Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:49:02 (4557)

1999-03-09 18:49:02# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Öll þrjú atriðin sem hv. þm. vakti máls á og vísaði til þáltill. og texta hennar eru að sjálfsögðu álitamál. Hann getur ekki búist við því að ég gefi hér svar um hver kostnaðurinn verði við þessa kynningu. Hann getur heldur ekki vænst þess að ég gefi hér svar við því hvort ég sé sammála því að veiða eigi 250 hrefnur eða 120 hrefnur. Það er matsatriði sem menn verða að skoða í ljósi hinnar vísindalegu ráðgjafar en eins og segir í tillögunni þá er talað um ,,á grundvelli`` en ekki verið að binda sig við ákveðnar tölur þar. Það hafa menn svigrúm til að skoða þegar þeir taka ákvarðanir sínar.

Ég tel ekki rétt að gefa þannig svör við spurningum hv. þm. að ég slái á tölur um kostnað og annað slíkt heldur verður það að vera matsatriði eftir því hvernig menn standa að kynningunum.

Ég vil taka fram að ég tel alls ekki að í hverju tilviki sé endilega um mikinn kostnað að ræða, fari menn í slíkt kynningarstarf. Þar ræður miklu hvernig staðið er að því, hvaða tilefni og tækifæri gefast. Ég minni á, og þingmenn muna það, t.d. umræðurnar um íslenskunina á kerfishugbúnaði Microsoft. Það hófst allt í einu mjög jákvætt kynningarstarf í okkar þágu í alþjóðlegum fjölmiðlum þar sem við kostuðum engu til en réði miklu um niðurstöðu málsins. Það er því spurning hvernig menn halda á málum að þessu leyti.

Varðandi afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildar að Alþjóðahvalveiðiráðinu þá er ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki sett fram tillögu sína um að við sækjum um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég hef mína skoðun, aðrir hafa aðrar skoðanir. Eins og ég sagði tel ég þróunina í þá átt að æ fleiri sjái að það sé nauðsynlegur vettvangur fyrir okkur til að geta út frá þjóðréttarlegum forsendum hafið hvalveiðar að nýju.