Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:04:37 (4598)

1999-03-09 23:04:37# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:04]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú tillaga sem flutt var hér hafði reyndar ekkert með vinnu við vegáætlun að gera. Þetta er sérstök tillaga sem flutt var um þetta málefni þar sem ályktað var um að fela samgrh. að hefja undirbúning að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Auðvitað verða engin jarðgöng framkvæmd nema með rannsóknum og fyrir liggur að til er rannsóknarfé á vegáætlun fyrir Austurlandsgöng og ég rakti það m.a. í máli mínu þannig að ekki er um nein yfirboð að ræða, ef það er það sem hv. þm. var að ýja að. Hér liggur fyrir fjármagn. Eingöngu þarf að ákveða að hefja rannsóknarvinnuna eins og fjármagn er til fyrir.