Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:26:31 (4504)

1999-03-09 14:26:31# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:26]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur hvorki fram í nál. né í þeirri ræðu sem ég flutti áðan að við vildum ekki hefja hvalveiðar. Það kemur hvergi nokkurs staðar fram og því er það rangt sem hv. þm. sagði.

Við höfum sagt sem svo að við viljum hefja hvalveiðar, en við viljum líka taka mið af þeim viðhorfum sem eru ríkjandi á alþjóðavettvangi. Við viljum ekki tefla í hættu miklum hagsmunum með því að hefja veiðar á hval sem satt best að segja hefur litla sem enga efnahagslega þýðingu fyrir okkur. Þetta eru þau varúðarorð sem frá okkur koma í þessu máli.

Hins vegar get ég upplýst að Samfylkingin sem slík hefur ekkert eina ákveðna línu í þessum málum. Menn hafa sín persónulegu viðhorf til þess hvort hefja eigi hvalveiðar eða ekki. Enn fremur hafa hv. þingmenn sín persónulegu viðhorf til þess hvort hefja eigi hvalveiðar með þessum gassagangi sem meiri hlutinn leggur hér til, þ.e. hvort hefja eigi hér hvalveiðar strax án þess að undirbúa málið af einhverju viti.