Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:59:55 (4562)

1999-03-09 18:59:55# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, PHB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna þeirri niðurstöðu meiri hluta hv. sjútvn. sem kemur fram á þskj. 1018. Tillögur um breytingu á þáltill. eru m.a. svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land`` o.s.frv. Síðan stendur í 3. mgr.:

,,Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar m.a. með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar.``

[19:00]

Herra forseti. Nú kann einhver að spyrja og það hefur verið spurt að því mörgum sinnum: Hvað þýðir að Alþingi álykti að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land? Þá líta menn að sjálfsögðu á lögskýringargögnin, þ.e. nál. nefndarinnar með þáltill. og þar stendur:

,,Meiri hluti nefndarinnar tekur undir meginefni tillögunnar`` þ.e. að hefja skuli hvalveiðar 1999 ,,og leggur til við Alþingi að ályktað verði um að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta og að ríkisstjórninni verði falið að standa fyrir nauðsynlegri kynningu á þessari ákvörðun Alþingis og hrinda henni í framkvæmd þannig að veiðarnar geti hafist sem fyrst. Miðað er við að það geti orðið eigi síðar en á næsta ári.``

Næsta ár er árið 2000. Þegar það ár er liðið, 31. desember árið 2000, kl. 24.00 að kvöldi, þá á að vera búið að heimila veiðar á hval við Ísland. Það er svo einfalt. Þetta er dagsetningin. Eigi síðar en þennan dag klukkan þetta á að vera búið að heimila veiðar á hval við Ísland.

Herra forseti. Þau gagnrýnis- og varnaðarorð sem heyrst hafa og nauðsynlegt er að taka afstöðu til birtast í nál. minni hluta á þskj. 1072 og mjög mikilvægt er að fara í gegnum þessi varnaðarorð. Þar segir t.d. að ekki sé skilgreint nánar hvenær hvalveiðar skuli hefjast. Ég rökstuddi rétt áðan að það væri eigi síðar en 31. desember árið 2000, kl. 24.00. Þau varnaðarorð falla því um sjálf sig.

Svo stendur: ,,Íslendingar eru háðari viðskiptum með sjávarafurðir en nokkur önnur þjóð ...`` Þar er verið að vísa í það að þetta muni hafa áhrif á viðskipti Íslendinga við útlendinga.

Ef ég sel manni vöru er það vegna þess að hann langar í vöruna mína og mig langar í peningana hans og þarna er jafnræði á. Hann mundi ekki eiga viðskipti við mig nema af því að hann langar til að kaupa mína vöru. Ef eitthvert þýskt fyrirtæki kaupir af okkur fisk er það vegna þess að það þarf þennan fisk og notar hann til að selja áfram. Að fara að blanda einhverjum tilfinningum inn í viðskipti er ákaflega rangt. Ef fyrirtæki af tilfinningaástæðum eða öðrum ástæðum, hugsjónaástæðum, neitar að eiga viðskipti við okkur og kaupir ekki af okkur fisk, þá fær það ekki þann góða fisk á þeim kjörum, og við seljum samkeppnisaðila þess aðila fiskinn og hann verður undir í samkeppninni, hann tapar á þessu. Ef ekki, þá hlýtur hann að hafa greitt okkur of hátt verð hingað til af hugsjónaástæðum og það væri ákaflega undarlegt fyrir þann aðila og rekstur hans.

Svo stendur í nál. minni hlutans: ,,Andstaða við hvalveiðar er meðal vinsælustu mála umhverfissamtaka ...`` Það þýðir að við eigum að kikna í hnjáliðunum og verða ósköp hrædd. Nú er það svo að við Íslendingar eigum samleið með umhverfissamtökum alveg sérstaklega. Við Íslendingar erum alveg sérstaklega háðir því að sjórinn verði ekki mengaður og að ekki sé gengið of nærri stofnum dýra. Ég held að ekki einn einasti Íslendingur vilji stuðla að því að einhverjar dýrategundir verði í útrýmingarhættu, ekki einn einasti. Sjónarmið okkar og umhverfissamtaka fara því sérstaklega vel saman. Og ég vil skora á hæstv. ríkisstjórn að eiga samstarf við umhverfissamtök í þessu máli.

Ég tel nefnilega að umhverfissamtökin séu á villigötum og þau viti ekki af því. Þau eiga nefnilega að vinna með Íslendingum í því að stunda sjálfbærar veiðar og sjálfbæra nýtingu og reiða sig á stuðning Íslendinga gegn t.d. mengun sjávar og að dýr séu í útrýmingarhættu.

Nokkuð mikið hefur verið rætt um ferðamál og hvaða áhrif þetta hefur á þau. Ég er sannfærður um að það er ekki síður athyglisvert fyrir ferðamenn að skoða hvalskurð en að skoða lifandi hvali og þetta geti mjög vel farið saman.

Í nál. minni hlutans er sagt að ekki sé skýrt fram tekið á hvaða dýrum skuli hefja veiðar. Þetta er ákaflega einfalt. Það á að veiða dýrategundina ,,hval`` með sjálfbærum hætti, og allar tegundir þess stofns ef vísindalegar rannsóknir sýna að það sé í lagi. Það er fullt af hvalategundum sem ekki er skynsamlegt að veiða og þær verða að sjálfsögðu ekki veiddar. En þær tegundir sem hægt er að veiða með góðu móti, án þess að ganga nærri stofninum, verði heimilt að veiða. Þetta ákvæði er því allt í lagi.

Síðan er talað um að efnahagslegur ávinningur sé ekki skýr. Ég held að menn geri allt of mikið úr því að fisksala og ferðamannaiðnaður líði fyrir þetta, ég held að menn geri allt of mikið úr því. Eins og ég gat um áðan eiga menn viðskipti vegna þess að báðir aðilar hagnast á þeim. Útlendingar sem kaupa af okkur fisk fá ljómandi góðan fisk fyrir ákveðinn pening sem við fáum og þetta eru viðskipti sem báðir hagnast á, og þau munu ganga eftir sem áður, eins og dæmin hafa sýnt hjá Norðmönnum. Síðan er getið um það í nál. minni hlutans að vandamál sé að selja hvalaafurðir. Það er að sjálfsögðu vandamál þeirra sem veiða og vinna hvalinn, hvort þeir geti selt hann. En að sjálfsögðu brjóta þær takmarkanir sem eru í gildi í dag á alla samninga um frjáls viðskipti og frjálsa verslun, þau atriði sem Alþjóðaviðskiptastofnunin er stöðugt að taka á, þannig að við eigum alla samúð heimsbyggðarinnar á þessu sviði að standa að frjálsum viðskiptum.

Ég hef auk þess bent á að hægt sé að nota þróunarhjálp í þessu skyni. Íslendingar geta stóraukið þróunarhjálp sína. Þeir geta soðið hval niður í dósir og gefið Norður-Kóreu. Það væri áhugavert að sjá umhverfissamtök banna okkur af einhverri misskildri verndunarstefnu að flytja kjöt til sveltandi þjóða. Kjöt af dýrum sem ekki eru í útrýmingarhættu. Öll barátta umhverfisverndarsamtaka á þessu sviði brýtur í bága við heilbrigða skynsemi og þar höfum við Íslendingar heilbrigða skynsemi með okkur.

Þetta var um nál. minni hlutans og ég tel mig hafa farið í gegnum öll atriði nema um vantraust á ríkisstjórnina, en það hefur verið tekið fyrir fyrr í þessari umræðu.

En síðan er annað. Við höfum spurt fisksölumenn hvort þeir séu með því að selja hval og að sjálfsögðu eru þeir á móti því vegna þess að hagsmunir þeirra eru einhliða. Þetta er nákvæmlega eins og að spyrja mann sem ekki borgar skatt. Viltu hækka skatta á alla hina? Að sjálfsögðu segir hann já. Eða spyrja þann sem borgar hátekjuskatt: Viltu láta alla borga skatta? Að sjálfsögðu segir hann já. Ef við spyrjum fisksölumenn eða hvalaskoðunarmenn hvort þeir vilji leyfa hvalveiðar, þá segja þeir að sjálfsögðu nei. Vegna þess að þeir hafa einhliða hagsmuni.

Ég held, herra forseti, að hér þurfi menn að taka pínulítið á hugrekki sínu og treysta á skynsemi, skynsemi sem við höfum á bak við okkur í þessu máli. Við erum að gera hárrétt. Þetta er algerlega í samræmi við öll alþjóðalög og sjálfbæra nýtingu hvalastofna og dýrategunda þannig að við höfum allt með okkur í þessum efnum. Það sem við erum að berjast við eru hindurvitni og hjátrú. (Gripið fram í: Hugleysi.) Og hugleysi, já.