Raforkuver

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 12:35:03 (4492)

1999-03-09 12:35:03# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[12:35]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér talar hafði reiknað með því að frískur þingmaður á besta aldri hefði meira úthald en svo að athygli hans fjaraði út og skilningarvitin lokuðust á innan við klukkutíma. Það kallar auðvitað á, virðulegur forseti, að farið verði að huga verulega að daglegaum starfstíma þingsins ef svo háttar til.

Varðandi efnislegar athugasemdir hv. þm. tel ég að fyllsta ástæða sé til þess fyrir Alþingi Íslendinga að hafa áhyggjur af þeirri orkustefnu sem hefur verið fylgt undanfarið af fyrirtækjum sem eru í opinberri eigu og sannanlega, a.m.k. að hluta til, hafa ekki kunnað fótum sínum forráð á liðnum áratugum.

Dæmi sem þar er auðvelt að benda á er hinn upphaflegi samningur við Ísal og sú hroðalega skammsýni sem fylgdi framhaldi málsins í sambandi við raforkusölu til álbræðslunnar í Straumsvík sem hefur auðvitað orðið mjög dýrkeypt fyrir íslenska raforkunotendur, bæði atvinnulíf í landinu og almenning þó reynt sé enn í dag að þræta fyrir það. Tölurnar sem ég rakti um verð á orku annars vegar til almenningsveitna 286 aurar, ef ég man rétt, annars vegar og 88 aurar hins vegar til stóriðjunnar, sem fær meiri hlutann af framleiddri orku í landinu.

Niðurstöður máls míns koma fram í skriflegu nál. og ég vísa til þess, virðulegur forseti. Ég las það raunar upp.