Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:34:36 (4509)

1999-03-09 14:34:36# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Í nál. minni hlutans kemur fram að líta megi á flutning tillögunnar og samþykkt meiri hluta sjútvn. sem vantraust á ríkisstjórnina vegna þess að hún hafi gert tillögu nefndar sem skilaði niðurstöðu sinni fyrir tveimur árum að sinni. Ég er algerlega ósammála þessu og tel að mikill munur sé á því hvort ríkisstjórnin er með í höndunum álit nefndar eða hvort hún er með ályktun Alþingis. Tillagan gengur út á að Alþingi álykti um að hvalveiðar skuli hefjast hér á ný. Það er reginmunur á því eða hvort einhver nefnd er að skila af sér skýrslu.

Ég hef talað fyrir því í mörg ár að Alþingi álykti um hvalveiðar. Það hefur Alþingi ekki gert í 16 ár. Tillaga meiri hluta sjútvn. gengur út á það að Alþingi álykti um málið að veiðarnar skuli hefjast á ný. Ég tel að það verði einmitt mikill styrkur fyrir ríkisstjórnina varðandi næstu spor í málinu að hafa ályktun Alþingis sem skýrt kveður á um að við ætlum að hefja hvalveiðar að nýju.