Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:34:59 (4553)

1999-03-09 18:34:59# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:34]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að minna á að við hv. þm. höfum báðir lýst yfir stuðningi við að hefja hvalveiðar á næsta ári. Ég sé því ekki hvar við erum ósammála að öðru leyti en því að hv. þm. vill ekki hefja hvalveiðar í stærra mæli en svo að það afmarkist við innanlandsmarkað. Það má vel vera að hann trúi því að almenningsálit erlendis, sem hann óttast, verði annað ef fjöldi veiddra hvala miðast við innanlandsmarkað en ekki útflutning. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar sem benda til þess að almenningsálitið sé mismunandi eftir því hvort við högum veiðunum með þeim hætti eða á hinn veginn, eins og lagt er til í tillögu okkar.

Ég vek hins vegar athygli á því að hv. þm., sem byrsti sig dálítið yfir því að hann skyldi vera spurður, svaraði ekki spurningunni sem fyrir hann var lögð. Mun flokkur hans, Grænt framboð, leggjast gegn því að ályktuninni verði hrint í framkvæmd eða mun hann styðja hana, eigi hann aðild að ríkisstjórn að loknum næstu kosningum? Um það snýst málið, herra forseti, að fulltrúar stjórnmálaflokkanna lýsi skoðun flokka sinna skýrt. Ef þeir styðja hvalveiðar, þá mun tillagan um að hvalveiðar hefjist eiga greiðan framgang og brautargengi, hvort sem þær hefjast á þessu ári eða því næsta. Ef flokkarnir meina hins vegar ekkert með því og eru í á móti veiðum eins og heyra hefur mátt á þingmönnum þingflokks óháðra, þá er ekki við því að búast að þeir stjórnmálaflokkar leggi sig fram um að hrinda í framkvæmd efni þessarar ályktunar.