Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:36:13 (4524)

1999-03-09 15:36:13# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Okkur greinir á um þetta. Ég tel að eins og fram kom í máli hv. þm. áðan sé þetta orðið nokkuð þroskað mál í þinginu miðað við það árabil sem það hefur legið hér. Auk þess liggur fyrir að í nokkur skipti hefur farið fram skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um hug hennar í þessu máli og hefur komið fram að mikill meiri hluti þjóðarinnar telur að við eigum að hefja hvalveiðar. Það er kannski ekki aðalmálið því hér er það þingræðið sem gildir og það erum við sem tökum ákvörðun um það. Hinu er þó ekki að leyna að ekki þurfum við að hafa áhyggjur af afurðunum, það er ekki okkar mál og vitum við að þeir sem munu væntanlega stunda þessar hvalveiðar hafa sín mál á hreinu hvað þetta áhrærir.

Í annan stað vildi ég nefna að hér er samþykktin þess efnis að ríkisstjórninni er falið og ætlast til af henni að hún vinni heimaverkefni sín áður en veiðarnar hefjast. Nú liggur það nokkuð ljóst fyrir.