Átak til að draga úr reykingum kvenna

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:36:29 (4579)

1999-03-09 21:36:29# 123. lþ. 82.20 fundur 95. mál: #A átak til að draga úr reykingum kvenna# þál. 9/123, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:36]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti heilbr.- og trn. um till. til þál. um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna. Nefndin fjallaði ítarlega um málið á fundum sínum og fékk umsagnir frá mörgum aðilum, þar á meðal landlæknisembætti, Skrifstofu jafnréttismála og heilbr.- og trmrn.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að heilbrigðisráðherra verði falið að efna til sérstaks átaks til að draga úr reykingum kvenna og skuli sjónum einkum beint að stúlkum og ungum konum þannig að takast megi að koma í veg fyrir að stúlkur hefji reykingar og þær sem eru byrjaðar hætti.

Kannanir hafa sýnt, virðulegi forseti, að sú aukning á reykingum, sem við höfum orðið vör við á síðustu árum og margvíslegar kannanir hafa leitt fram, hefur einkum orðið meðal kvenna, fyrst og fremst ungra kvenna. Kannanir hafa líka sýnt fram á að bein fylgni er á milli tíðni reykinga á unga aldri og neyslu harðra fíkniefna þegar fram í sækir. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að á einhvern hátt takist að stemma stigu við þessum óhugnaði.

Nefndin varð sammála um það, eftir að hafa fjallað ítarlega um efnið, að leggja til við Alþingi að tillagan verði samþykkt. Hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Guðni Ágústsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, er samþykkur álitinu.

Undir þetta rita ég, formaður og frsm., og hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Sigríður Anna Þórðardóttir.