Raforkuver

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 12:40:01 (4495)

1999-03-09 12:40:01# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, MagnM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[12:40]

Magnús Árni Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Austurl. var tíðrætt um mat þingflokks óháðra á því að miðað við aukningu á orkunotkun landsmanna verði ekki til staðar næg orka fyrir landsmenn sjálfa árið 2050 án nokkurrar frekari stóriðju ef tekið verður tillit til umhverfissjónarmiða.

Það rifjaðist upp fyrir mér að í lok síðustu aldar var uppi hagfræðingur nokkur að nafni Thomas Malthus, ef ég man rétt. Hann framreiknaði fjölgun mannkynsins og út frá framleiðslu á matvælum á þeim tíma sá hann þá fyrir sér að innan fárra ára mundi bresta á gríðarleg hungursneyð og mikil vandræði mundu af því hljótast. Einnig rifjaðist upp fyrir mér að árið 1973 brast á hin svokallaða olíukreppa sem olli miklum erfiðleikum hér í heimi því að þar sáu menn fyrir sér að olíubirgðir heimsins væru að klárast. Það sem þessi tvö dæmi eiga sameiginlegt er að hvorugt þeirra gerði ráð fyrir tækniframförum. Menn sáu ekki fyrir sér árið 1973 að hægt væri að bora eftir olíu á sjávarbotni og Thomas Malthus gerði sér enga grein fyrir þeim stórstígu framförum sem yrðu í landbúnaði og urðu í landbúnaði á næstu árum. Ég sé því ekki fyrir mér að árið 2050 verði menn ekki búnir að ráða fram úr þessum vanda. Auðvitað eru alltaf til ákveðin stjórnmálaöfl sem gera út á heimsendaspádóma af því tagi sem komu fram í annars ágætri ræðu hv. þm. En ég held að menn verði að sjá í gegnum slíkt og að við getum ekki dregið umræðuna niður á þetta plan.