Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:31:56 (4507)

1999-03-09 14:31:56# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þurfi ekki að vera svona sporlatur. Mig langar að spyrja hann um afstöðu hans í málinu. Hann hóf ræðu sína á því að lýsa yfir að hann styddi hvalveiðar. Nál. hans lýkur á eftirtöldum orðum, með leyfi forseta:

,,... telur minni hlutinn það ábyrgðarhlut að afgreiða málið á þennan hátt.``

Gott og vel, herra forseti. Á hvaða hátt leggur minni hlutinn til að málið verði afgreitt? Hvar er tillaga minni hlutans? Hvort mun hann styðja hvalveiðar eða vera á móti hvalveiðum? Um það verða greidd atkvæði þegar tillaga meiri hlutans kemur til atkvæða því þar er kveðið skýrt og skorinort á um að það eigi að hefja hvalveiðar. Það er stefna sem er mörkuð sem ríkisstjórninni er falið að hrinda í framkvæmd. Munu þingmenn Samfylkingarinnar vera með eða á móti? Þeim hefur tekist að skrifa nefndarálit án þess að segja hvaða skoðun þeir hafa á málinu.