Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:37:19 (4511)

1999-03-09 14:37:19# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Sjútvn. Alþingis hefur haft tillögu mína og 11 annarra hv. þingmanna um hvalveiðar til meðferðar síðan um miðjan nóvember eða í tæpa fjóra mánuði og reyndar einnig í tvo mánuði á síðasta þingi þegar tillagan var upphaflega flutt. Sú tillaga gekk út á að Alþingi ályktaði að hvalveiðar skyldu leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til og sjútvrh. verði falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.

Sjútvn. þingsins hefur lagt mjög mikla vinnu í tillöguna og fengið umsagnir frá 33 aðilum sem eru langflestar mjög jákvæðar auk þess sem nefndin hefur fengið fjölda gesta til að ræða málið og eru þeir taldir upp í nefndaráliti meiri hlutans. Það er sem sagt augljóst að nefndin hefur lagt mikla vinnu í málið og meiri hlutinn hefur nú komist að niðurstöðu og breytt nokkuð tillgr. frá því sem var í tillögu okkar tólfmenninganna. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.

Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.

Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.``

Ég hefði viljað að niðurstaðan hefði orðið sú að hvalveiðar yrðu leyfðar strax í sumar eins og tillaga okkar gerði ráð fyrir en um það varð ekki samkomulag. Niðurstaðan varð þessi og tillgr. sem fylgir nefndaráliti meiri hlutans þar sem skýrt kemur fram hvað verið er að leggja til. Í greinargerðinni segir svo, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti nefndarinnar tekur undir meginefni tillögunnar og leggur til við Alþingi að ályktað verði um að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta og að ríkisstjórninni verði falið að standa fyrir nauðsynlegri kynningu á þessari ákvörðun Alþingis og hrinda henni í framkvæmd þannig að veiðarnar geti hafist sem fyrst. Miðað er við að það geti orðið eigi síðar en á næsta ári.``

Bókun meiri hlutans er mjög mikilvæg og þar kemur ótvírætt fram að Íslendingar ætla að hefja hvalveiðar að nýju.

Einnig er mikilvægt að í tillgr. kemur fram að ályktun Alþingis frá 2. febrúar 1983 um að mótmæla ekki hvalveiðibanninu er upp hafin og mörkuð ný stefna þar sem það kemur skýrt og skorinort fram að hvalveiðar skuli hefjast að nýju og það hið fyrsta. Þetta er mjög afdráttarlaust.

Ég hef árum saman talað fyrir því að Alþingi ályktaði um hvalveiðar. Það hefur ekki gerst fyrr en nú og því fagna ég niðurstöðunni sem er mjög ótvíræð og ágæt.

Ég fagna því einnig að Alþingi speglar þjóðarviljann sem er ótvírætt sá að hvalveiðar verði hafnar að nýju eins og glöggt má sjá á ítrekuðum áskorunum allra heildarsamtaka sjómanna, heildarsamtaka útvegsmanna, heildarsamtaka verkafólks, heildarsamtaka sveitarfélaganna á Íslandi auk fjölda annarra aðila að ógleymdum ítrekuðum skoðanakönnunum undanfarin ár sem sýna allar 80--90% stuðning þjóðarinnar við hvalveiðar. Það er rétt sem fram kom í ræðu frsm. meiri hluta sjútvn., hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að það er vandfundið mál sem meiri samstaða er um meðal þessarar þjóðar.

Ég ætla ekki að endurtaka öll þau rök sem eru fyrir því að hvalveiðar hefjist á ný. Það hef ég gert ítrekað á Alþingi, síðast þegar ég mælti fyrir tillögu okkar fjórmenninganna við fyrri umræðu í desember. En ég vil nefna það að ég tel að hávær mótmæli örfárra aðila og hótanir um viðskiptaþvinganir séu stormur í vatnsglasi og ekkert til að óttast. Það segir okkur reynsla Norðmanna sem stóðu frammi fyrir svipuðum hótunum þegar þeir hófu hvalveiðar að nýju fyrir 5--6 árum. Ekkert af þeim hótunum gekk eftir sem betur fer. Enginn samdráttur varð hjá þeim í útflutningi eða komu ferðamanna. Í síðustu viku var sagt frá því í fréttatíma sjónvarpsins sem var dálítið skondið að þýskir innflytjendur sjávarafurða væru að hóta okkur Íslendingum öllu illu ef við byrjuðum hvalveiðar að nýju en svo var sagt frá því í sama fréttatíma að Norðmenn væru stærstu innflytjendur sjávarafurða til Þýskalands en Norðmenn veiddu sem kunnugt er 642 hvali á síðasta ári og hafa aukið þessar veiðar sínar jafnt og þétt frá því að þeir hófu þær fyrir tæpum sex árum.

Það má nefna það líka að fyrir stuttu var staddur hér á landi Høgni Hoydal, færeyskur stjórnmálamaður, og hann var inntur eftir því hvort grindhvalaveiðar Færeyinga hefðu einhver áhrif á útflutning þeirra eða ferðamannastraum og hann sagði að svo væri alls ekki. Það hefði engin áhrif á útflutninginn. Ef það hefði einhver áhrif á ferðamannastrauminn væri hann sá að það kæmu fleiri ferðamenn en ella vegna þess að ferðamenn hefðu afskaplega gaman af að fylgjast með þessum veiðiskap.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Ég hef rætt þetta mál svo oft og svo lengi að ástæðulaust er að endurtaka það allt hér. Ég ítreka það bara að ég fagna því að hér er skýrt kveðið á um það að hvalveiðar skuli hefjast á ný og að samþykkt Alþingis frá því í febrúar 1983 er þar með felld úr gildi.

Herra forseti. Samþykkt tillögunnar þýðir að hvalveiðar munu hefjast á næsta ári og er nú tími til kominn. Ég fagna niðurstöðunni því mjög.