Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:39:10 (4594)

1999-03-09 22:39:10# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:39]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni yfir því að sú þáltill. sem ég og hv. þm. Egill Jónsson lögðum fram um undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar skuli vera komin til afgreiðslu. Hitt er annað mál að hún hefur tekið nokkrum breytingum í umfjöllun samgn. og ég vil sérstaklega þakka hv. samgn. fyrir þá vinnu sem hún lagði á sig til að fjalla um málið og afgreiða það.

Upphaflegt efni tillögunnar var að fela samgrh. að hefja nú þegar undirbúning að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Og sá undirbúningur mundi miða við að framkvæmdir mundu hefjast árið 2003.

Í þessum umræðum hefur það verið nefnt að Austfirðingar hafi ekki getað komið sér saman um röð þeirra jarðganga sem vissulega allir ætluðust til að yrðu, þ.e. að næstu jarðgangaframkvæmdir yrðu á Austurlandi. Því er ekki að leyna að framlagning þessarar tillögu var m.a. til þess að fá fram vilja sveitarstjórna á Austurlandi og þeirra Austfirðinga sem um þessi mál fjalla. Eins og kemur fram í nál. voru það afskaplega jákvæðar umsagnir sem komu um nákvæmlega þessa tillögu þannig að ef sveitarstjórnir á Austurlandi eða Austfirðingar yrðu spurðir á þessum tímapunkti um afstöðu sína þá er nokkuð einsýnt hver viljinn væri á þessari stundu.

Ég tel rétt að fara aðeins yfir og grípa niður í þær umsagnir sem bárust um tillöguna. Fyrsta skal þá telja samgöngunefnd SSA en í umsögn hennar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Samgöngunefnd SSA tekur undir þingsályktunartillögu um jarðgangagerð á Austurlandi og leggur áherslu á fyrirliggjandi arðsemismat þeirrar framkvæmdar og minnir jafnframt á fyrirheit um jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi.``

Í annan stað er hér umsögn stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi fagnar framkominni tillögu um jarðgangagerð á Austurlandi.``

Í mjög vandaðri umsögn Þróunarstofu Austurlands kemur mjög margt fram sem styður það að hafist verði handa um jarðgangagerð á Austurlandi og ég vil grípa niður í þá umsögn á nokkrum stöðum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hún mundi opna á nýjar lausnir til atvinnusköpunar og um leið efla uppbyggingu byggðarlaganna. Greiðari tenging þessara staða við Mið-Austurland mundi stækka atvinnusvæði íbúanna þar og auðvelda þeim aðgang að víðtækari þjónustu en nú er fyrir hendi. Um leið mundi Mið-Austurland styrkjast sem eitt vænlegasta samfellda þjónustu- og atvinnusvæði landsins.

Jarðgöngin eru samgöngubót sem hraða mun framþróun í þjónustu austfirskra einkafyrirtækja á fjórðungsvísu.``

Einnig segir:

,,Sambærileg áhrif munu einnig verða varðandi hagræðingu í opinberri þjónustu og samþættingu á slíkri starfsemi og má í því sambandi nefna Skólaskrifstofu Austurlands, Heilbrigðiseftirlit Austurlands og hina nýju Heilbrigðisstofnun Austurlands.``

Og enn segir:

,,Nýir möguleikar og hagræði skapast varðandi samvinnu sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi með greiðari og styttri flutningsleiðum á milli þeirra.``

,,Markvisst er unnið að því að markaðssetja Reyðarfjörð sem uppbyggingarsvæði fyrir erlenda fjárfesta. Fram hefur komið í þeirri vinnu að bættar samgöngur og samtenging á sem stærstu svæði umhverfis Reyðarfjörð mun hafa mikil áhrif varðandi ákvarðanatöku í þeim efnum.``

Síðar segir:

,,Jarðgöng munu styrkja hugmyndir um uppbyggingu á öflugum þjónustukjarna og vaxtarsvæði á Miðausturlandi.``

Og enn fremur:

,,Jarðgangagerðin sem tillaga er gerð um mun gera fleirum kleift að taka þátt í umfangsmiklum verkefnum á sviði lista og menningarmála og í raun hvetja til slíkra verka.``

,,Jarðgöngin mundu gera fleirum kleift að sækja menningarviðburði í fyrirhugað menningarhús á Miðausturlandi og gera þessa hugmynd um leið raunhæfari.``

,,Búast má við að sjálfsímynd og samkennd íbúa Austurlands styrkist með tilkomu fyrirhugaðra jarðganga.``

Og að síðustu vil ég nefna að hér segir:

,,Auk þeirra atriða sem nefnd hafa verið varðandi samfélags-, byggða- og atvinnuþróun er rétt að benda á að ætla má að arðsemi jarðganganna geti orðið mun meiri en fram kemur í tillögunni.`` --- Og síðan eru færð rök að því.

[22:45]

Hæstv. forseti. Ég vil vitna í fleiri umsagnir sem borist hafa um tillöguna. Hér er umsögn Stöðvarhrepps en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hreppsnefnd Stöðvarhrepps telur umrædd jarðgöng höfuðforsendu eflingar byggðar á Austurlandi og styður því þáltill. og er sammála þeim rökum sem fram koma í grg. með henni. Hreppsnefnd telur þó að tillagan ætti að ganga lengra varðandi upphaf framkvæmda, þ.e. að framkvæmdir hefjist á því tímabili sem skilgreint er í vegáætlun 1999--2002.``

Í umsögn Fjarðarbyggðar segir svo, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Fjarðarbyggðar fagnar framkomu þáltill. og því að umræður um gerð jarðganga á Austurlandi skuli hafnar á ný af fullri alvöru.``

Í umsögn Seyðisfjarðarkaupstaðar segir svo, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Seyðisfjarðar lýsir yfir fullum stuðningi við þáltill. frá Arnbjörgu Sveinsdóttur og Agli Jónssyni varðandi jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.`` (GÁS: Þessi tillaga er ekki til afgreiðslu.) (ÁRJ: Bíddu, þetta er allt önnur tillaga en hér er til umræðu.)

Hæstv. forseti. Ég mun enn halda áfram að lesa upp úr þeim umsögnum sem borist hafa um þá þáltill. sem er til umræðu. (GÁS: Og er vísað frá.) Hæstv. forseti. Vegna frammíkalla samgöngunefndarmanna sem hér heyrast þykir mér það nokkuð undarleg skýring ef þeir eru að lýsa sinni vinnu í samgn. með þeim hætti að þeir séu að vísa till. frá með því að afgreiða nál. með texta og grg. sem þeir hafa fallist á að flytja í þingsölum. Það finnst mér afskaplega undarlegt.

Hæstv. forseti. Ég mun þá lesa úr umsögnum. Næst er umsögn frá Búðahreppi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hreppsráð Búðahrepps lýsir yfir ánægju sinni með framkomna þáltill. um undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Það er einróma álit hreppsráðs að framangreind jarðgöng yrðu til að efla Austurland í heild sinni, bæði með tilliti til atvinnu- og byggðarsjónarmiða. Því lýsir hreppsráð yfir fullum stuðningi við tillöguna og vonar að hún verði þegar samþykkt og megi koma til framkvæmdar hið fyrsta.``

Hér kemur álit hreppsnefndar Fáskrúðsfjarðarhrepps, með leyfi forseta:

,,Hreppsnefnd Fáskrúðsfjarðarhrepps fagnar framkominni tillögu og telur þetta mikið hagsmunamál fyrir samgöngur á svæðinu.``

Svo er álit hreppsnefndar Breiðdalshrepps, með leyfi forseta:

,,Hreppsnefnd Breiðdalshrepps tekur undir þáltill. varðandi jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.``

Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps segir svo, með leyfi forseta:

,,Hreppsnefndin mælir með samþykkt tillögunnar.``

Í umsögn frá Austur-Héraði segir, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Austur-Héraðs telur hér hreyft mjög brýnu máli og hvetur alla þingmenn kjördæmisins til sameinast um tillöguflutning sem miði að því að tryggja að jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi verði næstar í röð slíkra stórverkefna hérlendis.``

Síðast kem ég að umsögn sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Hreppsnefnd Vopnafjarðar getur því ekki tekið undir þáltill. um að fyrstu jarðgöng verði milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, nema einnig verði ráðist í jarðgöng milli Vopnafjarðar og Héraðs.``

Eins og fram kemur er ekki verið að leggjast gegn tillögunni heldur eingöngu reiknað með því að á sama tíma verði hægt að fara í jarðgöng milli Vopnafjarðar og Héraðs.

Hæstv. forseti. Þær umsagnir sem hafa verið lesnar upp sýna mjög vel samstöðu Austfirðinga um að þeir taka undir tillöguflutninginn. Kannski er rétt að fara aðeins yfir það, og ég mun vísa í nokkur þskj. þar að lútandi, að um alllanga hríð hefur það verið vilji Alþingis að næsta jarðgangagerð færi fram á Austurlandi.

Ég er með þál. um vegáætlun fyrir árin 1989--1992 og þar er einmitt gert ráð fyrir því að röð jarðganga verði slík að Ólafsfjarðarmúli fái fjármagn á árunum 1989, 1990 og 1991, Vestfjarðagöng fái rannsóknarfé á fyrstu árum áætlunarinnar og síðan verði hafist handa um framkvæmdir á árinu 1992. Austurlandsgöng eru komin þarna inn með rannsóknarfé á árunum 1991--1992.

Þáltill. sem var lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi, 1990--1991, vann starfshópur sem í var margt merkra manna. Ég mun lesa upp hverjir stóðu að þessari tillögugerð. Það voru Ólafur Steinar Valdimarsson, Skúli Alexandersson, Eiður Guðnason, Stefán Guðmundsson, Stefán Valgeirsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Halldór Blöndal, (ÁRJ: Vá.) Sturla Böðvarsson, Þórir Hilmarsson og Snæbjörn Jónasson, en hann var í forustu fyrir þessum hópi. Í þáltill. segir svo, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af þessari sérstöðu í fjármögnun og svo hinu að hér er um mjög dýr verkefni að ræða, telur starfshópurinn eðlilegt að hann geri tillögu um röðun þessara verkefna. Fara þær hér á eftir. Ítreka ber að einungis eru gerðar tillögur um röðun verkefna á þrjú tímabil og því komast ekki öll verkefni að.``

Röðunin er sú að lokið verði við Ólafsfjarðarmúla með fjárveitingu á fyrsta tímabili, síðan komi Vestfjarðagöng á fyrsta og öðru tímabili og byrjunarframkvæmdir Austfjarðaganga á öðru tímabili, sem reiknað var með að yrði 1998, og síðan framhaldsfjárveitingar á þriðja tímabili.

Ég tel rétt að rifja þetta upp vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram víða í þjóðfélaginu um söguna að baki þess að menn hafa yfir höfuð verið að ræða um jarðgöng á Austurlandi.

Til enn frekari áréttingar um það að hér eru verkefni sem m.a. Sjálfstfl. hefur mjög mikinn áhuga á má sjá í drögum að landsfundarályktunum sem liggja nú fyrir landsfundi Sjálfstfl. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Treysta skal byggðarlög og tengja saman atvinnusvæði með hagkvæmri jarðgangagerð. Þannig er einnig tryggt að verkþekking og tækjakostur við jarðgangagerð haldist í landinu.``

Þó svo að fjármagn til framkvæmda við jarðgöng hafi ekki komist inn í langtímaáætlun um vegagerð þá er þar svo sannarlega fjármagn til rannsókna. Ég tel rétt að vitna í skýrslu sem var verið að dreifa á borð okkar þingmanna, þ.e. skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar 1998. Þar segir á bls. 69 að innstæða varðandi fjármögnun Austurlandsganga sé samtals 27 millj. Skýringar þær sem þar koma fram eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Fjárveitingar geymast og verða notaðar til rannsókna og undirbúnings jarðgangagerðar á Austurlandi.``

Tillaga okkar þingmanna Sjálfstfl. á Austurlandi fól því í sér að hafist yrði handa um rannsóknir og það er náttúrlega alveg ljóst af þessum upplestri að til er fé til að hefja þessar rannsóknir. Einnig er alveg ljóst að í langtímavegáætlun er gert ráð fyrir á 120 millj. til jarðgangarannsókna á þessum 12 árum og að á þessu fyrsta tímabili, 1999--2002, eru 40 millj. til jarðgangarannsókna. Það eru þá til viðbótar 40 millj. við þær 27 sem þegar bíða vegna fyrri fjárveitinga til jarðgangarannsókna á Austurlandi.

Ég fagna því að hv. samgn. náði niðurstöðu í málinu og skilar frá sér nál. Í tillögugreininni kemur fram að samgn. lítur svo á að það skipti mjög miklu máli að gerð verði úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Það er mjög mikilvægt að samgrh. er falið að vinna að þessari áætlun, að langtímaáætlun um gerð jarðganga og að sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Það er afskaplega mikilvægt að þarna er komið inn á það að litið verði til þess hvort hægt er að hætta við aðrar kostnaðarsamar framkvæmdir. Það er alveg ljóst að ef af jarðgangagerð milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar verður, þá er hægt að hætta við framkvæmdir um Vattarnesskriður og svokallað Handarhald. Þetta er stór þáttur í því að arðsemismat á þessari framkvæmd er mjög hátt. Því munu menn líta mjög til þess þegar farið verður að vinna að þessari langtímaáætlun. Til enn frekari áréttingar á þessu er m.a. hægt að komast hjá dýrum öryggisaðgerðum í Vattarnesskriðum sem við getum alveg reiknað með að farið verði fram á til viðbótar þeirri kostnaðaráætlun sem gert er ráð fyrir í vegáætlun. Auk þess verður hægt að leggja af vetrarþjónustu á Breiðdalsheiði og enn fremur fresta vegaframkvæmdum um Breiðdalsheiði sem eru nú þegar áætlaðar.

Í grg. upphaflegrar tillögu okkar kemur mjög skýrt fram að arðsemi þessarar vegagerðar er mjög mikil. Ég tel að ég þurfi ekki að færa frekari rök að því að það er trú mín að fyrstu jarðgöng sem menn líta til, með tilliti til forsögunnar, verði þessi jarðgöng. Nú höfum við álit sveitarstjórna á Austurlandi um að þetta séu jarðgöng sem Austfirðingar geta sæst um og mikil trú er á því að þessi jarðgöng muni hafa mikil áhrif á byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Austurlandi.