Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 13:46:01 (4499)

1999-03-09 13:46:01# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. meiri hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 1018 er að finna nál. meiri hluta sjútvn. um till. til þál. um hvalveiðar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson, Kristján Skarphéðinsson, Arnór Halldórsson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Svein Hjört Hjartarsson og Guðrúnu Lárusdóttur frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Ásbjörn Björnsson frá SÍF hf., Jóhann Sigurjónsson og Gísla Víkingsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Kristján Loftsson frá Hval hf., Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Guðmund Haraldsson frá Félagi hrefnuveiðimanna, Ásbjörn Björgvinsson frá Hvalamiðstöðinni á Húsavík, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Ernu Hauksdóttur, Einar Bollason og Hörð Sigurbjörnsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Friðrik Pálsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Jón Gunnarsson frá Sjávarnytjum, Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands.

Umsagnir um málið bárust frá Akraneskaupstað, Öldunni, skipstjóra og stýrimannafélagi, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum verslunarinnar, Hólmavíkurhreppi, Landssambandi smábátaeigenda, Leirár- og Melahreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sjóferðum Arnars Sigurðssonar, Sjóferðum ehf., Sjómannafélagi Ísfirðinga, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Verkalýðsfélagi Akraness. Í vinnu sinni studdist nefndin jafnframt við umsagnir um 577. mál, hvalveiðar, sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Þá bárust umsagnir frá Dagsbrún-Framsókn, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Ferðamálaráði, Félagi hrefnuveiðimanna, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Fiskmarkaði Suðurnesja, Hafrannsóknastofnuninni, Hvalamiðstöðinni Húsavík ehf., Hval hf., Innri-Akraneshreppi, Konráð og sonum, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannafélagi Eyjafjarðar, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Sjómannasambandi Íslands, Verkakvennafélaginu Framtíðinni, Verkalýðsfélaginu Jökli og Vélstjórafélagi Íslands. Í meiri hluta umsagna sem bárust var mælt með samþykkt málsins. Tillagan var einnig send utanríkismálanefnd til umsagnar og gerir hún ekki athugasemdir við þingmálið eftir athugun á því.

Tillagan felur í sér að hvalveiðar verði hafnar hér við land á þessu ári innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin leggur til og að sjávarútvegsráðherra verði falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.

Meiri hluti nefndarinnar tekur undir meginefni tillögunnar og leggur til við Alþingi að ályktað verði um að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta og að ríkisstjórninni verði falið að standa fyrir nauðsynlegri kynningu á þessari ákvörðun Alþingis og hrinda henni í framkvæmd þannig að veiðarnar geti hafist sem fyrst. Miðað er við að það geti orðið eigi síðar en á næsta ári.

Að málinu hefur verið unnið á undanförnum árum og er tillaga meiri hlutans nú í samræmi við álit starfshóps um hvalveiðar frá febrúar 1997 og samþykkt ríkisstjórnarinnar í framhaldi af því.

Verði tillagan samþykkt hefur Alþingi upphafið ályktun sína frá 2. febrúar 1983, en þar var ályktað að ekki yrði mótmælt samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðs um takmörkun hvalveiða, og markað nýja stefnu þar sem skýrt og skorinort er kveðið á um að hvalveiðar skuli hefjast og það hið fyrsta.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt tillögunnar með svofelldri breytingu, að tillögugreinin orðist svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.

Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.

Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.``

Undir nál. meiri hlutans rita Kristinn H. Gunnarsson, Árni Ragnar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Vilhjálmur Egilsson, Hjálmar Árnason, Einar Oddur Kristjánsson og Stefán Guðmundsson.

Mál þetta hefur margar hliðar og er rétt að fara nokkrum orðum um nokkrar þeirra. Í fyrsta lagi að lögð er rík áhersla á að veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.

Stórhvalaveiðar voru stundaðar með hléum frá landstöðvum við Ísland í liðlega eina öld eða til ársins 1989. Frá árinu 1948 takmörkuðust veiðarnar við starfsemi stöðvarinnar í Hvalfirði. Að meðaltali voru veiddar 234 langreyðar og 68 sandreyðar á ári tímabilið 1948--1985 og 82 búrhvalir árin 1948--1982. Árið 1986 gekk í gildi ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni. Í samræmi við ákvæði hvalveiðisáttmálans var takmarkaður fjöldi lang- og sandreyða veiddur í rannsóknarskyni árin 1986--1989. Frá 1990 hafa engar hvalveiðar verið stundaðar frá Íslandi.

Hrefnuveiðar hafa verið stundaðar mestan hluta þessarar aldar á litlum vélbátum og lengst af í smáum stíl. Á árunum 1977--1985 ákvarðaði Alþjóðahvalveiðiráðið árlega hrefnukvóta fyrir svæðið Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen og komu um 200 hrefnur í hlut Íslendinga árlega. Engar veiðar á hrefnu hafa verið leyfðar frá lokum vertíðar 1985.

Ákveðið var að vinna að úttekt á ástandi hvalastofna samfara ákvörðun um tímabundna stöðvun veiða. Niðurstöður þessara rannsókna hafa fengið umfjöllun á vísindalegum vettvangi, m.a. innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og innan NAMMCO. Þar hafa m.a. verið staðfestar stofnstærðir hrefnu, lang- og sandreyðar á Íslandsmiðum og nærliggjandi hafsvæðum. Varðandi hrefnu benda fyrirliggjandi gögn til þess að um 184 þús. dýr séu á Norður-Atlantshafi, þar af um 56 þús. dýr á landgrunninu umhverfis Ísland.

Niðurstaða vísindanefndar NAMMCO er að stofninn sé nú nálægt upprunalegri stærð. Þær veiðar sem stundaðar voru úr stofninum meginhluta aldarinnar hafa samkvæmt því haft hverfandi áhrif á stofnstærðina. Samkvæmt varfærnustu forsendum er hámarksafrakstursgeta íslenska strandsvæðisins til langs tíma litið talin vera 253 dýr. Fyrir liggur að Hafrannsóknastofnun hefur lagt til aflamark úr stofninum, 200 dýr á ári, í ljósi úttektar vísindanefndar NAMMCO.

Samkvæmt talningum árin 1987 og 1989 er áætlað að stofnstærð langreyðar á Norður-Atlantshafi sé um 50 þús. dýr. Úttekt, byggð á talningagögnum frá 1987--1989, bendir til þess að stofninn á þessu svæði þoli umtalsverðar veiðar, eða a.m.k. 100--200 hvali á ári. Nýjar talninganiðurstöður staðfesta þetta. Hafrannsóknastofnunin leggur til í varúðarskyni að ekki verði veiddar fleiri en 100 langreyðar á ári.

Þá hafa farið fram talningar á sandreyði og sennilegt er talið að sá stofn hafi vel þolað veiðarnar úr stofninum á undanförnum áratugum. Veiðiþol hefur þó ekki enn verið metið né þróaðar aflareglur sem fara mætti eftir við úthlutun aflamarks. Ekkert er því til fyrirstöðu með hliðsjón af vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar að hefja veiðar á hrefnu og langreyði.

Samspil hvalastofna og fiskstofna er fyrir hendi og nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um fæðuval hvala og að hve miklu leyti þeir hafa áhrif á stofnstærð nytjafiska við Ísland. Athuganir íslenskra vísindamanna benda til að hvalir éti liðlega 6 millj. tonna árlega, þar af rúmlega 2 millj. tonna af fiskmeti. Talið er að hrefnan ein éti um helminginn af fiskinum. Líkur benda til þess að vaxandi hvalastofnar leiði til þess að afrakstursgeta þorskstofnsins minnki, svo dæmi sé nefnt. Eina leiðin til að afla betri upplýsinga um sambandið þarna á milli er að hefja veiðar og rannsaka fæðuval hvalanna, einkum hrefnunnar.

Alþjóðleg staða málsins er skýr. Ekkert í þjóðarétti bannar Íslendingum hvalveiðar. Fullveldisréttur ríkis tryggir Íslendingum forræði málsins í eigin lögsögu og í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Íslendingar eru aðilar að, er tryggður réttur til nýtingar á sjávarspendýrum að uppfylltu samráði á vettvangi alþjóðastofnunar. Það er uppfyllt með aðild Íslands að NAMMCO. Enn fremur má geta um ákvæði í svonefndri Ríó-samþykkt en þar er grundvallað á sjálfbærri nýtingu stofna en ekki algerri friðun. Af þessum sökum er ekki ástæða til að ætla að erlend stjórnvöld grípi til aðgerða gegn Íslendingum, hefji þeir hvalveiðar. Þannig má nefna svonefnt Pelly-ákvæði í bandarískum lögum sem veitir forseta Bandaríkjanna heimild til að beita viðskiptaþvingunum í formi innflutningstakmarkana á vörur frá viðkomandi landi. Oft hefur verið beitt hótunum um að beita þessu ákvæði gagnvart löndum sem stunda hvalveiðar, t.d. gagnvart Íslendingum, Japönum, Rússum, Kanadamönnum og Norðmönnum en í hvert sinn sem viðskrh. Bandaríkjanna hefur beðið forsetann að beita þessu ákvæði hefur hann neitað því enda verða viðskiptaþvinganirnar að vera í samræmi við ákvæði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Svo lengi sem ríki sem stunda hvalveiðar gera það í samræmi við alþjóðsamninga hefur forsetinn ekki forsendur fyrir því að beita viðskiptaþvingunum. Ísland hefur rétt til að stunda hvalveiðar og því væru hvers konar viðskiptaþvinganir af hálfu bandarískra stjórnvalda í andstöðu við Alþjóðaviðskiptastofnunina.

Til er alþjóðlegur samningur um milliríkjaverslun á dýrum og plöntum sem eru í útrýmingarhættu, svonefndur CITES-samningur. Því er stjórnað með því að skipa tegundum í viðauka eftir því hver staða tegundarinnar er í heiminum hverju sinni. Í viðauka I eru sett dýr og plöntur sem eru í útrýmingarhættu og má ekki versla með afurðir af þeim. Í viðauka II eru tegundir sem eru komnar úr mestri hættu en þarf að hafa eftirlit með. Þegar tegund er í viðauka II má fara fram milliríkjaverslun með afurðir hennar undir eftirliti. Langreyðar, sandreyðar og hrefnustofnar eru í viðauka II í þessum samningi. Hins vegar eru Íslendingar, Norðmenn og Japanar ekki bundnir af þessu banni við milliríkjaverslun með hvalaafurðir og geta því stundað viðskipti með þær. Norðmenn og Japanar, vegna þess að þeir mótmæltu röðuninni á sínum tíma í þessa viðauka, og Íslendingar vegna þess að þeir eru ekki aðilar að þessum samningi. Kjósi Íslendingar að gerast aðilar að CITES-samningnum, sem kemur vel til greina, geta þeir mótmælt þessari röðun í viðaukunum og verið eftir sem áður óbundnir því banni við milliríkjaverslun með afurðir þessara dýra sem samningurinn kveður á um.

[14:00]

Norðmenn hafa í tvígang flutt tillögu innan CITES til að fá hrefnustofna í norður-Atlantshafi flutta frá viðauka I til viðauka II, fyrst árið 1994 og aftur árið 1997. Í fyrra sinnið sögðu 16 ríki já, og 48 ríki nei og 48 ríki sátu hjá. Það voru sem sé þrisvar sinnum fleiri ríki andvíg því að breyta röðuninni í viðauka en voru því fylgjandi. Í síðara skiptið hafði dæmið snúist við. Þá voru 57 þjóðir fylgjandi, 51 á móti og sex sátu hjá. Meiri hlutinn studdi sem sé tillöguna, en tvo þriðju atkvæða þarf til að gera breytingar á röðuninni í viðauka. Vonast er til að á næsta fundi CITES sem verður á næsta ári fáist nægilegur meiri hluti til að breyta röðuninni hvað varðar hrefnustofnana í Norður-Atlantshafi.

Þá vil ég loks nefna Bernar-samninginn sem Íslendingar eiga aðild að ásamt 35 öðrum Evrópuþjóðum. Sá samningur kveður á um vernd villtra plantna og dýra og búsvæði þeirra í Evrópu. Samkvæmt þeim samningi er hrefnan veiðanleg tegund svo framarlega að varúðar sé gætt og að veiðarnar fylgi settum reglum sem tryggi vernd stofnsins. Tillögur hafa komið fram á fundum fastanefndar samningsins um að friða tegundina en þeim hefur verið hafnað. Samkvæmt samningnum er hrefnan aðeins friðuð í Miðjarðarhafinu.

Viðbrögð almennings er erfitt að meta en þau sem helst skipta máli væru ef almenningur sniðgengi íslenskar vörur á erlendum mörkuðum eða áhrif yrðu á ferðamannastraum til landsins. Þar er til að nefna af fyrri reynslu bæði Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga, að ekki bendir hún til þess að þau áhrif yrðu mikil eða varanleg. Vísa ég þar til ákvörðunar Íslendinga um að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og hefja vísindaveiðar. Þá sem nú voru uppi raddir sem vöruðu við þeim ákvörðunum og töldu vá fyrir dyrum ef menn stæðu fastir á sínu máli. Skemmst er frá því að segja að hrakspárnar rættust ekki. Reynsla Norðmanna er svipuð. Einhver áhrif voru mælanleg, en þau vöruðu í skamman tíma. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu sem unnin var fyrir norska utanríkisráðuneytið og liggur fyrir í gögnum sjútvn.

Þá má enn nefna að Færeyingar sem eru stærstu innflytjendur á ferskum fiski á breskan markað hafa mátt þola áróður gegn sér í breskum fjölmiðlum vegna grindhvalaveiða sinna, en ekki verður séð að það hafi haft merkjanleg áhrif á stöðu Færeyinga á breskum markaði. Þá má benda á að svo virðist sem áhrif einstakra samtaka á almenningsálit fari dvínandi og að almenningsálitið hafi breyst verulega á síðustu 15 árum.

Afar merkilegar niðurstöður koma fram í skoðanakönnun sem gerð var á síðasta ári í fjórum löndum, Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og Ástralíu. Í öllum þessum ríkjum er meiri hluti fylgjandi hrefnuveiðum í atvinnuskyni, 61% í Bretlandi, 63% í Frakklandi, 53% í Ástralíu og 71% stuðningur almennings í Bandaríkjunum er við hrefnuveiðar í atvinnuskyni ef marka má þessa skoðanakönnun, en spurt var um það efni. Gefnar voru ákveðnar forsendur fyrir veiðunum. Þær voru að stofninn væri um 1 millj. dýra, að veiðar hefðu ekki áhrif á stofninn með því að út væri gefinn kvóti og að veitt væri til manneldis og undir eftirliti alþjóðastofnunar. Enginn vafi leikur hins vegar á um afstöðu almennings hér á landi. Alla tíð hefur yfirgnæfandi stuðningur verið við hvalveiðar og í síðustu könnun voru 81% landsmanna hlynntir veiðunum en aðeins 10% á móti. Í þessu máli geta menn fremur en í öðrum tekið sér í munn að tala um vilja þjóðarinnar. Er vandfundið það mál sem meiri stuðningur er við meðal almennings á Íslandi.

Herra forseti. Ég hef lokið að mæla fyrir nál. og vænti þess að þingheimur fallist á þau rök sem fram eru borin og styðji þá tillögu sem hér er lögð fram af meiri hluta sjútvn.