Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:44:28 (4512)

1999-03-09 14:44:28# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, TIO
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:44]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Sú till. til þál. um hvalveiðar sem er til umræðu, nú þegar nál. liggur fyrir, er vandmeðfarið mál. Ef litið er yfir þá brtt. sem nál. fylgir, stendur þar m.a.:

,,Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.``

Sjálfsagt er að taka mjög eindregið undir yfirlýsinguna. Ég hef í máli mínu á Alþingi alltaf lagt áherslu á að Íslendingum beri að halda mjög til haga réttinum að nýta lifandi auðlindir sjávarins og á það jafnt við um hvali sem fiskinn.

[14:45]

Hins vegar stendur í tillögunni að Alþingi álykti að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land. Það atriði orkar frekar tvímælis. Einnig er tekið fram að allur undirbúningur skuli miða að því að veiðar geti hafist sem fyrst.

Í máli framsögumanns meiri hlutans í sjútvn. hefur komið fram að utanrmn. fjallaði um þessa tillögu að beiðni sjútvn. Í utanrmn. var einkum skoðað hvort alþjóðlegar skuldbindingar hindruðu það að Íslendingar hæfu hvalveiðar. Eftir að málið hafði verið skoðað sérstaklega með fulltrúum utanrrn. gerir utanrmn. ekki athugasemdir við þetta mál. Það byggist á því að þær upplýsingar sem nefndin gat kallað fram bentu til þess að formlega væri ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar gætu hafið hvalveiðar. Alþjóðlegir samningar hindruðu það ekki. Það byggðist m.a. á því að þá væri hægt að nýta NAMMCO til að hefja hvalveiðar innan þeirra samtaka.

Á þessu máli eru ýmsar aðrar hliðar sem ég mun fara hér yfir á eftir. Ég ætla hins vegar að víkja aðeins að þessum alþjóðlegu skuldbindingum.

Í sjálfu sér get ég fallist á að hægt sé að halda því fram með fullum rétti að formlega eigi Íslendingar að geta hafið hvalveiðar innan NAMMCO. Á því geta hins vegar verið ýmsir gallar eða erfiðleikar. Það helst í hendur við það hvort aðrar þjóðir eru einnig tilbúnar til að nýta NAMMCO til að hefja hvalveiðar. Það liggur ekki fyrir að aðrar þjóðir en Íslendingar ætli sér að nýta NAMMCO til þess.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það hafi orkað mjög tvímælis að Íslendingar gengu úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ef Íslendingar vilja hefja hvalveiðar þá væri skynsamlegt skref í þá átt að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið.

Hins vegar eru mjög margar hliðar á þessu máli þannig að erfitt er að festa á þeim hendur. Það er mjög erfitt að festa hendur á því hvernig viðhorf almennings í öðrum löndum verður ef við viljum hefja hvalveiðar. Íslendingar sem útflutningsþjóð eiga mjög mikið undir viðhorfi almennings í öðrum löndum, þeir eru mjög háðir þessum viðhorfum. Það gildir náttúrlega fyrir allar þjóðir sem eru eins háðar útflutningi og Íslendingar eru.

Við verðum að sætta okkur við að neytendur í þeim löndum sem við flytjum mest út til hafi eitthvað um málið að segja. Þannig hefur það verið undanfarið. Áður en við gengum t.d. í Evrópska efnahagssvæðið voru neytendur í viðskiptalöndum okkar búnir að setja okkur ýmsar reglur um hvernig við ættum að haga t.d. pakkningarmálum okkar á fiskafurðum. Þannig að við erum, hvort sem okkur þykir það ljúft eða leitt mjög háðir viðhorfum neytenda í viðskiptalöndum okkar.

Svo við veltum fyrir okkur nokkrum þáttum í þessu máli mætti spyrja: Er hægt að segja að hagstætt sé að hefja hvalveiðar sem fyrst, frá sjónarhóli viðskipta með hvalaafurðir? Þetta orkar tvímælis. Fyrir það fyrsta er ekki ljóst hvar við höfum markaði fyrir hvalaafurðir annars staðar en innan lands. Aðild hugsanlegra kaupenda að alþjóðlegum samningum geta hindrað viðskipti þeirra, slíkir möguleikar liggja fyrir. Markaðir eru takmarkaðir innan lands, til alls þessa verður að taka tillit.

Við skulum einnig velta því fyrir okkur, af því að það hefur verið rætt sérstaklega, að hvalveiðar væru hagstæðar vegna þess að þar með tækist okkur að hafa áhrif á vöxt og viðgang hvalastofnanna. Eru þetta gild rök?

Í raun og veru þarf ekki að deila um að hvalirnir éta mikið af fiski eða fæðu fisktegundanna sem lifa hér í kringum landið. Hins vegar liggur ljóst fyrir að hvalveiðar þær sem hér er verið að tala um mundu ekki hafa nokkur áhrif á stofnstærð hvalanna hér við land. Röksemdin stenst illa athugun.

Þá vaknar sú spurning hvort hvalveiðarnar eða jafnvel yfirlýsing um að veiðar verði hafnar, stefni viðskiptum okkar eða hagsmunum fyrirtækja í hættu. Um þetta er mjög erfitt að fá fram skoðanir. Fyrir liggja yfirlýsingar um hvað menn hafi á tilfinningunni, ferðaþjónustuaðilar hafa áhyggjur af þessu, útflutningsaðilar hafa áhyggjur af þessu. Hins vegar hefur komið í ljós, sem er út af fyrir sig athyglisvert, að útflutningsaðilarnir virðast sumir hafa minni áhyggjur af þessu nú en t.d. fyrir nokkrum árum. Það bendir til þess að í gangi sé þróun í þessum málum meðal nágrannaþjóða okkar þó mjög erfitt sé að henda reiður á hve vel sú þróun hafi fest rætur. Það er hins vegar ekki útilokað að þarna sé þróunin okkur hagstæð. Hinu má ekki gleyma að það er afar erfitt að henda reiður á því hversu mikil áhættan er.

Ég met það svo að við verðum að hafa skoðanir á því hvort hagsmunirnir af því að veiða hvali, hinir efnahagslegu hagsmunir sem við getum haft af því, séu það miklir að okkur sé stætt á því að stefna öðrum hagsmunum í hættu, jafnvel þó að mikil óvissa sé um hversu mikil hættan sé. Ég tek undir að sú óvissa er mikil, við getum ekki verið með miklar fullyrðingar um þetta. Málið snýst um að við verðum að geta haft góða samvisku ef við mælum með hvalveiðum, við verðum að geta sagt við okkur sjálf: Við erum að heimila hugsanlega nýtingu og ekki að taka áhættu með því fyrir stærri hagsmuni.

Upplýsingarnar sem við fáum frá aðilum í atvinnulífinu sem stunda útflutning eða hjá ferðaþjónustunni eru í fyrsta lagi nokkuð mismunandi, jafnvel misvísandi. T.d. er ekki einhugur um hvort hægt sé að stunda hvalaskoðun og hvalveiðar á sama tíma. Sumir fullyrða að það sé hægt, aðrir að það sé ekki hægt og að hvalveiðar muni stefna hagsmunum ferðaþjónustunnar í hættu. Það er mjög erfitt að henda reiður á þessu. Mér finnst það orka mjög tvímælis að hefja hvalveiðar sem fyrst þar sem mikil óvissa ríkir um málið.

Því hefur verið haldið fram, og verður það síðasti þátturinn sem mig langar til þess að ræða hér, að við Íslendingar verðum að taka slaginn. Þá er átt við að ýmiss konar umhverfissamtök setji sig nú gegn hvalveiðum en muni í framtíðinni og hafi raunar nú þegar mótmælt stórfelldum fiskveiðum. Það er rétt. Umhverfissamtök eru þegar farin að hefja baráttu gegn stórfelldum og stórtækum fiskveiðum með afkastamiklum skipum og afkastamiklum netum. Ekki er hægt að loka augunum fyrir því að þar er um hættu að ræða.

Þá vaknar spurningin: Eigum við að taka slaginn nú? Er rétt að gera það í sambandi við hvalveiðarnar? Um það hef ég efasemdir. Þær efasemdir hef ég fyrst og fremst vegna þess að ég held að við munum standa einir í þeirri baráttu. Ég held að fáir muni styðja okkur í þeirri baráttu. Við gætum fundið fyrir því á eigin skrokki, að við værum nokkuð fáir í sveit.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að ef stríð yrði um nýtingu fiskimiðanna --- ég á við stórfellda nýtingu fiskimiðanna á sjálfbæran hátt með stórvirkum skipum sem er okkur efnahagslega mikilvæg --- þá mundum við hafa æðimarga sem mundu vilja skipa sér í okkar sveit. Þannig virðist skynsamlegra, ef allt er metið, að taka slaginn, eins og menn hafa orðað það, í sambandi við fiskveiðimálin frekar en hvalveiðimálin. Ég verð því að segja að að hluta er ég mjög sammála því sem kemur fram í þessari brtt. eins og hún er orðuð. Ég er sammála því að við eigum að leggja áherslu á rétt okkar til að nýta auðlindir sjávarins, hverjar sem þær eru. Mér finnst hins vegar vafi leika á því hvort skynsamlegt sé við þessar aðstæður að mæla með því að við hefjum hvalveiðar sem fyrst. Ég tel það ótímabært og hefði frekar kosið að menn settu sér ákveðna vel skilgreinda áfanga sem menn vildu ná áður en gefin væri yfirlýsing um að við mundum hefja hvalveiðar.