Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:03:22 (4585)

1999-03-09 22:03:22# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Austurl. --- ég árétta, hv. 1. þm. Austurl., það er hvorki meira né minna --- þessa réttmætu ádrepu hans. Bragð er að þá barnið finnur. Hann skóf ekki utan af því í sinni einkunnagjöf til samherja sinna í ríkisstjórn. Það var ekki eingöngu um það að ræða að samstarfsflokkurinn og hv. þingmenn Egill Jónsson og Arnbjörg Sveinsdóttir fengju hér gusuna í stórum stíl þegar þeim var borið á brýn með réttu eða röngu að hafa drepið málum á dreif þegar kom að jarðgangagerð á Austurlandi, heldur undanskildi hann hvorki formann Framsfl., hv. 1. þm. Austurl. og hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, né heldur Jón Kristjánsson, hv. 2. þm. Austurl. Með öðrum orðum þá fengu hvorki meira né minna en fjórir af hv. fimm þingmönnum Austurlands falleinkunn hjá hv. þm.

Ég vil þakka honum að hann skuli vera jafnhreinskiptinn hér jafnstuttu fyrir kosningar og raun ber vitni. Það er mikilvægt og hressilegur andblær fylgir því að loksins koma hér stjórnarþingmenn og tala hreint út en hlaupa ekki undan veruleikanum eins og hann blasir við.

Ég vil bara segja eitt, herra forseti: Hafi hv. þm. Jónas Hallgrímsson, sitjandi 1. þm. Austurl., þakkir fyrir. Auðvitað verður þessari einkunn hv. þm. á störf þessara fjórmenninga flett upp núna í aðdraganda kosningabaráttu. Það gefur auga leið. Falleinkunn hafa þeir stundum fengið, hv. þingmenn stjórnarinnar í þessu kjördæmi og fleirum, af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. En nú kemur það úr röðum þeirra sjálfra frá manni sem þekkir býsna vel til og hefur fylgst grannt með störfum þessara hv. þingmanna og talar því af reynslu og þekkingu um málið. Við hér á suðvesturhorninu kunnum honum auðvitað bestu þakkir fyrir.