vegna lágs markaðsverðs á framleiðsluvörur stóriðjuvera. Auðvitað er það hluti af þessu dæmi að raforkuverðið er að nokkru leyti tengt við afurðaverð sem leiðir til þess að verðið hrapar verulega þegar illa árar. Það gerist nokkuð reglubundið með því að tengja hina einhæfu stóriðju, þar sem mest er veðjað á ál en auk þess á járnblendi, við markaðsverð með tilheyrandi djúpum sveiflum. Hugmyndirnar eru um stórfellda aukningu á þessari einhliða framleiðslu með tilheyrandi áhrifum og sveiflum fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Þetta er það sem snýr að raforkuverðinu.

Menn spyrja auðvitað: Hvað er eðlilegt hlutfall í þessum efnum? Sá sem hér talar gerir sér grein fyrir því og hefur flutt um það þingmál fyrir nokkru síðan, svo maður tali frjálslega um hvernig tíminn líður. Ég held að það hafi verið á árunum 1984--1985 sem ég ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur flutti tillögu um að bundið yrði í lög að hlutfall raforkuverðs til stóriðjufyrirtækja færi ekki niður fyrir ákveðna viðmiðun, það yrði bundið við ákveðið hlutfall. Í þeim þingmálum sem ég flutti ásamt hv. þm. og kannski öðrum, ég hef ekki farið ofan í þingskjölin nýlega, er að finna margháttaðar heimildir um hvað tíðkað var á þeim tíma erlendis, m.a. í Bandaríkjum Norður-Ameríku í sambandi við sölu til stóriðjufyrirtækja. Niðurstaða okkar var á þá leið, ef ég man rétt, að munurinn mætti ekki fara fram úr 50%. Hér er um að ræða þrefaldan verðmun samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar. Það er ekki að undra þó að margir stynji undan kostnaði í sambandi við raforkukaup, m.a. íslenskt atvinnulíf sem ekki nýtur þeirra kostakjara sem stóriðjan býr við. Þeir viðskiptahættir eru kapítuli út af fyrir sig.

Þar fyrir utan hafa Rafmagnsveitur ríkisins, samkvæmt þessu frv., óskað eftir sérstakri heimild til að yfirtaka ákveðna virkjun af Landsvirkjun í von um að geta með því lækkað raforkuverð til viðskiptavina sinna. Þó hefur verið litið svo á að Landsvirkjun, í krafti stærðar og góðra virkjunarkosta sem fyrirtækið hefur notið, ætti að vera fært um að skila þokkalega hagkvæmu verði. Má segja að það gæti litið þokkalega út út frá meðalkostnaði á framleiðslueiningu þó kannski sé það mjög afstætt og hafi reyndar verið talið að meðalframleiðslukostnaðarverðið frá fyrirtækinu væri tiltölulega hátt. Þar spilar inn í ýmislegt í sambandi við fjárfestingar sem ég ætla ekki að fara út í í tengslum við þetta mál.

Fyrir utan þessa viðskiptahætti eru fjölmörg önnur atriði sem tengjast stóriðjustefnunni sem nauðsynlegt er að varpa ljósi á, virðulegur forseti, hér og nú. Nú er 9. mars. Þann 15. mars rennur út eindagi fyrir íslensk stjórnvöld að undirrita svonefnda Kyoto-bókun og gerast þar með þátttakandi í því alþjóðaátaki til að draga úr loftslagsbreytingum. En stóriðjuframleiðslan og draumarnir um stórfellt áframhald á stóriðjuuppbyggingu í landinu, hefðbundinni stóriðjuuppbyggingu valda því að ríkisstjórnin hefur ekki fengist til að undirrita þá bókun.

Þessi samningur var undirritaður af Íslands hálfu á Ríó-ráðstefnunni og sá sem hér talar var raunar viðstaddur þá hátíðlegu athöfn er þáv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, undirritaði loftslagssamninginn. Þar var lagt kapp á að Ísland væri framarlega í röð þeirra sem biðu eftir að komast að til undirritunar. Síðan var samningurinn um loftslagsbreytingar staðfestur af Íslands hálfu nokkru seinna, þ.e. árið 1994. Hann gerir ráð fyrir því að iðnríki, þar á meðal Ísland, skyldu leitast við að stöðva aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda til árins 2000 þannig að hún yrði ekki meiri þá en hún var árið 1990. Nú stefnir hins vegar í 16% aukningu hérlendis árið 2000 og allt að 40% aukningu árið 2010 miðað við staðfesta stóriðjusamninga og þau starfsleyfi sem núverandi stóriðjufyrirtæki hafa tryggt sér, þ.e. að losunin fari yfir 4 millj. næstum upp í 4,2 millj. tonna í staðinn fyrir tæplega 2,9 millj. tonna árið 1990, á umreiknuðu ígildi koldíoxíðs.

Samkvæmt Kyoto-bókuninni við samninginn átti Ísland að fá 10% aukningu í losunarheimildum á sama tíma, þ.e. fram til tímabilsins 2008--2012 sem er viðmiðunartímabil. Flestum öðrum iðnríkjum er ætlað að skera verulega niður losun frá viðmiðunarmörkunum 1990. Stóriðjuáform stjórnvalda stefna hins vegar óralangt fram úr þessum mörkum. Til dæmis losar 500 þús. tonna álbræðsla um 1 millj. tonna árlega af gróðurhúsalofttegundum, umreiknað í koldíoxíðsígildi. Það er nokkurn veginn stærðin á álbræðslunni á Reyðarfirði. Um 1 millj. tonna af loftmengunarefnum, gróðarhúsalofttegundum mundi fylgja þeirri framleiðslu og heildarlosun Íslendinga er innan við 3 millj. tonna. Menn sjá því hvað fylgir þessu og er hægt að margfalda þetta með tveimur.

Nú hefur ríkisstjórnin, virðulegur forseti, uppi þann áróður í sambandi við þetta mál og reynir að færa sér það til betrunar, að með því að hér sé byggður upp þungaiðnaður sem losar gróðurhúsalofttegundir, knúinn af vatnsafli öðru fremur, sé komið í veg fyrir aukna losun annars staðar, og gefa sér þá að slíkur þungaiðnaður gangi fyrir jarðefnaeldsneyti, kolum eða olíu. Auðvitað er hægt að búa til svona reiknidæmi en við það er margt að athuga, m.a. ef Íslendingar líta á hefðbundna stóriðju sem samkeppnisatriði og að við séum í samkeppni varðandi stóriðju við útlönd þar sem byggt er á jarðefnaeldsneyti. Svo er ekki nema að hluta því að mjög víða er vatnsafl nýtt í sama tilgangi. Það sem skiptir þó meira máli, virðulegur forseti, er að loftslagssamningurinn er ekki gerður á heimsvísu. Hann er byggður á samkomulagi milli þjóðríkja sem taka hvert og eitt á sig skuldbindingar til að skera niður losun gróðurhúsalofttegunda. Tímabilið sem við erum að leggja inn í er aðeins fyrsta tímabil af mörgum, aðeins áfangi á leiðinni. Talið er að draga þurfi úr losuninni um 50--60% frá mörkunum 1990 fram á miðja komandi öld ef takast á að ná þolanlegu jafnvægi í loftslagsmálum að öld liðinni, nálægt árinu 2100.

[11:45]

Síðan er þess að geta, virðulegur forseti, að þau þjóðríki sem taka á sig skuldbindingar munu ekki horfa á sín mál út frá því að Ísland hafi tekið að sér að framleiða svo og svo mikið af áli og haldi í við sig umfram það sem ella væri að nýta það svigrúm sem þau hafa samningsbundið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Ætli það sé líklegt? Ég tel ekki svo vera. Trúlegt er að sömu ríki muni nota það svigrúm í sinni almennu framleiðslu og atvinnustarfsemi til að þróa atvinnulíf sitt og efnahag og þannig verði í raun fyllt upp í þetta. Þá erum við, í staðinn fyrir að létta á heimsbyggðinni með þessari stefnu, í raun að auka við. Ég held að mikil þörf sé á því, virðulegur forseti, m.a. vegna málflutnings t.d. hæstv. utanrrh. sem öðrum fremur reynir að telja þjóðinni trú um að við séum í sérstakri góðgerðarstarfsemi til að létta byrðum af heiminum með því að hlaða álbræðslu á álbræðslu ofan hér á skerinu. Þetta er mikil einföldun svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, virðulegur forseti.

Skilyrði ríkisstjórnarinnar fyrir aðild Íslands að Kyoto-bókuninni hljóðar upp á að engin takmörk verði sett fyrir losun frá málmbræðslum hérlendis. Með þessari kröfu eru Íslendingar settir í afar slæmt ljós í umhverfismálum á alþjóðavettvangi og um leið afvopna íslensk stjórnvöld sig í viðleitni við að draga úr losun hjá öðrum atvinnugreinum en stóriðju. Telja menn líklegt að það verði auðvelt að knýja íslenskan sjávarútveg og samgöngur innan lands, en þessir þættir valda mjög miklu í losun gróðurhúsalofttegunda, til þess að skera niður á þessu sviði ef iðnaðarferli stóriðjunnar fá að ganga laus? Ég held að það verði þungt undir fæti að skila árangri á þeirri braut sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið.

Ástæða væri til, virðulegur forseti, að ræða fleira sem snýr að loftslagsmálunum í tengslum við frv. Ég ætla hins vegar ekki að taka meiri tíma í það en víkja að öðrum þætti sem brýnt er að menn átti sig á þegar leitað er eftir viðbótarvirkjunarheimildum sem tengjast stóriðju. Í því sambandi, virðulegur forseti, vísa ég til þess að þingflokkur óháðra flutti í byrjun yfirstandandi löggjafarþings tillögu til þingsályktunar um sjálfbæra orkustefnu. Þar er meðal annars dregið fram með skýrum hætti að nýtanlegar orkulindir landsmanna eru langtum takmarkaðri að magni til en haldið hefur verið fram til þessa. Því valda gjörbreytt viðhorf í umhverfismálum, ekki síst að því er varðar vatnsaflsvirkjanir og miðlunarlón á hálendinu. Óvarlegt er að reikna með að þjóðin hafi í raun til ráðstöfunar meira en um 20--30 teravattstundir til raforkuframleiðslu úr vatnsafli og jarðvarma á næstu öld, ef taka á tillit til umhverfissjónarmiða. Í umræddu þingmáli göngum við út frá viðmiðunartölunni 25 teravattstundir. Á síðasta ári var raforkuframleiðslan um 6,5 teravattstundir og stefnir vegna þegar gerðra stóriðjusamninga í um 9 teravattstundir á næsta ári. Vöxtur almennrar raforkunotkunar, til venjubundins atvinnureksturs, iðnreksturs, samgangna og heimilishalds, er um 2% samkvæmt spá orkuspárnefndar. Það kallar á um 8 teravattstunda orkuaukningu á ári frá því sem nú er þegar komið er fram um 2050.

Framleiðsla vistvæns eldsneytis eða raforku í stað jarðefnaeldsneytis, sem þegar er komið á dagskrá, jafnvel hjá hæstv. ríkisstjórn, kallar á um 15 teravattstundir árlega í raforkuframleiðslu. Það er tvöföldun þeirrar orku sem nú er framleidd í landinu. Talan 15 er meðaltalstala sem fer eftir því hvaða tækni er notuð við framleiðsluna. Útreikningurinn miðast einfaldlega við það magn sem notað var árið 1996 þó gera mætti ráð fyrir að þar væri eitthvað til viðbótar í pípunum, eins og sagt er. Tengdist nýtingin eingöngu efnarafölum, þá væru þetta um 10 teravattstundir. Ef hefðbundnar vélar nýttu orkuna þyrfti til þess um 20 teravattstundir. Því tökum við bara meðaltalið, 15, af þessu tvennu. Það er auðvitað ekki nákvæmt. Það er auðvitað rúmt reiknað. Samtals er þetta, þ.e. viðbótin í almennri orkunotkun, viðbótin vegna þegar gerðra skuldbindinga í stóriðju og hugmyndin um það að útrýma innfluttu jarðefnaeldsneyti, um eða yfir 30 teravattstundir árlega án nokkurrar frekari stóriðju eða fimmföldun frá núverandi raforkuframleiðslu.

Þetta er dæmi sem ég tel að menn eigi að skoða opnum augum. Við leggjum ekki til að hætt verði að framleiða raforku í landinu eða hætt að nýta innlendar orkulindir með tillögum um sjálfbæra orkustefnu. Nei, við gerum ráð fyrir því að um margföldun verði að ræða að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða en án frekari bindingar orkunnar í málmbræðslum. Það er algert óráð og glapræði miðað við þá stefnu sem hér ætti að vera í orkumálum. Þá hafa menn í huga að samningar um stóriðju eru gerðir til margra áratuga. Ekki er óeðlilegt að reikna með hálfri öld og menn þekkja hversu auðvelt, eða hitt þó heldur, er að komast út úr slíkum dæmum. Ein verksmiðja norður í Mývatnssveit, að vísu annars eðlis, er dæmi um hversu erfitt er að komast skaplega út úr verksmiðjurekstri, af félagslegum ástæðum m.a.

Af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar, sem leggur þetta mál fram ásamt meiri hluta hv. iðnn., liggur ekki fyrir önnur stefna en að keyra í blindni gegn náttúru landsins. Sömu talsmenn úthrópa þá sem snúast til varnar fyrir náttúru Íslands og framtíðarhagsmuni þjóðarinnar eins og við heyrum dag hvern í málflutningi þeirra.

Virðulegur forseti. Þá kemur að því máli sem vekur kannski mesta athygli í sambandi við þetta þingmál og kemur fram í brtt. hv. meiri hluta iðnn. Það er að veita heimild til svonefndrar Bjarnarflagsvirkjunar. Sú ósk er fram komin ekki fyrir mjög löngu af hálfu Landsvirkjunar. 19. febrúar sl. óskaði Landsvirkjun bréflega eftir því við hv. iðnn. ,,í samráði við iðnaðarráðuneytið`` --- iðnrn. er því náttúrlega uppáskrifandi þessarar beiðni --- ,,að leyfð verði virkjun jarðgufuorku til rafmagnsframleiðslu í Bjarnarflagi við Námafjall, Bjarnarflagsvirkjun, með allt að 40 megavatta afli.``

Þessu erindi er útbýtt sem fskj. I með nefndarálitinu sem ég mæli fyrir.

Iðnn. fjallaði um þetta erindi á nokkrum fundum og fékk af því tilefni til viðræðu auk talsmanna Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis fulltrúa frá sveitarstjórn Skútustaðahrepps, Náttúruvernd ríkisins, stjórn Náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn, Náttúruverndarráði og Orkustofnun, og e.t.v. fleiri sem ekki eru hér upp taldir. Lögðu sumir þessara aðila fram greinargerðir og eru sumar þeirra birtar sem fylgiskjöl með nefndaráliti því sem hér liggur fyrir frá minni hluta iðnn.

Landsvirkjun yfirtók eignir Kröfluvirkjunar á sínum tíma af íslenska ríkinu með samningi sumarið 1985 og ári síðar eignir Jarðvarmaveitna ríkisins við Bjarnarflag þar sem rekin hafði verið lítil gufuaflsstöð með um 3 megavatta afli frá 1969 að telja, ef ég man rétt. Haustið 1994 hafði Landsvirkjun lokið við verkhönnum 40 megavatta virkjunar í Bjarnarflagi með ráðgerða staðsetningu sunnan Kísiliðju og þjóðvegar austan við svonefnt Krummaskarðsmisgengi, en það kom m.a. við sögu í síðustu Kröflueldum. Í framhaldi af því lét Landsvirkjun taka saman frummatsskýrslu sem lá fyrir hjá Skipulagi ríkisins í september 1996 en Skipulag ríkisins sendi hana meðal annars til stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og til Náttúruverndarráðs, sem nú er Náttúruvernd ríkisins eftir breytinguna 1996 á lögum um náttúruvernd. Veitti stjórn rannsóknastöðvarinnar umsögn, sem Náttúruverndarráð vísaði meðal annars til um leið og það lagðist gegn fyrirhugaðri jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi. Í framhaldi af því hætti Landsvirkjun við að setja málið í mat á umhverfisáhrifum. Menn skulu taka vel eftir því, virðulegur forseti, að Landsvirkjun kaus að hætta við að setja þetta áhugamál sitt í mat á umhverfisáhrifum sem lá opið fyrir fyrirtækinu að gera ef það hefði svo kosið. Málið lá í þagnargildi þar til nú fyrir skemmstu, að fyrirtækið tekur málið upp að nýju og beitir m.a. fyrir sig heimamönnum til að þrýsta á um að heimild verði veitt fyrir virkjuninni.

Ein af þeim stóru spurningum, virðulegur forseti, sem tengjast þessu máli, ákvörðun Landsvirkjunar og iðnrn. um að leita eftir lagaheimild fyrir stórri jarðgufuvirkjun við Námafjall, er hvers vegna ekki er óskað eftir að fá að stækka Kröfluvirkjun. Í þessu máli þarf fyrst af öllu að svara hvers vegna nú er leitað eftir virkjunarheimild á jarðvarma á nýju svæði í hjarta Mývatnssveitar í stað þess að stefna að stækkun Kröfluvirkjunar, sé talin brýn þörf á aukinni orkuöflun. Einnig má benda á að á Norðausturlandi eru stór jarðhitasvæði sem í framtíðinni hljóta að koma til athugunar, fyrir hugsanlega hagnýtingu, svo sem háhitasvæðið í Öxarfirði sem reyndar er nú þegar á dagskrá að rannsaka. Samkvæmt skriflegum upplýsingum Landsvirkjunar til iðnaðarnefndar er ómælda jarðhitaorku að hafa á jarðhitasvæðinu við Kröflu, eins og þar segir:

,,Kröflusvæðið, 30 ferkílómetrar, er talið geta staðið undir um 300--400 megavatta raforkuframleiðslu í 50 ár. ... Jarðhitasvæði við Bjarnarflag, 8 ferkílómetrar, er álitið geta staðið undir tæplega 100 megavatta raforkuframleiðslu í 50 ár.``

Þetta er úr greinargerð Landsvirkjunar um virkjun jarðvarma í Bjarnarflagi og Kröflu, dagsett 1. mars 1999 og er útbýtt sem fskj. VI með þessu nefndaráliti.

[12:00]

Ein af fáum skýringum sem Landsvirkjun gefur fyrir vali sínu, þ.e. að óska eftir heimild til virkjunar í Bjarnarflagi, er eftirfarandi:

,,Boranir í ný svæði yrðu markvissari og einnig skipulag við uppbyggingu hugsanlegra virkjana í 20--30 megavatta áföngum. Rannsóknir vegna gufuöflunar á Kröflusvæðinu er talið að muni taka nokkur ár áður en hægt verður að taka ákvörðun um aukna orkuframleiðslu.``

Þetta er tekið upp úr þessari greinargerð sem iðnn. barst.

Ekki getur þetta að mati minni hlutans talist frambærileg skýring í ljósi þess m.a. að markaðurinn sem vísað er til fyrir orku úr Bjarnarflagsvirkjun er öðru fremur hugsanleg álbræðsla á Reyðarfirði. Allir vita hvar það mál er statt og að meira en ,,nokkur ár`` munu líða uns þær fyrirætlanir skýrast. Jafnvel þótt eitthvað gerðist í því máli innan nokkurra ára væri nógur tími til að afla orku frá Kröflu, teldu menn það ráðlegt.

Eins og fram hefur komið hefur verið reynt að afla málinu stuðnings með því að vísa til þess að í tengslum við virkjunina megi skapa ýmiss konar aðstöðu fyrir ferðamenn, m.a. til baða. Í því sambandi vísa ég til fskj. útbýttu með nefndarálitinu, erindi Skútustaðahrepps dags. 18. febrúar sl., en með því fylgdi samþykkt hreppsnefndar Skútustaðahrepps eða sveitarstjórnar, líklega frá desember sl. eða nokkru fyrr. Minni hlutinn telur sjálfsagt ef einhverntíma yrði tekin ákvörðun um jarðgufuvirkjun þarna og hún yrði reist þrátt fyrir andmæli, þá ber að hagnýta hliðarmöguleika sem slíku fylgja. Það gildir auðvitað almennt um jarðgufuvirkjanir en það geta ekki talist gild rök fyrir að veita heimild fyrir Bjarnarflagsvirkjun.

Hafa verður í huga í öllu þessu máli að Kröfluvirkjun er í fárra kílómetra fjarlægð, steinsnar frá Bjarnarflagi og byggðinni við Reykjahlíð, með gnótt orku, nóg af affallsvatni til að koma upp baðlónum ef skynsamlegt þykir og er opin til skoðunar fyrir ferðafólk, og svæðið allt.

Nefni ég það vegna þess að það er jafnvel tíundað í sambandi við þetta mál að það gæti verið áhugavert að fá aðra jarðgufuvirkjun handa túristum til skoðunar í Mývatnssveit, eins og menn séu að koma til Mývatns sérstaklega til að skoða virkjanir og verksmiðjur. Það hefði ég ekki talið vera aðdráttaraflið, virðulegur forseti.

Þess utan ætti að vera hægurinn hjá að koma upp sómasamlegum gufuböðum við Bjarnarflag, ef áhugi er fyrir hendi, án þess að ráðast þar í 40 megavatta virkjun því að talsvert er þar af óbeislaðri orku. Svo langt er seilst í rökleysunni fyrir Bjarnarflagsvirkjun að staðhæft er að Landsvirkjun hafi heitið því að taka sæmilega til á svæðinu eftir sig og forverana, fái fyrirtækið að koma þar upp nýrri jarðgufuvirkjun.

Ég nefni þetta, virðulegur forseti, vegna þess að mér finnst með ólíkindum að heyra málflutning af þeim toga.

Vert er að nefna að fram kom í iðnaðarnefnd að ekki væri hægt að yfirfæra hugmyndir um svonefnd blá lón. Auðvitað kemur Bláa lónið við Svartsengi upp í hugann hjá mönnum. Það er ekki er óeðlilegt. En það er ekki hægt að yfirfæra slíkar hugmyndir frá Svartsengi til Bjarnarflags. Bláa lónið í Svartsengi byggist á jarðsjó, en allt önnur efnasamsetning er á affallsvatni á hefðbundnum háhitasvæðum sem gæti kallað á ýmiss konar efnaíblöndun vegna baða til að halda niðri gerlagróðri. Hér er því ekki um sambærilega hluti að ræða.

Virðulegur forseti. Vegna þessa leyfi ég mér að nefna erindi sem mér barst í hendur frá áhugamönnum um umhverfismál varðandi Þingvallavatn sérstaklega sem vöruðu mjög við hugmyndunum sem fram hafa komið um blátt lón eða viðlíka aðstöðu við Nesjavelli. Ég geri ráð fyrir, virðulegur forseti, að þetta erindi hafi borist öðrum þingmönnum. Það er dagsett 10. febrúar sl. og beint til hæstv. umhvrh. Ég leyfi mér að vitna til þess til skýringar. Í fyrsta lagi eru í erindinu hörð mótmæli gegn því að ráðist verði í baðlaug fyrir þúsundir manna á Nesjavöllum við Þingvallavatn þar eð því mundi fylgja mikil mengun umfram þá sem fyrir er á Nesjavallasvæðinu þar sem mikið af efnum hættulegum lífríkinu fylgir svona starfsemi, eins og það er orðað.

Í þessu sambandi er vitnað til öndvegisrits sem hv. þm. og fyrrv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, hefur ritað um Þingvallaurriðann og kom út 1997. Hann skýrir þar frá því að helsta og vænlegasta núverandi hrygningarslóð urriðans í Þingvallavatni sé undan hrauninu á Nesjavöllum. Hann vitnar til fiskifræðinga sem hafa bent á að þessar hrygningarstöðvar séu helsta vonin til að Þingvallaurriðinn nái sér aftur á strik. Því er ég að nefna þetta hér, virðulegur forseti, að ein af auðlegðum Mývatnssveitar er silungur í Mývatni sem kunnugt er. Í þessu erindi til hæstv. umhvrh. segir m.a., með leyfi forseta, og er rætt um Nesjavelli:

,,Þarna er verið að kalla á starfsemi sem fylgir mikið af margs konar úrgangsefnum sem geta verið mjög hættuleg lífríkinu og eiga greiða leið gegnum gljúpt hraunið fram í Þingvallavatn eins og fyrr er getið.``

En menn hafa ekki miklar áhyggjurnar af þessu þegar ræddar eru hugmyndirnar um blátt lón nálægt bökkum Mývatns. Ég ætla ekkert að ýkja þetta mál. Auðvitað þarf að skoða þetta hlutlægt eins og annað varðandi mengun. En það er greinilegt að full ástæða er til þess að fara vandlega ofan í slík mál áður en menn gera mikið úr möguleikanum.

Hvað um atvinnulega hagsmuni sem tengjast þessu máli? Það kom fram í iðnn., virðulegur forseti, að um tvö ársverk mundu bætast við í Mývatnssveit til frambúðar ef til kæmi Bjarnarflagsvirkjun. Auðvitað yrðu umsvif á byggingartíma eins og alltaf í sambandi við virkjanir. En það er auðvitað ekki það sem máli skiptir heldur langtímaáhrif af slíkri framkvæmd. Og ætli það mundi ekki bætast eitthvað við ef ráðist yrði í stækkun Kröfluvirkjunar. Ætli það yrði þá ekki a.m.k. eitt starf sem þar kæmi. Ég hef ekki aflað upplýsinga um það sérstaklega. Atvinnuleg rök fyrir þessari virkjunarheimild vega þannig ekki þungt að mati minni hlutans og orkuna er auk þess fyrirhugað að flytja austur á firði til álbræðslu.

Virðulegur forseti. Aðalatriði þessa máls varðar að sjálfsögðu verndun náttúru Mývatnssveitar og þær hugmyndir sem menn gera sér um sjálfbæra þróun mannlífs og atvinnulífs á svæðinu. Það er næsta ótrúlegt skref sem Alþingi tæki með því að veita heimild fyrir nýrri 40 megavatta virkjun í Bjarnarflagi. Þegar Náttúruverndarráð fjallaði um jarðgufuvirkjun á Mývatnssvæðinu 1974--75 voru bornar rækilega saman hugmyndir um staðsetningu slíkrar virkjunar annars vegar við Kröflu og hins vegar við Námafjall. Það var við allt aðrar aðstæður. Þá var orkumarkaður landsins ekki samtengdur, Norðurland ekki einu sinni tengt við Austurland, ef ég man rétt, hvað þá meira. Niðurstaða Náttúruverndarráðs á þeim tíma varð Kröflusvæðið eins og lesa má um í greinargerðum frá þessum tíma sem sendar voru til iðnn. Í þessu fólst um leið það álit að vernda bæri jarðhitasvæðið við Námafjall og halda mannvirkjagerð og nýtingu þar í lágmarki.

Ég get nefnt það, virðulegur forseti, vegna þess að sá sem hér talar átti á þessum tíma sæti í Náttúruverndarráði að mér fannst það ekkert alveg einsýnt hvort svæðið yrði valið og færði ýmis rök fyrir því í Náttúruverndarráði á þeim tíma. En þetta varð niðurstaðan. Nálægðin við aðalumferðina, nálægðin við Mývatn, nálægðin við Mývatnssveit og hringveginn, réð þar miklu og það að meiri hætta gæti verið á mengun frá affallsvatni m.a. frá virkjun við Hverarönd eða Námafjall, hvorum megin sem væri, heldur en við Kröflu. Það var auðvitað aldrei í huga manna á þeim tíma að til greina kæmi að fórna báðum háhitasvæðunum við Mývatn undir framkvæmdir, frekar en orðið var við Námafjall. Heimild fyrir Bjarnarflagsvirkjun gengur þannig þvert á þau markmið sem voru þegar heimild var veitt til Kröfluvirkjunar.

Það er viðurkennt, virðulegur forseti, að öflun jarðgufu austan Krummaskarðsmisgengis vestan Námafjalls geti haft ófyrirsjánleg áhrif á hverasvæðið við Hverarönd austan fjallsins. Á bak við óskir Landsvirkjunar vaka hugmyndir um gjörnýtingu háhitasvæðisins þarna og skýrt er gefið til kynna í fyrirliggjandi gögnum að fyrirtækið hafi hug á að reisa aðra virkjun síðar á svipuðum slóðum.

Upp á þetta er meiri hlutinn að skrifa, einnig fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn., upp á þessi áform með þeirri heimild sem hér er til umræðu.

Virðulegur forseti. Náttúruverndaryfirvöld og áhugafélög um umhverfisvernd hafa lýst miklum áhyggjum og andstöðu við að lagt verði út á þessa braut. Með nefndarálitinu fylgja umsagnir stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn frá 6. desember 1996 og Náttúruverndarráðs, nú Náttúruverndar ríkisins, frá 17. desember 1996 þar sem lagst er gegn fyrirhugaðri jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi. Og sú andstaða hefur verið rifjuð upp nú í tilefni þessa frv. af þessum aðilum, bæði fyrir iðnn. en einnig opinberlega. Þá fylgir með áliti minni hlutans ný greinargerð Náttúruverndarráðs dagsett 7. mars 1999 þar sem eindregið er lagst gegn heimild til virkjunar í Bjarnarflagi.

[12:15]

Hvað fær, virðulegur forseti, iðnn. þingsins að meiri hluta til til að hafa frumkvæði --- því ekki er hægt að kalla það annað en frumkvæði --- að því að óska eftir þessari heimild? Taka ómakið af hæstv. iðnrh. sem hefur reyndar allmikið á bakinu í þessum málum? Það er kannski það, að verið er að létta hæstv. iðnrh. sporin síðustu vikurnar og mánuðina á starfsferlinum með því að þingið sjálft taki á sig frumkvæðið að þessari heimild. Mér finnst mjög sárt að horfa upp á það, virðulegur forseti, og sárt að horfa upp á það að stjórnarmeirihlutinn skuli hafa fengið stuðning þessarar nýju Samfylkingar, þessa nýja flokks sem er í burðarliðnum, sem skrifar upp á þetta allt saman og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar í leiðinni í hólf og gólf. Ekki bara Bjarnarflagsvirkjun, heldur allt þetta með viðeigandi losun á gróðurhúsalofttegundum og annað, þar sem beinlínis er verið að tefla á náttúru Íslands á komandi áratugum, því orkan sem við höfum í landinu til nota er takmörkuð, eins og ég hef dregið fram í máli mínu. Hún er það takmörkuð að þjóðin á fullt í fangi með að ná samkomulagi við sjálfa sig til að fullnægja grunnþörfum á komandi áratugum og því markmiði að framleiða hér vistvæna orku til eigin nota í landinu. Allri viðbót í málmbræðslum er teflt með beinum hætti gegn verndarhagsmunum Íslendinga og íslenskri náttúru.

Virðulegur forseti. Nauðsynlegt er að vekja athygli á því viðhorfi sem heyrist frá talsmönnum Landsvirkjunar, og kom raunar fram hjá hv. iðnn., að með því að fá nú virkjunarheimild geti fyrirtækið komist bakdyramegin að lögunum um verndun Mývatns og Laxár, nr. 36/1974, en þau lög áskilja leyfi Náttúruverndar ríkisins fyrir hvers konar mannvirkjagerð í Skútustaðahreppi og með fram Laxá. Hugsunin virðist vera sú að ef reyni á höfnun Náttúruverndar ríkisins á virkjuninni mætti kæra slíka niðurstöðu til æðra stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Af ummælum iðnaðarráðherra nýverið má einnig ráða að hann telji lögin um verndun Mývatns og Laxár óþörf vegna tilkomu löggjafar um mat á umhverfisáhrifum! Ég tel mig hafa lesið þau ummæli í dagblaðinu Degi fyrir ekki löngu síðan.

Það er hins vegar, virðulegur forseti, alger misskilningur að heimild frá Alþingi til virkjunar þurfi að liggja fyrir til að Landsvirkjun láti fara fram mat á umhverfisáhrifum hugsanlegrar virkjunar í Bjarnarflagi. Ekki er þörf á neinni slíkri heimild til að slíkt mat fari fram en Landsvirkjun dró við sig og dró til baka áformin um að láta fara fram lögformlegt mat á umhverfisáhrifum þessara fyrirætlana á árinu 1996. Það verður, virðulegur forseti, þvert á móti að teljast eðlilegt og sjálfsagt að slíkt mat liggi fyrir áður en Alþingi tekur afstöðu til virkjanaáforma, Bjarnarflagsvirkunar sem og annarra virkjana sem verið er að óska heimilda fyrir, þannig að fyrir Alþingi liggi sæmilega skýr mynd af þeim áformum að teknu tilliti til náttúruverndarhagsmuna.

Einn þáttur þessa máls, virðulegur forseti, er félagslegur, eins og stundum er sagt, og snertir atvinnuþróun í Mývatnssveit sem er auðvitað mjög stórt mál, mál sem er mjög brýnt fyrir Alþingi Íslendinga að fara yfir. Þannig vill til að sum okkar sem nú skipum þingflokk óháðra höfum á fyrri tíð haft beint frumkvæði að tillöguflutningi á Alþingi þess efnis að ríkisvaldið styðji við atvinnuþróun í Mývatnssveit. Dæmi um það er tillaga sem sá sem hér talar flutti ásamt þáverandi þingmanni Kristínu Einarsdóttur, sem var formaður umhvn. um skeið, og flutt var á 115. og 116. löggjafarþingi þar sem m.a. var lagt til eins og segir í tillögutexta, ,,að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu.``

Í greinargerð með þessari tillögu sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið hefur óvenjumiklar skyldur við Mývatnssveit og svæðið meðfram Laxá. Því valda ákvarðanir sem teknar hafa verið um lögverndun á náttúru svæðisins og aðild ríkisins að uppbyggingu atvinnufyrirtækja þar síðustu áratugi, einkum Kísiliðjunnar og Kröfluvirkjunar.``

Í þeirri tillögu, sem allshn. þingsins afgreiddi frá sér vorið 1992 og studdi einróma, var m.a. vísað til eldri tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði haft frumkvæði að á 110. löggjafarþingi, sem var þá 458. mál þingsins, ,,um áætlun um uppbyggingu og eflingu atvinnulífs í Mývatnssveit``. Tillaga allshn. náði ekki fram að ganga vorið 1992 af sérstökum ástæðum við þinglok sem ég ætla ekki að fara að rifja hér upp. Þinginu var slitið í skyndingu í maímánuði. Sumir minnast þeirra stunda kannski sem hér sitja í þingsal. Þessi tillaga lá inni og komst ekki til atkvæðagreiðslu sem varð hins vegar til þess að umhvn. þingsins, sem hafði veitt umsögn um tillögu allshn. á þinginu á undan, hafði frumkvæði að því að endurflytja eða taka upp tillöguna sem við hv. þm. Kristín Einarsdóttir höfðum flutt tvívegis og flytja með nokkuð breyttu orðalagi og sú tillaga varð að einróma samþykkt Alþingis 14. desember 1993. Þessi ályktun Alþingis sem ástæða er til að rifja upp er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta Byggðastofnun, í samvinnu við Skipulag ríkisins, Náttúruverndarráð og sveitarstjórn Skútustaðahrepps, gera úttekt á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu. Við úttektina verði m.a. höfð hliðsjón af skýrslu Skipulags ríkisins um umhverfismat fyrir Skútustaðahrepp frá í júlí 1993.``

Þessari ályktun hefur því miður lítið verið fylgt eftir. Forsætisráðuneytið vísaði henni til Byggðastofnunar þar sem málið lenti í útideyfu.

Heimaaðilar voru á þessum tíma vissulega ekki miklir eftirgangsmenn um þetta. Þeir voru tortryggnir gagnvart tillögunni, þar eð sumum þeirra a.m.k. fannst sem hún beindist gegn starfrækslu Kísiliðjunnar í Mývatnssveit. Þau viðhorf liggja nú fyrir með þeim hætti sem menn þekkja, einnig viðurkennt af heimamönnum sem sjá fram á að Kísiliðjan í Mývatnssveit á takmarkaða lífdaga fyrir höndum. Hvenær þar að kemur vil ég ekkert fullyrða, en öllum er ljóst að að því dregur að rekstur þess fyrirtækis mun stöðvast a.m.k. í því formi sem nú er.

Málið varðandi sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit er í raun brýnna nú en þegar Alþingi gerði sína ályktun og því full ástæða til að minna rækilega á það og krefjast aðgerða af hálfu ríkisins til stuðnings við sjálfbæra atvinnuþróun í sveitinni til að það fólk sem þar býr og vill búa áfram sé ekki sett á vonarvöl vegna þess að ríkisfyrirtæki sem sett hafa verið upp á staðnum og eru ástæðan fyrir þéttbýlinu eiga sér takmarkað líf fyrir höndum. Ástæður á þessum stað eru því mjög sérstakar og öðruvísi en víða annars staðar og er ekki með þessu verið að hvetja til þess að farið verði af ríkisins hálfu að taka til hendi með beinum hætti í atvinnuuppbyggingu, en hér eru ástæðurnar og forsendurnar eins og menn þekkja.

Virðulegur forseti. Niðurstaða minni hluta iðnn. í þessu máli hefur í raun komið fram hér eða verið rökstudd í máli mínu en ég vil aðeins fara yfir niðurstöðuna eins og hún er dregin fram í nál., með leyfi forseta.

Samkvæmt framangreindu er minni hlutinn því andvígur að Alþingi veiti lagaheimildir fyrir raforkuverum sem yfirlýst er að eigi að þjóna hefðbundinni stóriðjuuppbyggingu. Alþingi á ekki að veita frekari virkjanaheimildir fyrr en mótuð hefur verið sjálfbær orkustefna til framtíðar og einstökum virkjanakostum hefur verið raðað í forgangsröð, sbr. ályktun Alþingis frá 24. apríl 1989, um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða (108. mál á 111. löggjafarþingi) og tillögu um sjálfbæra orkustefnu (12. mál á 123. löggjafarþingi). Þá er rétt að áður en afstaða er tekin til virkjunarheimildar liggi ætíð fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna viðkomandi virkjunarhugmyndar.

Minni hlutinn leggst ekki gegn því að Rafmagnsveitur ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði yfirtaki virkjunarheimild Landsvirkjunar vegna Villinganesvirkjunar en telur að takmarka beri virkjunarheimildina við 30 megavött í stað 40, samanber umsögn Náttúruverndar ríkisins um frumvarpið á umhverfisáhrifum. Einnig er af hálfu Alþingis rétt að bíða með að taka afstöðu til þess hvort heimila eigi Villinganesvirkjun á vegum nýs aðila, uns fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Vegna stöðu atvinnumála í Mývatnssveit er sérstaklega minnt á ályktun Alþingis frá 14. desember 1993 um stuðning af hálfu ríkisins við sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit.

Með vísan til alls þessa leggur minni hlutinn til að frv. um raforkuver með þeim breytingum sem meiri hluti iðnn. hefur á því gert verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

[12:30]

Þetta er álit minni hluta iðnn., virðulegur forseti. Ég minni á að álitsgerðinni fylgja skjöl sem ættu að upplýsa þá sem vilja kynna sér baksvið málsins betur en ella væri unnt. Ég hef því leyft mér að leggja þau við málið og þar á meðal ályktanir frá fyrri stigum, m.a. ályktun sem er ein af mörgum sem lenti í gleymsku og útideyfu og áður var minnt á, frá 1989 um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða. Ályktunin byggði á þeirri reynslu, m.a. tilvísun í aðferðafræði Norðmanna í sambandi við verndun vatnsfalla þar í landi og sem hafi nýlega verið rifjuð upp, m.a. á sérstökum fundi sem Náttúruverndarráð efndi til og fékk til landsins norska sérfræðinga til að kynna mönnum hvernig staðið hefur verið að málum í Noregi að þessu leyti. Ég tek eftir að Orkustofnun hefur einmitt sama mál á dagskrá ársfundar síns, þann 17. mars nk. Nú eftir dúk og disk, áratug seinna, eru menn loks að dusta rykið af stefnumörkun, aðferðafræði sem Alþingi Íslendinga ályktaði um fyrir tíu árum.

Það er hörmulegt, virðulegur forseti, þegar það gerist að menn framfylgja ekki þingviljanum, sérstaklega þegar hann stefnir til framtíðar. Auðvitað ber framkvæmdarvaldinu ætíð að taka tillit til ályktana Alþingis en því miður er því ekki að heilsa sem meginreglu. Undantekningarnar eru allt of margar, virðulegur forseti.

Þau orð sem hafa verið mælt í sambandi við tilefni þessa máls snerta eitt af stærstu álitaefnum í landinu pólitísks eðlis en sem varða náttúru landsins og meðferð auðlinda þess. Þeim sem hér talar rennur til rifja þegar haldið er á jafnstóru máli og hér um ræðir af slíkri skammsýni eins og tillaga liggur fyrir um frá meiri hluta iðnn. Ég vona, virðulegur forseti, að menn staldri við þrátt fyrir þá tillögu sem liggur fyrir þinginu frá meiri hluta nefndarinnar og endurskoði málið, efni ekki til þess óvinafagnaðar að afgreiða málið fyrir þinglok, sumpart mjög lítið athugað og má m.a. vísa til þess að beiðnin um heimild vegna Bjarnarflagsvirkjunar barst fyrst fyrir þremur vikum eða svo til hv. nefndar og meiri hluti nefndarinnar getur haft sér það til betrunar að hafa haft knappan tíma. Þeim mun meiri ástæða er til að staldra við og sá sem hér talar væntir þess að sú framsýni vakni með mönnum og geti orðið leiðbeinandi um afgreiðslu málsins þrátt fyrir allt.