Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 16:32:46 (4540)

1999-03-09 16:32:46# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. minni hluta sjútvn. þar sem tekið er undir það viðhorf sem fram hefur komið bæði hjá meiri hluta nefndarinnar og að ég hygg hjá flestum, ef ekki öllum alþingismönnum, að leggja beri áherslu á að nýta allar auðlindir sjávar á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda, þar með talda hvalastofna við Ísland.

Ég vil enn fremur segja í þessu sambandi að ég held að mjög nauðsynlegt sé fyrir okkur vegna stöðu okkar sem þjóðar sem byggir afkomu sína að stærstum hluta til á auðlindanýtingu að við tölum og högum máli okkar út frá nýtingarpólitík númer eitt og verndarpólitík númer tvö vegna þess að slík er afstaða okkar og nauðsyn. Ég held að það sé nauðsynlegt í ljósi þess hve mikilvæga hagsmuni við höfum af því að nýta auðlindir okkar og kalla fram viðurkenningu annarra þjóða á þessari sérstöðu okkar sem lýtur að þeim efnahagslegu hagsmunum sem við höfum af nýtingu auðlinda. Ég vildi, herra forseti, að þetta kæmi fram strax sem mín skoðun, en líka hitt að ef við ætlum að vinna okkur viðurkenningu sem þjóð sem þarf að lifa á nýtingu auðlinda, þá er ekki sama hvernig í málin er farið.

Í tillögugrein meiri hluta sjútvn. kemur fram að ályktun Alþingis frá 2. febrúar 1983 standi ekki í vegi fyrir því að hvalveiðar verði hafnar aftur við Ísland. Þessu er ég alveg sammála og skil í sjálfu sér ekki af hverju þarf að taka þetta fram. Ég hélt að hverjum manni væri ljóst að sú samþykkt sem Alþingi gerði --- samþykkt um að mótmæla ekki eða gera ekki fyrirvara við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni --- markaðist af því að við vorum innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, en okkur öllum er jafnframt kunnugt um að þar erum við ekki lengur. Við sögðum okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1991 og þar með má segja að fyrirvari eða ekki fyrirvari við það sem þar hefur verið samþykkt hafi ekki mikið gildi á hinu háa Alþingi hvað varðar ákvarðanir okkar í hvalamálum --- og þó reyndar, herra forseti. En ég bjóst kannski ekki við viðurkenningu á því úr þessari áttinni, vegna þess að staðreynd mála er auðvitað sú að við höfum á margvíslegan hátt viðurkennt lögsögu Alþjóðahvalveiðiráðsins jafnvel í málum okkar þó að við höfum staðið utan ráðsins. Ég held að okkur hafi orðið það ljóst mjög fljótlega eftir að við sögðum okkur úr ráðinu á þeim forsendum að ráðið færi ekki að vísindalegri ráðgjöf, að þó svo okkur hafi fundist sú niðurstaða ráðsins að leyfa ekki hvalveiðar að nýju óvísindaleg og ópólitísk, þá höfum við fljótlega áttað okkur á því að sú pólitík hafði með okkur og ákvarðanir okkar að gera og hefur haft allt fram á þennan dag, og hefur e.t.v. verið stærsta ástæða þess að við höfum ekki hafið hvalveiðar að nýju. Við höfum ekki einu sinni undirbúið að hefja hvalveiðar að nýju.

Ég get þess vegna ekki litið þannig á að með því að samþykkja tillögu meiri hlutans sé verið að upphefja einhverja samþykkt Alþingis frá 1983. Það er bara einfaldlega ekki inni í þeim ramma sem við ræðum málið núna. Hins vegar heyrist mér að einhverjum sé sáluhjálparatriði að geta litið svo á að með þessu séu menn að gefa einhverja yfirlýsingu sem breyti þeirri samþykkt. Ef við viljum breyta þeirri samþykkt eða hafa hana með öðrum hætti eigum við þá leið að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara um núllkvótann eða bannið við hvalveiðum. Mér vitanlega hefur sú leið hins vegar ekki verið könnuð. Það ber að harma vegna þess að mér hefði fundist og finnst að nauðsynlegt hefði verið í þessari umræðu og við afgreiðslu tillögunnar að við vissum hverra kosta við ættum völ innan ráðsins en afskrifuðum það ekki með öllu. Það er líka skoðun margra að það sé óráð að hefja hvalveiðar utan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Og af því að menn vísa gjarnan í reynslu Norðmanna er ástæða til að benda á að Norðmenn eru innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Og það er innan Alþjóðahvalveiðiráðsins sem þeir hefja hvalveiðar sínar og stunda þær. Þegar menn eru að bera saman stöðu Íslands og stöðu Noregs verða menn líka að muna eftir þessu. Ég veit ekki hvort menn hafa viljandi gleymt því í dag, sumir hverjir, þegar þeir eru að bera saman stöðu þjóðanna en þetta skiptir geysilega miklu máli.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, samþykkti Alþjóðahvalveiðiráðið tímabundna veiðistöðvun á hvalveiðum í atvinnuskyni frá ársbyrjun 1986. Við nýttum ekki rétt okkar til að gera fyrirvara við þá samþykkt. Það bann átti síðan að endurskoðast í ljósi þess hvaða mat lægi fyrir á ástandi hvalastofna árið 1990 og framlag okkar til að sú niðurstaða mætti verða sem áreiðanlegust voru svokallaðar vísindaveiðar og lauk okkar þætti árið 1989 hvað það varðaði og síðan hefur ekki verið veiddur hvalur í atvinnuskyni við Ísland.

Þegar við sögðum okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu var ákveðið að stofna ný svæðissamtök eða búa til svæðisstjórn með Norðmönnum, Grænlendingum og Færeyingum, samtök sem nefnast NAMMCO, og má segja að við ætlum nú, ef þessi tillaga nær fram og framkvæmdarvaldið gerir eitthvað með hana, að hefja veiðar innan NAMMCO. Það er alveg ljóst að í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar er mælt fyrir um skyldu ríkja til samstarfs ef um nýtingu sjávarspendýra er að ræða.

Í Dagskrá 21 segir að sjávarspendýr séu nýtanleg auðlind og ástæða er til að velta aðeins vöngum yfir þeim texta sem þar er við hliðina á 2. mgr. í afgreiðslutillögu meiri hluta sjútvn. en þar stendur:

,,Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.``

Og þá spyrjum við, herra forseti: Hvar eru þessar alþjóðlegu skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda? Jú, hugtakið ,,sjálfbær nýting`` kemur inn í Dagskrá 21 þar sem segir að sjávarspendýr séu nýtanleg auðlind en það gleymist í umræðunni og því hefur ekki verið haldið til haga að í sama texta kemur líka fram að hafa verði samráð ríkja um þessa nýtingu og er það í samræmi við 65. gr. hafréttarsáttmálans, en í texta Dagskrár 21 segir líka að Alþjóðahvalveiðiráðið sé vettvangurinn til þess. Þess vegna vil ég endurtaka það, herra forseti, að ástæða er til að harma það að ekki hefur verið vilji til þess að ræða af alvöru um möguleika þess að Íslendingar gerðust aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu og við könnuðum hvaða möguleika við ættum innan ráðsins.

Mér finnst eins og þeir sem standa að meirihlutaálitinu hafi annaðhvort gleymt að lesa alveg í gegnum textann ellegar verið óafvitandi um hvaða alþjóðlegu skuldbindingar um er að ræða nema það beri að skilja textann þannig að í honum felist vilji til þess að gerast aftur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu til þess að við getum nýtt hvalastofnana í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda. Ég átta mig ekki alveg á hvað textinn merkir, en alltént verða menn að gera sér grein fyrir því að í þeim texta Dagskrár 21 þar sem fjallað er um sjávarspendýr sem nýtanlega auðlind, kemur fram bæði þetta með samráð ríkja um nýtinguna og að Alþjóðahvalveiðiráðið sé sá vettvangur sem mönnum beri að hafa samráð við.

Nokkuð hefur verið fjallað um þjóðréttarlega stöðu NAMMCO. Það kom mér satt að segja á óvart hversu afdráttarlaus sá lögfræðingur sjútvrn. var sem kom til að gefa okkur upplýsingar um þjóðréttarlega stöðu NAMMCO, þ.e. hversu afdráttarlausar yfirlýsingar hans um stöðu NAMMCO voru og að sú staða að við værum innan NAMMCO og NAMMCO væri sú svæðisstofnun sem nægði. Það kom mér á óvart m.a. vegna þess að mér var kunnugt um að til var ritgerð í forsrn. um þjóðréttarlega stöðu NAMMCO, sem þeir Davíð Þór Björgvinsson og Gunnar Schram tóku saman. Ég kallaði eftir þeirri skýrslu fyrir nefndina og af því að hv. þm. Árni Ragnar Árnason gat um það hér áðan að allar upplýsingar hefðu komið sem beðið var um, þá þykir mér leitt að þurfa að segja frá því að þessi skýrsla fékkst ekki. Hún var ekki kynnt í nefndinni eða send þangað. Það á reyndar við um aðra skýrslu líka sem ég bað um, skýrslu sem er til í utanrrn. um áhrif hvalveiða á íslensk utanríkismál. Sú skýrsla er frá því í apríl 1994 og þá skýrslu fengum við ekki heldur. Það er því ekki rétt að nefndin hafi fengið öll gögn sem beðið var um. Einhverra hluta vegna bárust þessi gögn ekki. Það hefði þó verið viðkunnanlegra að fá þau á vettvangi nefndarinnar til að geta vitnað í þau því að eins og menn skilja er erfiðara að vitna í gögn sem ekki hafa verið formlega afhent.

[16:45]

Ég ætla þó að leyfa mér að segja að ég hef vitneskju um að í þessari skýrslu um þjóðréttarlega stöðu NAMMCO mun koma fram að menn telja að staða NAMMCO sé ekki nægjanleg til þess að hægt sé að kalla hana svæðisstofnun, að samráð þar nægi ekki ef við ætlum að hefja hvalveiðar. Bara sú staðreynd, herra forseti, og þessar upplýsingar gera það að verkum að við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það sé ekki nákvæmlega vinna í þessa veru, þ.e. skoðun á stöðu okkar innan NAMMCO en utan Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem verði að fara í fyrst hún hefur ekki verið unnin, vinna sem verði að fara í núna áður en menn stíga næstu skref á þessari hvalveiðibraut.

Nefnd sem starfaði undir forustu, hv. þm. Árna Ragnars Árnasonar, og skilaði tillögum sínum fyrir tveimur árum gerði það að tillögu sinni m.a. að kannað yrði hvaða kosti það hefði í för með sér fyrir okkur að gerast aðilar að ráðinu og það að ekkert liggur fyrir í þessum efnum er því miður eitt dæmið um það hversu slælega hefur verið unnið eftir þeim tillögum þó svo að ríkisstjórnin gerði þær að sínum .

Ein þessara tillagna var þess efnis að það þyrfti að styrkja NAMMCO og reyna að stuðla að því að fleiri ríki yrðu aðilar að þeim samtökum. Það er auðvitað augljóst af hverju það var, af hverju menn lögðu áherslu á það. Það var einfaldlega vegna þess að staða NAMMCO er veik og hæpin þjóðréttarlega þannig að menn sáu að ef það átti að nota NAMMCO sem svæðisstjórnunartæki, þá yrði að fjölga þeim ríkjum sem þar ættu aðild til þess að það yrði traustara og meira öryggi í því fyrir okkur að hefja hvalveiðar með það sem bakhjarl.

Menn tala mikið um það í þessari umræðu að samstaða þjóðarinnar sé mikil í þessu máli og það er alveg rétt. Ef þjóðin er spurð já/nei, þá hefur mikill meiri hluti sagt já. Þjóðin hefur hins vegar ekki verið spurð, að ég veit og ég vona að ég verði leiðrétt ef það er öðruvísi, hversu miklu hún væri tilbúin að kosta til. Ég hef hins vegar heyrt í fólki sem mundi segja, já, ef það væri spurt í skoðanakönnun: Viltu að Íslendingar hefji hvalveiðar? En ef því gæfist kostur á að segja en, þá mundi það líka gera það. Það segir mér, herra forseti, að sú samstaða sem menn tala um meðal þjóðarinnar í þessu máli gæti rofnað mjög fljótlega ef ekki er farið gætilega í sakirnar og hvert skref ígrundað vandlega. Vissulega væri hægt og er ugglaust mjög auðvelt að espa upp þjóðernismetnað í kringum þetta mál og að hluta til er það gert. Menn verða hins vegar aðeins að velta fyrir sér hversu langt þeir eru tilbúnir að leiða þjóðina á þeim forsendum og hversu miklu þeir eru tilbúnir til að fórna og nú ætla ég aftur að koma að samanburðinum við Norðmenn.

Það hefur aftur og aftur verið sagt í þessum sal, bæði nú og áður þegar þessi mál hafa verið til umræðu, að það að Norðmenn skyldu hefja hvalveiðar --- það er talað um hvalveiðar. Þeir hafa reyndar ekki veitt annað en hrefnu --- hafi ekkert skaðað þá, að enginn skaði sjáist af þeim veiðum. Menn hafa líka bent á að þetta hafi heldur ekki skaðað hvalaskoðun Norðmanna. Hins vegar hafa Norðmenn þurft að setja býsna mikla peninga og býsna mikinn mannskap í starf bæði til sóknar og varnar þessum veiðum sínum og málstað. Þær tölur sem ég hef lesið eru býsna háar, reyndar það háar, herra forseti, að ég er ekki viss um að við fengjum jafnháar tölur í skoðanakönnunum ef fólk vissi hversu miklu hefur orðið að kosta til, bæði í mannskap og peningum. Til þess að öll myndin sé fyrir framan okkur þegar tökum afstöðu þá held ég að það sé nauðsynlegt að við horfum til þess að enda þótt ferðamannastraumur hafi ekki minnkað að tiltölu --- e.t.v. hefur samsetning ferðamannanna breyst --- og þó að útflutningur hafi ekki minnkað --- en hann hefur líka e.t.v. breyst og menn taka þá áhættu í hvoru tveggja --- þá hefur norska ríkið þurft að bæta við í utanríkisþjónustu sinni yfir 40 manns, las ég einhvers staðar, vegna þessa máls, til kynningar og varnar. Sömuleiðis er um miklar fjárhæðir að ræða sem ég ætla ekki að fara með hér af því að ég er ekki með þær nákvæmlega við hendina, en ég mun leita þær uppi, herra forseti, og koma með þær ef eftir þeim er kallað. Þetta eru tölur sem liggja fyrir og menn geta leitað uppi og spurst fyrir um.

Hvað með hagsmuni þeirra sem verða fótgönguliðar ef illa tekst til með kynningu og við espum alþjóðasamfélagið upp á móti okkur í þessu máli? Hvað með stöðu fótgönguliðana? Þá er ég að tala um þá sem þurfa að taka við óánægjunni. Ég er að tala um ferðaþjónustuaðila. Ég er að tala um þá sem eru að selja okkur vöru. Ég er að tala um þá sem eru að selja flugferðir til Íslands. Ég er að tala um þá sem við getum kallað fótgönguliða í þessu dæmi. Þá sem taka við fyrstu óánægju. Hvað segja þeir? Eru þeir tilbúnir? Telja þeir sig nægjanlega vopnaða í þann slag sem hugsanlega skellur á fyrr en síðar bara vegna samþykktar tillögunnar, jafnvel þó að ekkert verði úr veiðum næstu tvö, þrjú ár, eða hvað? Nei. Þær upplýsingar sem við höfum eru þær að þessir aðilar telja sig ekki nægjanlega vopnaða í þennan slag. Þeir hafa satt að segja ekki mikla trú á því að ákvörðun um hvalveiðar verði þeirra atvinnugreinum til framdráttar.

Í dag hefur verið farið yfir það sem fisksölusamtök hafa sagt um þetta mál fyrr og síðar og reynt með dæmum að gera málflutning þeirra tortryggilegan. Ég held, herra forseti, að það sé samt fullkomlega réttmætt að hlusta á það hvað þessir menn eru að segja og það fólk sem starfar fyrir okkur á þessum viðkvæma markaði. Ég held að það sé fullkomlega réttmætt að hlusta á það og meta þeirra málflutning. Þetta eru einu sinni þeir aðilar sem gerst eiga að vita hvernig sá markaður er sem þeir starfa á og við hverju hann tekur.

Í ræðu minni ætla ég fyrst og fremst að fara yfir tvö atriði. Ég ætla annars vegar að tala um hvalaskoðun og hagsmuni þeirra sem selja hvalaskoðunarferðir á Íslandi. Hins vegar ætla ég að fara yfir skoðanakönnun sem Ása Sigríður Þórisdóttir gerði og vann sem lokaritgerð til BA-prófs við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Markmið verkefnis hennar var að skoða viðhorf erlendra ferðamanna til hvalveiða. Hún samdi við ákveðnar ferðaskrifstofur og aðila innan Ferðaþjónustu bænda um að leggja fram spurningalista. Á spurningalistanum voru 16 spurningar, almennar spurningar sem sneru að bakgrunni þátttakenda auk ýmissa viðhorfsspurninga sem sneru að hvalveiðum. Listarnir voru þýddir á þrjú erlend tungumál, ensku, þýsku og frönsku og alls svöruðu könnuninni tæplega þúsund þátttakendur frá 23 þjóðum. Viðhorf einstakra þjóða voru skoðuð sérstaklega og sömuleiðis kynjaskipting. Aldursdreifing úrtaksins reyndist vera góð og var yngsti þátttakandinn sex ára og sá elsti 90 ára. Þátttakendur reyndust vera vel menntaðir og hafa háar tekjur. Þeir voru sem sé þeir ferðamenn sem okkur þykja eftirsóknarverðir, ef ég hef skilið ferðaþjónustuaðila rétt. Markmið verkefnisins var sem sagt að skoða viðhorf erlendra ferðamanna til hvalveiða og jafnframt að skoða með bakgrunnsspurningum hvort þar væri eitthvað sem skýrði viðhorf þátttakenda til hvalveiða.

Það kom í ljós að konur höfðu neikvæðari viðhorf til hvalveiða en karlar þó að munur væri ekki mikill og þegar viðhorf fimm stærstu þjóðanna í úrtakinu voru skoðuð, þ.e. viðhorf Þýskalands, Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Bandaríkjanna. Þá kom í ljós að Þjóðverjar og Bretar voru andvígari hvalveiðum en hinar þjóðirnar þó þær væru allar andvígar hvalveiðum. Aldur og menntun virtist hafa takmarkað skýringargildi þannig að bakgrunnur þátttakenda virtist ekki hafa mikið að segja þegar spurt var um viðhorf til hvalveiða.

Herra forseti. Niðurstöðurnar voru mjög afgerandi. Fólk er almennt á móti hvalveiðum og nú erum við að tala um þá ferðamenn sem sækja Ísland heim. Það kom sem sagt í ljós að tæplega 80% ferðamanna sem fengu þessa spurningalista og svöruðu, voru á móti hvalveiðum almennt. Yfir 50% voru andvígir hvalveiðum í vísindaskyni og tæplega 70% voru á móti hvalveiðum Íslendinga, en augljóst er að viðhorfið hefur eitthvað mildast af því að þeir voru staddir á Íslandi þegar þeir svöruðu þessari könnun.

Herra forseti. Svona var þetta þegar kannaður er hugur ferðamanna sem staddir voru á Íslandi sumarið 1998. Tæplega 80% þeirra ferðamanna sem tóku þátt í þessari könnun voru á móti hvalveiðum almennt, en eins og kom fram þá var henni dreift víða, bæði ákveðnar ferðaskrifstofur og aðilar innan ferðaþjónustunnar tóku að sér að leggja listana fyrir. Mér finnst því ekkert sérkennilegt, herra forseti, þó ferðaþjónustuaðilar séu ekki tilbúnir til þess, með þessa vitneskju í farteskinu, að samþykkja að hvalveiðar séu mjög mikilvægar. Mér finnst satt að segja afskaplega skiljanlegt að þeir gjaldi varhug við ákvörðunum sem að þeirra mati gætu stefnt uppbyggingarstarfi og hagsmunum þeirra í tvísýnu. Nú vil ég endurtaka það að þess vegna er svo mikilvægt hvernig í málið er farið. Það er mikilvægt að við gerum þetta þá rétt og vel til þess að spilla ekki hagsmunum þeirra sem þeirra eiga að gæta.

Svo aftur að hvalaskoðuninni. Það kemur í ljós að ferðamönnum sem nýta sér tilboð um hvalaskoðun hefur fjölgað ótrúlega. Síðasta sumar voru ferðamenn sem nýttu sér tilboð um hvalaskoðun komnir yfir 30 þúsund og hafði þá tala þeirra margfaldast á nokkrum árum. Og það kemur í ljós að þessi afþreying er mjög vinsæl og menn almennt ánægðir, enda nánast 100% árangur, því það er undantekning ef farin er hvalaskoðunarferð og ferðamenn sjá ekki hval. Það væri fróðlegt, herra forseti, að skoða samanburð á hvalaskoðunarferðum á Íslandi og frá Noregi einmitt út frá þessum sjónarhóli.

[17:00]

En það er einmitt kannski lykilatriðið hjá okkur að við sýnum hrefnur. Við erum að sýna hvali nálægt landi, inni á Eyjafirði, inni á Skjálfanda og sýnum hrefnur inni á fjörðum. Það eru oft hnúfubakar líka inni á fjörðum og við sýnum allar þær hvalategundir sem hægt er að komast í tæri við með því að sigla tiltölulega stuttar vegalengdir. Þetta eru ekki mjög langar ferðir og ekki þarf að fara yfir mikið flæmi.

Í Noregi er þetta hins vegar þannig að þeir sýna ekki hrefnu, þeir veiða hana. Þeir þurfa að fara mun lengra til þess að sýna hvali og eru að sýna búrhvali við landgrunnskant þannig að hvalaskoðun þeirra er öðruvísi en sú hvalaskoðun sem við bjóðum upp á. Ég held að rétt sé að hafa þetta í huga líka þegar við erum að bera saman Noreg og Ísland ef við viljum hafa alla myndina.

Ég er ekkert hissa á því, herra forseti, þó að þeir aðilar sem hafa verið að byggja upp með ærnum tilkostnaði og markaðsstarfi þær hvalaskoðunarferðir sem hafa verið að skila árangri á Íslandi, hafi áhyggjur af því að þessu verði raskað með veiðum. Menn eru ekkert sammála um hvort þetta geti farið saman. Ég held að dæmið frá Noregi segi okkur að hrefnuveiðar og sýning á hrefnum fari ekki saman. Og ég hef heyrt frá þeim aðilum sem sýna hvali að hafi það gerst að hvalur hafi verið veiddur, en einhver brögð hafa nú verið að því, þá telja menn víst að af því séu nánast samtímis einhver fælingaráhrif. Ég held því að full ástæða sé til að skoða það mjög vandlega hvernig menn ætli að vernda hagsmuni þeirra sem eru í hvalaskoðun og þeir hagsmunir eru orðnir býsna miklir og væri áhugavert að stilla þeim upp við hliðina á hagsmunum þeirra sem hafa veitt hrefnu eða vilja veiða hrefnu, og að menn tækju afstöðu til þess hvernig þeir vilja þá haga bæði veiðum og skoðun þannig að það skerði ekki hagsmuni þeirra sem nú eru búnir að byggja sig upp í þessari atvinnugrein.

Mér finnst það vera svolítil einföldun á veruleikanum að segja að þetta geti farið saman án þess að það sé kannað mun betur en verið hefur og þess vegna vil ég leggja áherslu á það, herra forseti, að það sé eitt af því sem virkilega verði skoðað við undirbúning hvalveiða, ef menn fara í það að framkvæma þá tillögu sem hér liggur fyrir. Og ég segi enn ,,ef`` vegna þess að eins og komið hefur fram í umræðunni í dag var nefnd að störfum sem samþykkti tilteknar tillögur sem ríkisstjórnin gerði að sínum en gerði síðan ekkert með. Nú erum við að samþykkja tillögu sem framkvæmdarvaldið á síðan að sjá um að hrinda í framkvæmd og vinna eftir og ég er ekki enn þá farin að sjá af hve miklum krafti verður farið í þá vinnu eða hvaða þátta verður gætt en ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að tíunda þá þætti sem ég tel mikilvægt að skoða. Og þetta er sannarlega einn af þeim þáttum, þ.e. hvernig við ætlum að láta hvalaskoðun og hvalveiðar fara saman, vegna þess að hrefnan er áreiðanlega það dýr sem í báðum tilfellum er nærtækast bæði hvað varðar veiðar og skoðun.

Menn tala um storm í vatnsglasi þegar um þetta er að ræða. Einn hv. þm. talaði áðan um storm í vatnsglasi um það sem þeir aðilar væru að segja sem hefðu einhverjar efasemdir um ágæti þess að hefja hvalveiðar að nýju. Ég er ekki viss um að réttmætt sé að tala um storm í vatnsglasi þegar við erum að tala um jafnvel lífshagsmuni margra fjölskyldna og framtíðarmöguleika heilla atvinnugreina. Ég vil taka það mun alvarlegar, og ég held að við ættum öll að gera það, vegna þess að það skiptir verulegu máli hvernig farið er í þessa hluti ef við ætlum ekki að tapa meiru en við ávinnum.

Ég held að líka sé rétt að við horfum aðeins til þess hvaða ávinningur eða tap kunni að verða af hvalveiðum að öðru leyti á alþjóðavettvangi. Eins og kemur fram í nál. minni hluta sjútvn. er andstaða náttúruverndarsamtaka mikil gegn hvalveiðum, og hér segir, með leyfi forseta:

,,Andstaða við hvalveiðar er meðal vinsælustu mála umhverfissamtaka og þeim vex ásmegin þegar umræða um hvalveiðar stendur sem hæst. Um árabil hafa umhverfissamtök barist gegn hvalveiðum og notið til þess mikils fjárhagslegs styrks. Þá er til þess að líta að í nokkrum þeirra ríkja sem skipta okkur miklu máli í viðskiptalegu tilliti er stefna stjórnvalda styrkur fyrir þessi samtök.``

Mörg umhverfissamtök eru á móti hvalveiðum. Sum eru á móti hvalveiðum sem fara fram utan Alþjóðahvalveiðiráðsins og líta á slíkar veiðar sem sjóræningjaveiðar. Þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni og ætti að vera sérstakt íhugunarefni fyrir ríkisstjórnina og þá aðila sem hyggjast standa að málum eins og hér er lagt til, hvort við teljum það ímynd Íslands til framdráttar að ganga í málið eins og hér liggur beinast við að álykta, þ.e. að hefja veiðar utan Alþjóðahvalveiðiráðsins og fá á okkur þann sjóræningjastimpil sem því gæti fylgt meðal þeirra þjóða sem við þó viljum að líti til okkar í nokkurri vinsemd.

Ég ætla að nefna það í leiðinni, herra forseti, að mér fyndist ástæða til að hafa af því nokkrar áhyggjur þegar við á nokkrum vikum afrekum það annars vegar að ákveða að hefja hvalveiðar utan Alþjóðahvalveiðiráðsins og hins vegar að ákveða að skrifa ekki undir Kyoto-bókunina. Mér finnst þetta dálítið mikið í einu, ég verð að segja það rétt eins og er. Mér finnst þetta ótaktískt af þjóð sem vill láta meta sig sem náttúruverndarþjóð og vill láta líta til sín sem þjóðar sem kann að nýta auðlindir sínar með sjálfbærum hætti og vernd. Ég held að við verðum, vegna þess hve utanríkisviðskipti eru okkur mikilvæg, að horfa til þess hvernig aðrar þjóðir líta á það sem við aðhöfumst í þessum málaflokki, og þó svo að við lítum ekki á hvalveiðar sem umhverfismál númer eitt þá verðum við að horfa til þess og viðurkenna að það gera ýmsar aðrar þjóðir. Og þær hafa rekið sinn andróður og stutt náttúruverndarsamtök á þeim grunni að hér væri um umhverfismál að ræða.

Herra forseti. Að þessu tvennu samanlögðu þá óttast ég að við séum að setja okkur í erfiða stöðu innan samfélags þjóðanna, stöðu sem ég óttast að við eigum erfitt að fá viðurkenningu á, þá viðurkenningu sem við þurfum á að halda af því, eins og ég hóf mál mitt á, herra forseti, að okkur er svo mikilvægt að fá viðurkenningu sem þjóð er lifir á nýtingu auðlinda og þarf að vera með nýtinguna í fyrsta sæti en vernd í öðru. Farsæl og sjálfbær nýting leiðir verndina af sér ef rétt er á málum haldið.

Í umræðunni hefur komið fram, og hélt hv. þm. Guðjón Guðmundsson þeim málstað til streitu, að vöxtur og viðgangur hvalastofna hefðu mikil áhrif á fiskigengd og fiskveiðar. Hv. þm. vitnaði síðan til vísindamanna Hafrannsóknastofnunar um það að ef við hæfum ekki hvalveiðar þyrftum við í nánustu framtíða að skera niður fiskveiðar. Mér finnst þetta dálítið glannalega sagt, þótt við gerum okkur öll grein fyrir samhengi lífríkisins þar sem hver étur annan, þá held ég að það séu einhver hæpnustu rökin til að hefja hvalveiðar á, að við þurfum að veiða hval til að geta veitt meiri fisk. Ég held að hægt væri að fá viðurkenningu miklu fyrr á því að við hæfum hvalveiðar í atvinnuskyni af því að það væri menningarleg nauðsyn, það væri beinlínis efnahagsleg nauðsyn, þetta væri hluti af okkar kúltúr o.s.frv. Við værum margoft búin að fá viðurkenningu á því áður en það yrði samþykkt að við þyrftum að fara í markvissa grisjun á hvalastofninum til að geta veitt meiri fisk.

Inn í þetta samhengi vil ég gjarnan að það komi fram að til þess að veiðar, t.d. á hrefnu, hefðu einhver áhrif á fiskstofna þyrftum við að veiða líklega sjö-, áttfalt meira af hrefnu en við veiddum þegar veiðarnar voru sem mestar. Sem segir okkur það, herra forseti, að hrefnuveiðar okkar hafa aldrei haft neitt að segja hvað varðaði fiskveiðar. Þær höfðu aldrei neitt að segja því þær voru alltaf svo takmarkaðar. Það hefur ekkert að segja varðandi fiskigengd og möguleika okkar á fiskveiðum hvort við veiðum 200 hrefnur eða ekki. Það hefur ekkert meira að segja en ef við veiddum bara 30 hrefnur.

Ef við ætlum hins vegar að grisja hvalastofnana það heiftarlega að það fari að hafa merkjanleg áhrif þá þyrftum við að fara upp í á milli eitt og tvö þúsund dýr, kannski nær tvö þúsund.

Sjá menn það fyrir að eftir slíkt blóðbað --- ég leyfi mér að orða það þannig --- tækist okkur að halda uppi vinsamlegum samskiptum og viðskiptum við þau lönd sem hér voru sérstaklega tilgreind í þeirri könnun sem ég greindi frá áðan? Ég sé það ekki fyrir. Ég held að þjóð sem býr við það ríkidæmi í raun og veru sem okkar þjóð býr við og þær aðstæður sem við búum við, fengi seint viðurkenningu á slíkum aðförum. Ég held einfaldlega að við verðum að viðurkenna að staða okkar til að fara í slíkar veiðar í slíku magni er það erfið að þau rök eigi ekki við í þessari umræðu um hvalveiðar. Og ég held satt að segja að það beri að varast þau.

Herra forseti. Ég held að ég sé nokkurn veginn búin að fara yfir þau álitamál sem ég taldi ástæðu til að koma með inn í umræðuna. Mér finnst sú afgreiðslutillaga sem hér liggur fyrir að ýmsu leyti býsna hæpin. Ég hefði talið heppilegra að farið hefði verið að tillögum þeirrar nefndar sem ríkisstjórnin gerði að sínum vorið 1997, t.d. í því efni að reyna að móta pólitíska samstöðu um þetta mál á Alþingi. Það var ekki gert. Það hefði líka verið ástæða til, herra forseti, að skoða þjóðréttarlega stöðu þeirrar svæðisstofnunar sem mér sýnist helst að menn ætli að treysta fyrir málum sínum. Það hefði verið rétt að hafa samráð við helstu útflytjendur og aðra aðila sem eiga mikilla viðskiptahagsmuna að gæta og taka tillit til sjónarmiða þeirra. Og ég held að viturlegt hefði verið að vera búinn að gera þá áætlun, sem auðvitað þarf að gera, um það hvernig hagkvæmast og árangursríkast verði staðið að fræðslu- og kynningarstarfi um málstað Íslands á erlendum vettvangi, m.a. gagnvart umhverfissamtökum. En það hefur ekki verið gert.

[17:15]

Í tillögu meiri hluta sjútvn. segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, m.a. með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Það er mikilvægt en ég endurtek, herra forseti, að ég hefði kosið að sjá eða vita af vel útfærðum tillögum um hvernig fara eigi í þessi mál. Slík áætlun er því miður ekki fyrir hendi og gerir það málið allt veikara.

Svo ég dragi saman, herra forseti, það sem ég hef reynt að koma hér á framfæri þá er það þetta: Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að geta nýtt allar okkar auðlindir. Það er mikilvægt að við höfum viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á því vegna þess að við lifum af auðlindanýtingu og megum ekki við miklum áföllum í þeim efnum. En einmitt af því að staða okkar er viðkvæm er mikilvægt að þegar ákvarðanir eru teknar, sem eru líklegar til að kalla á mótmæli og óróa í alþjóðasamfélaginu, að menn vandi til verka og undirbúi vel það sem þeir eru að gera. Gæta þarf þess að skaða ekki hagsmuni þeirra sem gengur vel við óbreytt ástand, ekki með því að viðhalda óbreyttu ástandi heldur með því að sem flestir geti lifað við þær breytingar sem verða. Það er mikilvægt að við stígum hvert skref þannig að það sé örugglega áfram en ekki aftur á bak.

Ég óttast að með því að samþykkja tillögu um að hefja hvalveiðar einhvern daginn, án þess að hafa nokkuð í höndunum, séum við að bjóða upp á stríð sem við séum dæmd til að tapa. Menn hafa sagst ætla að taka slaginn, eins og menn hafa orðað það hér í dag, án þess að vita nákvæmlega um hvað hann á að snúast. Við ætlum að hefja hvalveiðar, segja menn. Ætla þeir síðan að reyna að útskýra það? Ætla menn að byrja á að hopa eða sækja? Hvernig ætla menn að haga vörn og sókn? Svör við því hafa ekki enn þá fengist. Ég hefði viljað fá þau svör, herra forseti, áður en þessi tillaga kæmi til afgreiðslu hér.