Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 16:10:05 (4537)

1999-03-09 16:10:05# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annmarkinn á öllum þeim röksemdum sem við setjum fram hér er að við erum að spá fyrir um framtíðina, hverjar hugsanlegar afleiðingar kunni að verða af því að hefja hvalveiðar. Sum okkar óttast að við setjum ákveðna hagsmuni í uppnám. Aðrir gera það ekki. Aðrir vilja hefja veiðarnar án frekari undirbúnings. Ég, sem frsm. minni hlutans, og minni hlutinn höfum lagt áherslu á að undirbúa þetta mál miklu betur og nota næstu 2--3 ár í að kynna sjónarmið okkar. Ég held að það sé í raun hið sama og nefnd undir forustu Árna Ragnars Árnasonar lagði til að yrði gert.

Ég held að mikilvægt sé, þegar menn vilja fara fram með þeim gassagangi sem meiri hlutinn leggur til, að færa góð og gild rök fyrir máli sínu. Það er grundvallaratriði því að við erum að setja mikla hagsmuni í uppnám og ég þori að fullyrða að mjög litlir hagsmunir felast í því að hefja hvalveiðar.

Hvalur hefur í gegnum tíðina borðað mikinn fisk. Hann var ekkert að byrja á því í fyrra eða hittiðfyrra eða árið þar áður. Svo hefur verið í áratugi og aldir, það er því ekkert nýtt í þessu máli. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að við verðum að taka tillit til þess að almenn viðhorf á alþjóðavettvangi eru andvíg þessu. Við það er að etja. Því bið ég um rök fyrir því að hefja veiðar á þennan hátt í stað þess að fara í þetta af meiri yfirvegun og kynna sjónarmið okkar í samræmi við það sem umrædd nefnd lagði til á sínum tíma. Við megum ekki lýsa yfir stríði við alþjóðasamfélagið í þeirri von að verða ekki skotin.