Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:57:42 (4561)

1999-03-09 18:57:42# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki talað um það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hvernig túlka eigi orðalagið sem hv. þm. spurði um. Nær væri að spyrja hv. flytjendur tillögunnar um það hvað felst í tillögu þeirra.

Ég get aðeins áréttað mitt sjónarmið. Ég mundi segja og túlka þannig að það væri í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar að við Íslendingar gengjum í Alþjóðahvalveiðiráðið. Það er mín skoðun að til þess að fullnægja þessu ákvæði þurfum við að fara í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ég hef verið þessarar skoðunar, setið í ríkisstjórn, verið formaður utanrmn. þar sem allir voru á öndverðum meiði um þessa skoðun, en ég túlka hana svo og tel nauðsynlegt fyrir okkur, til þess að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum okkar í þessu efni, að vera félagar í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Aðrir hafa aðra skoðun.

Ég veit ekki hvaða skoðun flutningsmenn þessarar tillögu hafa en þetta er eitt af þeim álitamálum sem menn þurfa að ræða af opnum huga þegar um málið er fjallað, um markaðsöflun og annað slíkt. En hvað sem því líður þá tel ég skynsamlegt fyrir Alþingi að samþykkja þessa tillögu. Hún er vel orðuð og hefur skynsamlegt markmið. Hún tryggir að ríkisstjórnin hafi umboð frá Alþingi til þess að sinna þessum málum. Hún ítrekar einnig óskoraðan fullveldisrétt Íslands í þessu máli, sem er mjög mikilvægt atriði og má aldrei gleymast.