Vegtollar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:38:41 (4580)

1999-03-09 21:38:41# 123. lþ. 82.21 fundur 45. mál: #A vegtollar# þál. 10/123, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:38]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um tillögu til þál. um vegtolla á þskj. 1044. Álitið er frá hv. samgn.

Nefndin fjallaði um málið á nokkrum fundum sínum og fékk allmargar umsagnir.

Tillagan gerir ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að skipa nefnd er kanni hvort hægt sé að beita vegtollum til að draga úr þörf á gerð samgöngumannvirkja, stuðla að minni mengun og afla fjár til vegagerðar. Nefndin áréttar að hún tekur ekki afstöðu til þess hvort vegtollum skuli beitt, enda gerir tillagan ekki ráð fyrir því heldur hitt að þessi mál séu könnuð og leggur áherslu á að heildarskattheimta á bifreiðum aukist ekki við þetta enda er það ekki tilgangurinn með tillögunni heldur miklu frekar sá að beita vegtollum í öðru skyni, eins og ítarlega er rakið í grg. með upphaflegri þáltill.

Hv. samgn. leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

,,Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvort unnt sé og skynsamlegt að beita vegtollum til þess að draga úr þörf fyrir gerð samgöngumannvirkja, stuðla að minni mengun og afla fjár til vegagerðar. Miðað verði við að heildarskattheimta af bifreiðum og umferð aukist ekki.``

Hv. þm. Stefán Guðmundsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. rita auk formanns og frsm. sem hér stendur, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Egill Jónsson, Ragnar Arnalds, Árni Johnsen, Magnús Stefánsson og Kristján Pálsson.