Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:20:25 (4570)

1999-03-09 21:20:25# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:20]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hér var talað af miklum hroka og fyrirlitningu til þeirra þingmanna sem hafa talað fyrir hvalveiðum á undanförnum árum. Hv. þm. sagði að nokkrir þingmenn af Vesturlandi og víðar væru í atkvæðasnapi. Ég vil minna hann á að það eru 12 þingmenn úr sex kjördæmum og fjórum stjórnmálaflokkum sem fluttu þetta mál. Hann talaði um að þetta væri upphlaupsmál fyrir kosningar. Ég minni hann á að ég hef fjórum sinnum á átta árum verið 1. flm. að þessari tillögu og það er alveg óháð kosningum. Það hefur verið bæði nálægt og fjarri kosningum og hefur ekkert með kosningar að gera. Ég hef gert það vegna þess að ég tel að við eigum að hefja hvalveiðar að nýju.

Hv. þm. talar um heimskuleg vinnubrögð. Það er náttúrlega ekki svara vert. Þetta er slíkur oflátungsháttur að það er þingmanninum til skammar. Hann talar um að við ætlum að eyðileggja það sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna. Hvað erum við að eyðileggja? Og hvers vegna hafa þá forustumenn ríkisstjórnarflokkanna tekið niðurstöðu meiri hluta sjútvn. eins vel og þeir hafa gert? Ég held því miður að þingmaðurinn hafi, aldrei þessu vant, ekki verið hér í húsinu í dag þegar hæstv. menntmrh., sem gegnir störfum sjútvrh. þessa dagana, flutti hér mjög góða ræðu og lýsti eindregnum stuðningi við niðurstöðu meiri hluta sjútvn. Ég hvet þennan ágæta þingmann til að fá útskrift af þessari ræðu annaðhvort í kvöld eða þegar hann vaknar í fyrramálið og lesa hana vel og sjá hver afstaða ríkisstjórnarinnar er til málsins. Ríkisstjórnar sem hann hefur talið sig styðja, þótt oft hafi kannski verið áhöld um það. En þessi ræða lýsti miklum hroka og fyrirlitningu í garð okkar sem að þessu máli höfum unnið og það læðist reyndar að mér sá grunur að bak við það búi einhver óvild í garð formanns sjútvn. Alþingis, sem er svona um það bil að hirða þingsætið af hv. þm.