Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:23:52 (4572)

1999-03-09 21:23:52# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:23]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þm. skuli hafa heyrt ræðu hæstv. menntmrh. sem hann flutti í dag og tala síðan með slíkum hætti til okkar flutningsmanna þessa máls eins og hann gerir, því að hann gerir náttúrlega afskaplega lítið úr okkur en ekki úr ríkisstjórninni, sem betur fer. En þar sem hann hefur heyrt afstöðu hennar kemur mér enn meir á óvart að hann skuli gera svona lítið úr málflutningi okkar.

Hann nefndi í ræðu sinni áðan að við gætum staðið frammi fyrir innflutningsbanni til Bandaríkjanna. Ég minni á að æðsti maður á sviði alþjóðlegra umhverfismála í Bandaríkjunum var hér á ferðinni í haust og sagði einmitt frá því að um þessar mundir væru Bandaríkjamenn að lenda í miklum erfiðleikum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna þess að þeim væri ekki lengur stætt á þessu banni og stofnunin gerði kröfu til þess að þeir breyttu þeim lögum sínum sem gera þeim kleift að setja innflutningsbann á þær þjóðir sem stunda veiðar á sjávarspendýrum. Þetta stæðist einfaldlega ekki. Þessi ágæti maður sagði að nú yrðu þeir að breyta um gír og fara að semja við þær þjóðir sem þeir ættu í ágreiningi við, m.a. við Íslendinga. Þess vegna er engin hætta á innflutningsbanni og þetta verður bara samningsmál.

En ég tek undir það sem hv. þm. sagði í lokin að ég tel mig vera að uppskera hér árangur erfiðisins eftir átta ára málflutning á þessu sviði og það hefur ekki verið nein sýndarmennska eða kosningasnap. Full meining hefur verið í því og loksins er þetta að ná fram að ganga sem betur fer.