Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:05:58 (4500)

1999-03-09 14:05:58# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór ágætlega yfir álit meiri hluta sjútvn. og gerði það á sinn hátt. Eins og fram kom í ræðu hans vann nefndin mikið í þessu máli. Kallað var eftir miklu af gögnum og má segja sem svo að nefndin hafi eytt miklum tíma í þetta mál og málið hafi verið nokkuð vel unnið.

Virðulegi forseti. Ég geri nú grein fyrir áliti minni hluta sjútvn., en ásamt mér stendur að því hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir.

Ég vil segja í upphafi máls míns að minni hlutinn er samþykkur því að Íslendingar hefji hvalveiðar. Hins vegar er verulegur áherslumunur á viðhorfi minni hlutans til þess máls borið saman við það sem fram kemur í áliti meiri hlutans og mun ég nú fara yfir þann mun.

Minni hlutinn tekur undir það viðhorf sem fram kemur í áliti meiri hlutans að leggja beri áherslu á að nýta allar auðlindir sjávar á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda, þar með taldra hvalastofna við Ísland. Á hinn bóginn kemur áherslumunur minni hlutans fram í því að hann gerir verulegar athugasemdir við þá aðferðafræði sem meiri hlutinn leggur til að beitt verði í þessu máli.

Í fyrsta lagi gerir minni hlutinn athugasemdir við að meiri hlutinn skuli leggja til að Alþingi álykti um að hafnar verði hvalveiðar án þess að skilgreina nánar hvenær veiðarnar skuli hefjast. Það er álit minni hlutans að það hefði verið mun skynsamlegra í þessu máli, því líklegt er að við þurfum að vinna þeim viðhorfum fylgi á erlendri grundu að við höfum tekið um það ákvörðun að hefja veiðar á einhverjum ákveðnum tíma, kannski að tveimur, þremur árum liðnum og getum þá á þeim tíma reynt að vinna málstað Íslands framgang á alþjóðlegum vettvangi og í helstu viðskiptalöndum okkar.

Minni hlutinn telur að með því að standa þannig að ályktuninni sé verið að gera stjórnvöldum mun erfiðara fyrir en ella að vinna sjónarmiðum Íslendinga fylgi á alþjóðavettvangi. Að mati minni hlutans er sú aðferðafræði sem meiri hlutinn leggur til að beitt verði í þessu máli ekki ólík því að lýsa yfir stríði án þess að afla sér þeirra tækja og tóla sem nauðsynleg eru til að heyja stríðið eða hafa nokkra áætlun sem að gagni gæti komið við slíkan stríðsrekstur því Íslendingar eru háðari viðskiptum með sjávarafurðir en nokkur önnur þjóð og byggja afkomu sína á verslun með þær víða um heim. Það er því ljóst, virðulegi forseti, að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi hvað það varðar að vel takist til í þessu máli því að andstaða við hvalveiðar er meðal vinsælustu mála umhverfissamtaka og það er jafnan svo að þeim vex ásmegin þegar umræða um hvalveiðar stendur sem hæst. Um árabil hafa umhverfissamtök barist gegn hvalveiðum og notið til þess mikils fjárhagslegs styrks. Þá er til þess að líta að í nokkrum þeirra ríkja sem skipta okkur miklu máli í viðskiptalegu tilliti er stefna stjórnvalda styrkur fyrir þessi samtök.

Frsm. meiri hlutans, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fór yfir það að m.a. í Bandaríkjunum er að finna lagaheimild til að beita þær þjóðir viðskiptaþvingunum sem hefja hvalveiðar. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það sé allsendis óvíst að þessar viðskiptaþvinganir fái staðist þær reglur sem við höfum undirgengist hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, enda skilst mér að Bandaríkjamenn hafi átt undir högg að sækja þegar þeir hafa þurft að verja þessar reglur á alþjóðavettvangi.

En hitt er ljóst, virðulegi forseti, að reglur af þessum toga væru ekki til staðar nema vindar blésu með viðhorfum af þessu tagi. Hvort sem þetta stenst eða ekki í lagalegu tilliti, í alþjóðasamningum eða alþjóðaviðskiptum, þá er alveg ljóst að lög af þessum toga væru ekki til staðar nema af því að viðhorf í þessa veru hafa verulegt fylgi í landi eins og Bandaríkjunum. Þess vegna er m.a. til þessa að líta þegar við tökum ákvörðun um það hvort og þá hvernig við hefjum hvalveiðar að nýju.

Í öðru lagi gerir minni hlutinn athugasemdir við að ekki skuli kveðið skýrt á um í tillögunni sem meiri hlutinn hefur mælt fyrir á hvaða dýrum skuli hefja veiðar. Minni hlutinn telur að mun farsælla hefði verið að afmarka það, t.d. með því að hefja fyrst veiðar á hrefnu. Það hefði ekki verið óeðlilegt að við hefðum fetað í fótspor Norðmanna í þessum efnum, en þeir ákváðu að hefja veiðar á ákveðnum degi, eftir ákveðinn tíma og þá einkanlega veiðar til neyslu innan lands.

Ég tel, og það er álit minni hlutans, að mun vænlegra og betra hefði verið að vinna þessum sjónarmiðum fylgi á alþjóðavettvangi ef við hefðum sett fram skýra áætlun um það hvernig við ætlum að standa að þessum veiðum og hvenær við ætlum að hefja þær í stað þess að lýsa því yfir að að við ætlum að hefja hvalveiðar strax, án þess að skilgreina nokkuð frekar hvernig standa eigi að þeim veiðum eða hvaða dýr eigi að veiða.

Í þriðja lagi vekur minni hlutinn athygli á því að óljóst er með öllu hvaða efnahagslegi ávinningur felst í því að hefja hvalveiðar, einkanlega meðan jafnóljóst er og raun ber vitni hvort mögulegt er að selja hvalafurðir.

Vissulega má færa fram þau rök, virðulegi forseti, að það sé ekki þingsins að selja hvalafurðir. En hitt er líka ljóst að við höfum mjög takmarkaða hagsmuni af því að selja hvalafurðir eins og málum er nú komið. Það er miklu meiri hætta á því að við setjum mikla hagsmuni í verulegt uppnám. Borið saman við þá hagsmuni sem höfum af hvalveiðum þá er ólíku saman að jafna. Því eiga þau rök ekki við sem menn hafa sett fram um að þingið ætli sér ekki að selja hvalafurðir, því með því að álykta eins og meiri hlutinn leggur til er hættan sú að við teflum verulegum hagsmunum í hættu.

Virðulegi forseti. Í fjórða lagi vill minni hlutinn líta svo á að með flutningi tillögunnar og samþykkt meiri hlutans megi jafnvel líta svo á að um vantraust á ríkisstjórnina sé að ræða því vorið 1997 samþykkti nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, sem starfaði undir forustu hv. þm. Árna R. Árnasonar, að gera tilögur. Ríkisstjórnin samþykkti að gera þær að sínum og í framhaldi af undirbúningsvinnu sem tillögurnar fólu í sér að taka ákvörðun um framlagningu þingsályktunartillögu. Það er nú þannig, virðulegi forseti, að lítið hefur verið unnið samkvæmt tillögum nefndarinnar. Ég er með þessar tillögur hér. Það kom fram í vinnu nefndarinnar að ríkisstjórnin hefur í rauninni ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að vinna þeim sjónarmiðum framgang á alþjóðavettvangi að við gætum hugsanlega hafið hvalveiðar án þess að tefla verulegum hagsmunum í tvísýnu. Það kom vel fram í vinnu nefndarinnar að ríkisstjórnin hefur ekkert gert í því sambandi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp þær tillögur sem nefnd hv. þm. Árna Ragnars Árnasonar lagði fram. Þær eru í átta liðum.

Í fyrsta lagi er lagt til að leitað verði eftir pólitískri samstöðu um að afgreiða á Alþingi ályktun um að hefja skuli nýtingu hvalastofna hér við land hið fyrsta og að ríkisstjórninni skuli falið að undirbúa það.

[14:15]

Ég get sagt það sem fulltrúi minni hlutans í þessari nefnd að ekki var leitað eftir því við minni hlutann að hann kæmi að samningu þáltill. sem meiri hlutinn hefur hér lagt fram. Hún er alfarið á ábyrgð meiri hlutans.

Í öðru lagi leggur umrædd nefnd til að náið samráð og samstarf verði haft við öll ríki sem hlynnt eru hvalveiðum. Þá verði teknar upp viðræður við stjórnvöld ríkja sem lagst hafa gegn hvalveiðum til þess að kynna okkar málstað og leita samkomulags við þau um framkvæmd þeirrar stefnu til þess að hefja á ný hvalveiðar í atvinnuskyni.

Í stuttu máli má segja sem svo að ekkert hafi verið gert til þess að fylgja þessari tillögu.

Í þriðja lagi er lagt til að uppbyggingu Norður-Atlantshafsspendýraráðsins, NAMMCO, verði haldið áfram með sérstakri áherslu á að fjölga aðildarríkjum. Það þekkja flestir vel hvernig til hefur tekist í þeim efnum.

Í fjórða lagi taldi nefndin eða starfshópurinn rétt að kanna hvaða möguleika endurnýjuð aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu kynni að hafa upp á að bjóða. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að núna liggur fyrir þinginu tillaga frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um að þetta verði skoðað. En sú tillaga liggur í sjútvn. Þar hefur ekkert verið um hana fjallað og hún hefur engar umræður fengið.

Í fimmta lagi, virðulegi forseti, lagði umrædd nefnd til að samráð yrði haft við helstu útflytjendur og aðra aðila sem mikilla viðskiptahagsmuna eiga að gæta. Um þetta má segja að SH, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, var, ef ég man rétt --- það má þá leiðrétta það --- eini útflytjandinn sem sendi okkur umsögn um málið og þeir leggjast gegn því, vægt til orða tekið, að tillaga eins og sú sem hér liggur fyrir verði afgreidd.

Í sjötta lagi lagði nefndin til að utanrrn. yrði falið að efla samráð ráðuneyta og stofnana um þátttöku í alþjóðasamstarfi sem tengst getur hvalveiðum og að kannað yrði hvort æskilegt væri að Ísland gerist aðili að fleiri alþjóðasamningum á þessu sviði. Ekkert hefur verið gert með þessa tillögu.

Í sjöunda lagi lagði umrædd nefnd til að gerð yrði áætlun um hvernig á sem hagkvæmastan og árangursríkastan hátt yrði staðið að fræðslu og kynningu á málstað Íslands á erlendum vettvangi, þar á meðal gagnvart umhverfissamtökum. Það þarf ekki að rekja það að hér hefur ekkert verið gert, virðulegi forseti.

Og í áttunda lagi að kannaður yrði sá möguleiki að taka frá sérstök svæði vegna hvalaskoðunar. Umræða um þetta fór fram í hæstv. sjútvn. en hún tók enga afstöðu til þess í sinni vinnu.

Virðulegi forseti. Með öðrum orðum hefur ekkert verið gert með tillögur þeirrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði og skilaði af sér á vordögum 1997 og ríkisstjórnin gerði að sínum með sérstakri samþykkt. Sú tillaga sem hér liggur fyrir gengur því um margt þvert á þær tillögur sem umrædd nefnd samþykkti og ríkisstjórnin gerði síðan að sínum með sérstakri samþykkt. Ég held því að það megi færa rök að því að meiri hlutinn sé nánast með þessu að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina í þessum efnum. Ég held að varla sé hægt að túlka þetta öðruvísi.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum varðandi hvalveiðar og þeirrar aðferðafræði sem meiri hlutinn leggur nú til telur minni hlutinn það ábyrgðarhlut að afgreiða málið á þennan hátt.

Undir nál. rita Lúðvík Bergvinsson framsögumaður og Svanfríður Jónasdóttir.

Það er nú einu sinni svo að í þessu máli erum við öll að reyna að átta okkur á því hvaða afleiðingar samþykkt þessarar tillögu getur haft í för með sér. Því má segja sem svo að við séum öll að reyna að spá fyrir um hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Sumir hér inni eru þeirrar skoðunar að rétt sé að hefja hvalveiðar án nokkurrar skipulagningar eða skilyrða og telja að það muni alls ekki koma niður á hagsmunum okkar. Við í minni hlutanum teljum hins vegar að það hefði átt að fara öðruvísi í að taka þessa ákvörðun. Við óttumst að með einhliða yfirlýsingu eins og þeirri sem Alþingi er að gefa með samþykkt tillögu meiri hlutans, þá séum við að setja verulega hagsmuni í uppnám. Við teljum að við hefðum átt að gæta mun meiri varúðar í þessu máli. Og þó við séum samþykk því að nýta eigi hvalastofna við Ísland sem og aðra stofna þá teljum við að sú aðferðafræði sem hér er lagt upp með sé þess eðlis að meiri hlutinn beri einn og óstuddur ábyrgð á þeirri niðurstöðu.