Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:31:52 (4577)

1999-03-09 21:31:52# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:31]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Veiðar á 100 hrefnum er það sem ég boðaði að við ættum að byrja á. Ég held að við eigum að byrja þannig vegna þess að mikill munur er á því að hefja veiðar og segja: Við ætlum að veiða 100 hrefnur í vísindaskyni, við getum losnað við kjöt af 100 hrefnum innan lands, það hleðst ekki upp.

En sú tillaga sem hér er til umræðu opnar á allar hvalveiðar. Á því er mikill munur og mér fannst svolítið merkilegt að heyra hv. þm. Gísla S. Einarsson lýsa því yfir að það sem hann meinti raunverulega væri að hann vildi fara í að veiða 100 hrefnur núna og láta þar við sitja. Þannig skildi ég hann. (GE: Ég gæti tekið undir með hv. þm.) Gæti tekið undir. Ja, nú veit maður ekki hvort hann vill heldur.

Ég hef talið að þetta væri leiðin hjá okkur, eins og ég sagði áðan, og segja: Í vor hefjast veiðar á 100 hrefnum. Það er gert í vísindaskyni. Við ætlum að reyna að vita eitthvað meira um þessa stofna og þeir eru fleiri en einn við Ísland. Nota síðan tímann til þess og sjá hver viðbrögðin verða við því. Við vitum að við getum ekki flutt þetta kjöt út, menn eru að berja höfðinu við steininn ef þeir halda öðru fram. En kjöti af 100 hrefnum getum við torgað sjálf og við eigum að nota tímann til að styrkja NAMMCO og við eigum að kanna hvernig við komumst aftur inn í Alþjóðahvalveiðiráðið.

En það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Gísli S. Einarsson meinar það að hann vilji helst byrja á hrefnunum en ekki stórhvelunum.