Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 16:14:44 (4539)

1999-03-09 16:14:44# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ljóst er að málið sem við ræðum er allnokkuð umdeilt. Sjónarmið hv. þingmanna, landsmanna og þeirra sem látið hafa sjónarmið uppi við umfjöllun okkar eru ólík og byggja á ólíkum hagsmunum en einnig á sterkum tilfinningum.

[16:15]

Herra forseti. Staðreyndin er sú að aftur og aftur höfum við þurft að reyna það að umræðan um þetta mál á Alþingi og víðar hefur mjög verið rekin og rædd með rökum af tilfinningalegum toga. Það hefur gerst oftar og meir en að flutt hafi verið rök sem við getum kallað skynsamleg eða vitræn. Þetta má segja um málflutning ýmissa sem eru hlynntir hvalveiðum og telja að Ísland eigi að ganga hraðar fram en við höfum gert en einnig einstaklinga og samtaka sem eru mótmælt hvalveiðum og vilja að Ísland hegði sér öðruvísi en hér er lagt til. Slík umræða er bæði íslensk og erlend og erfitt hefur verið að beina henni á þær brautir að rökin séu að mestu leyti skynsamleg eða vitræn.

Sem dæmi er auðvelt að nefna það sem komið hefur fram í umræðunni á hv. þingi í dag, þ.e. að telja tímabært að taka afstöðu í málinu vegna þess að það hafi oft verið rætt á hinu háa Alþingi. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eitt og sér sýni fram á að málið hafi náð fullum þroska. Hins vegar verð ég líka að taka það fram sem á við næstum því sama þátt í umræðunni að það eitt að einhverjir okkar telja að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar eru heldur ekki fullboðleg rök fyrir því neita að taka afstöðu þegar fyrir liggur að enginn hefur beðið um frekari upplýsingar. Þannig fór umræðan fram í hv. sjútvn. Þannig fór umræðan fram í hv. utanrmn. Alþingis. Enginn hefur beðið um upplýsingar í þessu nefndarstarfi, þar sem athugun málsins hefur farið fram, sem menn geta bent á í dag að liggi ekki fyrir en hefði þurft.

Ég tel skipta máli fyrir okkur að við gerum okkur grein fyrir því að við höfum ákveðna réttarstöðu. Þó svo að Ísland sé ekki lengur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu var samþykkt á Alþingi að hlíta stöðvun hvalveiða. Það var samþykkt Alþingis. Ég er þeirrar skoðunar að hversu hratt við viljum ganga fram skipti ekki máli um að við hljótum að upphefja þessa ákvörðun Alþingis ef við ætlum að hafa aðra stefnu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að gera svo og til þess þurfum við að hafa yfirlýsta stefnu og samþykkt Alþingis að við höldum fram rétti okkar til að nýta auðlindir sem við höfum lögsögu yfir, en að sjálfsögðu með viðeigandi varfærni og það höfum við gert.

Í skjölum Alþingis liggur fyrir að það hafi verið ákveðið með naumum meiri hluta, eins atkvæðis, og án þess að allir hv. þingmenn tækju afstöðu til málsins, að hlíta hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það hefur komið fram að bannið átti að vera tímabundið. En því miður hefur það ekki reynst tímabundið. Að því leyti til má það liggja fyrir að Íslandi telji ekki lengur forsendur bannsins í gildi. Hins vegar verðum við að ganga vitandi vits að því að mikil og hörð andstaða hefur komið fram í mikilvægum viðskiptalöndum okkar. Ég tel að það skipti máli vegna þess að það er vel ljóst og við verðum að ganga að því vísu, að ekki munu allir þeir sem hafa hag, þ.e. hafa ávinning af hvalveiðum, standa frammi fyrir þessum fórnarkostnaði sem verður vegna viðskipta í öðrum löndum. Það verða einfaldlega ekki þeir sömu.

Þrjú ríki hafa verið sérstaklega áberandi varðandi þetta, bæði vegna afstöðu stjórnvalda og almennings í þessum ríkjum. Þetta eru Bandaríkin, Þýskaland og Bretland. Og vel að merkja, um mjög langa hríð hefur útflutningsverðmæti, ef svo má segja, útflutningsverðmæti markaðanna í þessum löndum numið fullum helmingi og jafnvel meira en helmingi af öllum útflutningi frá Íslandi, ár eftir ár. Tvö þessara landa eru aðildarríki Evrópusambandsins. Það hefur komið fram í starfi ríkja sem eru aðilar að ýmsum alþjóðasamningum um umhverfismál, og þessi mál teljast einfaldlega falla undir þá hugmyndafræði, að aðildarríki Evrópusambandsins vilja standa saman þó svo þau hafi ekki sömu afstöðu innbyrðis. Út á við taka þau sömu afstöðu. Evrópusambandið er um það bil 70% og stundum 80% markaður fyrir útflutning okkar. Ég tel að við eigum að reyna að leggja mat á þessa hagsmuni. En vegna þess að við höfum ekki gert það að öllu leyti tel ég algjöra nauðsyn að við náum sem víðtækastri samstöðu. Í því ljósi var lögð fram tillaga starfshóps sem starfaði undir minni stjórn og skilaði af sér fyrir réttu ári. Sú tillaga gekk út á að leitað yrði eftir pólitískri samstöðu um að afgreiða á Alþingi ályktun um að hefja skuli nýtingu hvalastofna hér við land hið fyrsta og að ríkisstjórninni skyldi falið að undirbúa það. Það er miður að þetta hefur ekki gengið eftir. Við ræðum nú málið sem þingmannamál án þess að til hafi komið umfjöllun og undirbúningur forustumanna stjórnmálaflokkanna og þingflokkanna sem mér sýnist muni leiða til þess að við náum minni samstöðu en ella hefði orðið og það verður sennilega lagt okkur til hnjóðs þegar við hefjum starfið við að undirbúa og framkvæma ályktun Alþingis.

Við eigum að undirbúa hvert einasta skref vandlega. Við eigum að leggja á það kapp hverju sinni að fá sem flesta til liðs við okkur. Við þurfum einfaldlega á því að halda. Einmitt í því ljósi að við þurfum að fá breytt afstöðu ríkja og almennings í fjölmennum ríkjum sem við eigum mikil skipti við er okkur brýn nauðsyn að leggja út í kynningarstarf sem kann að verða dýrt. Ég tel að við getum varla gert ráð fyrir að ná til alls almennings nema því aðeins að við förum þær leiðir sem okkar stærstu fyrirtæki hafa gert, þ.e. að ná samstarfi við helstu viðskiptaaðila okkar í þessum ríkjum og leita leiða til þess að þau fyrirtæki gangi til liðs við okkur í þessu máli, lýsi yfir trausti á aðferðum okkar og ákvörðun og veiti okkur heimild til þess að nota kynningarleiðir sínar því að slíkar leiðir hafa þessi fyrirtæki góðar. Það skiptir okkur miklu að við hopum hvergi heldur stígum hvert skref að fullu. Það versta sem við getum lent í er að hopa eða hætta við. Við þekkjum reynsluna af vísindaveiðunum sem við stunduðum á síðasta áratug.

Við verðum að vera þess vitandi að langur vegur er að markinu. Hann er langur og erfiður vegna þess að þessar þjóðir og ríkisstjórnir þeirra byggja á hugmyndafræði eða umgengni við auðlindir sem eru ólíkar okkar. Við eigum allt okkar undir viðkomu og afrakstri lifandi auðlinda í náttúrunni og við höfum lært af dýrkeyptri reynslu að umgangast þær af varúð. Þær þjóðir sem við eigum mest samskipti við í þessu máli byggja afkomu sína á dauðum auðlindum og hafa ekki varast að ganga of nærri þeim með tilliti til endurnýjunar. Við höfum oft í skiptum okkar við fulltrúa þessara ríkja og almenning komist að þeirri niðurstöðu fullkeyptri að þeir skilja varla það sem við ræðum og bera nánast ekki nokkurt skynbragð á hagsmuni okkar eða möguleika.

Hvað varðar tillögur þeirrar nefndar sem ég nefndi áðan og hafa verið raktar fyrr í umræðunni, er rétt að lögð hefur verið vinna í að kynna málstað Íslands fyrir stjórnvöldum annarra ríkja á ýmsum stigum, allt frá stigum sendimanna við þeirra samstarfsmenn upp í ráðherra, jafnvel forsrh. Að því leyti til hefur tillögunum verið framfylgt. En ég er þeirrar skoðunar að jafnmikilvægt sé að leita allra leiða til þess að kynna og halda fram málstað okkar eins og hann snýr að almenningi, eins og hann snýr að ýmsum samtökum og samráði sem fer víða fram. Að því leyti til, tel ég, herra forseti, mjög mikilvægt að við Íslendingar, Alþingi og stjórnvöld, endurmetum að hvaða alþjóðasamningum við erum aðilar og hverjum ekki á þessu sviði.

Ég minnist þess að fyrir fáeinum dögum kom fram á Alþingi það sjónarmið eins hv. þm. að vankantar væru á hugsanlegri aðild Íslands að CITES-samningnum. Ég skal láta það álit mitt í ljós hér sem fyrr að ég tel það okkur henta og ég tel það vera færi til þess að halda frammi málstað Íslands að vera aðilar að þeim samningi og þar með að umræðum og ákvörðunum sem aðildarríki hans taka sameiginlega. Við eigum hvar og hvenær sem er að halda óhikað fram stefnu okkar. Grundvöllur hennar er að sjálfsögðu sá að auðlindir okkar eru takmarkaðir, þær eru lifandi og endurnýjanlegar náttúruauðlindir sem við þurfum að vernda og takmarka sókn í til þess að tryggja viðkomu þeirra, sjálfbæra þróun og afrakstur til langs tíma. Nákvæmlega sama á við um hvalastofnana. Þó svo menn beri brigður á eða telji vafasamt að rétt sé að stunda hvalveiðar til þess að draga úr sókn þeirra í fiskstofna, þ.e. afrán, þá er alveg ljóst að það hentar hagsmunum okkar til langs tíma að við göngum ekki þannig fram að við, með því að vernda einhverja stofna ótímabundið en nýta aðra, stuðlum að því að raska jafnvægi í lífríkinu. Það fer í bága við hagsmuni okkar til langs tíma. Það fer í bága við okkar lífskjör til langs tíma. Af því ráðast lífskjör afkomenda okkar, barna okkar og barnabarna. Við þurfum ekki að telja lengra.

Það skiptir engu í þessu máli þó að einhverjir okkar kunni að álíta, jafnvel réttilega, að ályktanir vísindamanna um þetta efni séu ekki fyllilega nákvæmar því þær eru það ekki. En þær hafa þá vísindalegu kosti að vera ályktanir byggðar á mörgum vísindalegum athugunum og margþættum. Á hitt ber enginn brigður lengur, herra forseti --- það er rétt að það komi skýrt fram. Það kom fram í athugun þeirrar nefndar sem ég stýrði og starfaði að, margoft síðan og raunar áður --- að eftir að hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins hafði runnið fyrirhugað skeið og búið var að vinna úr þeim vísindalegu rannsóknum og athugunum sem farið var út í meðan það stóð, þá lá fyrir og er óumdeilanlegt að mati vísindamanna bæði íslenskra og annarra ríkja sem eru aðilar að þessu samstarfi, að hvalastofnar sem nýttir voru við Ísland þegar bannið gekk í gildi voru ekki ofveiddir, enginn þeirra. Það gekk ekki á neinn þessara stofna. Það liggur líka fyrir nú að þeir hafa allir vaxið og eins hinir sem áður voru verndaðir. Þetta er óumdeilt meðal vísindamanna. Þetta eru upplýsingar vísindamanna okkar sem hafa tekið þátt í samstarfi vísindamanna fjölmargra ríkja innan vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins og víðar. Þessar niðurstöður þeirra hafa svo oft komið fram, bæði hérlendis og í alþjóðlegum tímaritum um þessi efni, að hefðu einhverjir verið annarrar skoðunar, þá hafa þeir þegar haft mörg tækifæri til að láta þær í ljós. Margir vísindamenn annarra ríkja hafa tekið fram við mörg tækifæri að þeir telji þessar niðurstöður réttar, óhrekjandi og þeir beri engar brigður á þær. Ég tel því nauðsynlegt að við drögum ekki úr gildi þessarar vitneskju. Þetta er vitneskja eins góð og ábendingar annarra eða jafnvel sömu vísindamanna okkar um aðra stofna sem við nýtum reglulega og höfum stundum nýtt svo vel að við höfum þurft að draga úr nýtingunni.

Það er alveg ljóst að við verðum með starfi okkar við að undirbúa og framkvæma þá ályktun sem hér er lögð til að fá breytt afstöðu grannþjóða okkar því við höfum þá reynslu af vísindaveiðunum að við stundum ekki lengi hvalveiðar í andstöðu við þessi ríki og þær þjóðir sem þau byggja. Starfið sem við erum að segja og gefa í skyn að verði að vinna er því umtalsvert.

Herra forseti. Ég tel rétt að geta þess aftur að ef við hefjum ekki það starf að kynna málstað okkar í gegnum þau sambönd sem við höfum, íslensk fyrirtæki, í sjávarútvegi sem og öðrum greinum sem eiga viðskipti við almenning, samtök og ríkisstjórnir þessara ríkja, þá þurfum við sennilega að mæta svipuðum örlögum og við vísindaveiðarnar, að verða að hætta við. Það er versta mögulega niðurstaðan.

Herra forseti. Ég hvet eindregið til þess að við samþykkjum tillöguna og veitum henni gott fylgi. Ég geri mér grein fyrir því að mörg okkar hyggjast ekki gera það og telja á því meinbugi skoðana sinna vegna. Ég get virt þær skoðanir. Ég tel einfaldlega að það skipti okkur mjög miklu máli að vera samtaka og vinna að framkvæmd málsins í samræmi við það.

Herra forseti. Ég gæti margt fleira sagt um málið. Ég vil hvetja til þess að við tökum afstöðu í ljósi skynsemi og raka, við byggjum á grundvelli vitneskju og þekkingar en drögum úr þeim rökum sem eru flutt fram af tilfinningalegum toga. Þau munu ekki koma okkur langt áleiðis. Við höfum sennilega, rétt eins og þeir sem eru andmæltir okkur eða annarrar skoðunar, flutt slík rök einum og oft. Við eigum að hefjast handa og vinnan verður að vera vel undirbúin. Sá undirbúningur verður að standast í framkvæmd.