Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:30:17 (4506)

1999-03-09 14:30:17# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:30]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ræða af þessum toga er svara verð, ég verð að segja það alveg eins og er. Í fyrsta lagi kom hv. þm. Siv Friðleifsdóttir upp áðan og lýsti því yfir að ekki yrðu hafnar hvalveiðar fyrr en að talsverðum undirbúningi loknum, þ.e. vel hefði verið unnið vel að því að undirbúa það mál áður en veiðar yrðu hafnar.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsir því hins vegar yfir að það skuli bara gert hið fyrsta og hið fyrsta þýðir eins og skot. Kannski væri rétt að þessir hv. þingmenn ræddu þessi mál í þingflokknum. Ekki ætla ég að túlka hér á milli.

Í öðru lagi vil ég segja, virðulegi forseti, að þegar þingmenn leyfa sér að koma í ræðustól og túlka ummæli eða orðræður á nefndafundum gera þeir það algerlega á eigin ábyrgð. Ég ætla ekki einu sinni út í þá umræðu. Hins vegar vil ég segja að minni hlutanum var aldrei boðið að koma að því að semja þann texta sem hér liggur fyrir eða leggja drög að því hvaða aðferðafræði yrði beitt þegar ákveðið yrði að hefja hvalveiðar og hvernig það yrði gert. Ég vil að þetta liggi skýrt fyrir. Það er á engan hátt, virðulegi forseti, hægt að segja með einhverjum sanni að í minnihlutaálitinu séu staðlausir stafir. Ég ætla að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ef ég þarf að fara í annað andsvar bara til þess eins að leiðrétta hið fyrra, veit ég ekki hvort ég læt það eftir mér.