Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:40:27 (4527)

1999-03-09 15:40:27# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var aldeilis ljómandi málflutningur, alveg yndislegt á að hlýða. Sérstaklega efnislegt og skýrt.

Varðandi spurninguna, hvort ég styðji mig við málflutning Samfylkingarinnar, held ég að hv. þm. gæti svarað því ef hann hefði hlýtt á mitt mál. Ég er ekkert að leita ráða í því húsi og ætla mér ekki að gera það varðandi afstöðu til einstakra mála. Ég veit ekki hvort hv. þm. ætlar að fara á þau mið. Ég tók heldur ekki málflutning ágætra talsmanna Samfylkingarinnar þannig að þar væri einhverja afstöðu að finna. Ég tók það svo að þar hefði hver sína prívatskoðun ef honum hentaði. Hv. talsmaður minni hlutans greindi skilmerkilega frá því að fulltrúar sem undir áliti minni hlutans standa væru bara að lýsa sjónarmiðum sínum. Ef spurningin er um viðhorf mín til þess málflutnings eftir 2--3 ár er ég alls ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til þess hér og nú. Ég mun ekki styðja þá tillögu sem er lögð fram en ég veit ekkert um Samfylkinguna í því máli. Það geta verið 16 sólir á lofti þess vegna.