Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:36:56 (4554)

1999-03-09 18:36:56# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég nenni ekki í karp um þetta mál. Ég vil rökræða þetta mál. Ég flutti áðan rök fyrir afstöðu minni sem ég held að læsir og heyrandi menn eigi alveg að geta tekið gild. Þeir þurfa ekki að vera sammála þeim. Þeir geta komist að annarri niðurstöðu en ættu a.m.k. að geta viðurkennt að ég fór efnislega yfir hlutina. M.a. vitnaði ég í þessa bók hér og ræddi um ýmis þjóðréttarleg og lagaleg atriði þessa máls, sem ég held að menn gerðu betur í að kynna sér fremur en að standa í karpi um þessa hluti og taka menn upp í einhverju krossaprófi. (Gripið fram í.) Er hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir eitthvað óróleg í kvöld, herra forseti? Það er kannski hægt að kanna hvernig hv. þm. líður og vita hvort hún þarf á einhverri hjálp að halda hér úti í salnum.

Varðandi afstöðu ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili, þá eiga menn að þekkja hvernig þeir hlutir liggja. Að sjálfsögðu er ákvörðun Alþingis ákvörðun Alþingis. Að sjálfsögðu ber að virða hana og framkvæma. Ef þál. eru afmarkaðar og skýrar hafa þær í raun sömu stöðu og lagasetning þó þær bindi kannski öðruvísi en landslög gera. Að sjálfsögðu ber ríkisstjórnum og mönnum að fara eftir þeim á meðan þær eru í gildi og þangað til þeim er þá breytt. En að sjálfsögðu getur nýtt Alþingi tekið nýja stefnu í þessum málum, ný ríkisstjórn o.s.frv.

Það er skýrt að ég vil beita mér fyrir því að þau sjónarmið sem ég hef sett fram í þessum efnum, um nýtinguna á þeim grunni sem ég hef talað um að sé raunhæf og möguleg, nái fram að ganga. Það er mín stefna og ég vona að hv. þm. geti tekið það gilt. Þannig er það.