Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:28:36 (4519)

1999-03-09 15:28:36# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má að sjálfsögðu hafa þau orð sem hv. þm. hentar um afstöðu mína og málflutning. Ég er einfaldlega að draga fram þau viðhorf sem ég hef til málsins. Ég er ekkert að gera það tortryggilegra en það er í mínum huga. Ég tel að hér skorti á allar vitrænar forsendur til að Alþingi Íslendinga fari að álykta um að hefja hvalveiðar hið fyrsta. Það er alveg skýr afstaða og henni deila félagar mínir í þingflokki óháðra þannig að ekkert ber þar á milli. Við teljum að við höfum þar mjög skýr rök fram að færa. Að því leyti leynir sér ekki hugur minn til málsins. Hins vegar hef ég tekið þátt í umfjöllun um þetta mál, m.a. í stjórnskipaðri nefnd 1994 og hafði veruleg áhrif á niðurstöðu hennar. Menn geta kynnt sér það. Ég hef í raun ekki breytt neitt viðhorfum mínum til málsins í grundvallaratriðum frá þeim tíma.

Varðandi niðurstöðu utanrmn. þá eru það tíðindi, virðulegur forseti, ef það er svo að utanrmn. hafi í rauninni skrifað upp á fyrirliggjandi till. til þál. um hvalveiðar, 92. mál þingsins, en síðan komi formaður nefndarinnar og flytji það mál sem hann hafði hér, virðulegur forseti. Þá er nú farið að verða erfitt að lesa í málið, eins og kallað er, út frá þeim forsendum. Þess vegna hef ég eftir sem áður ástæðu til að óska eftir viðveru formanns utanrmn. og gagnrýni það enn og aftur að málið skuli rætt við þær aðstæður sem hér eru, að þeir sem bera í raun forræði á þessu alvarlega máli eru hlaupnir á dyr eða eru í útlöndum.