Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:46:08 (4531)

1999-03-09 15:46:08# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvölum fjölgar auðvitað ekki takmarkalaust. Allt vistkerfi leitar jafnvægis. Spurningin er um inngrip mannsins. Auðvitað breytir það stöðunni í vistkerfinu. En hvölum fjölgar ekki takmarkalaust og er rétt fyrir okkur að hafa þær staðreyndir í huga.

Þegar ég tala um túlkun á gögnum Hafrannsóknastofnunar þá kom fram hjá talsmanni sjútvn. að þeir tækju til sín 6 milljónir tonna árlega af lífrænu efni væntanlega úr sjónum, þar af 2 milljónir tonna af fiskmeti. Það má vel vera að menn telji sig hafa þetta á hreinu. Ég tel að stjórnmálamenn hafi lesið og túlkað mjög sérkennilega þær niðurstöður sem Hafrannsóknastofnun, á grundvelli takmarkaðra gagna, hefur lagt fram.

Ályktunin 1983 var um tímabundið hvalveiðibann en ekki um að hætta hvalveiðum um alla framtíð. 1990 er þessum tíma lokið. Þá er opið fyrir það að hefja hvalveiðar á nýjan leik. Ég skil því ekki þessa ofuráherslu á það efni af hálfu hv. þm. eða meiri hlutans. Það má lesa um þetta í áliti meiri hluta sjútvn.