Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:08:29 (4601)

1999-03-09 23:08:29# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, Frsm. EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:08]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar mál er komið til nefndar er það auðvitað nefndin sem tekur um það ákvörðun á eðlilegum forsendum hvernig málið er afgreitt. Það var niðurstaða nefndarinnar, eftir að hafa farið yfir málið í heild sinni og skoðað það, að eðlilegast væri að afgreiða það á þann hátt sem nefndin komst að niðurstöðu um.

Ég vek athygli á því að ekki er um að ræða afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar. Hér er um að ræða afgreiðslu nefndarinnar, allra þeirra nefndarmanna sem voru viðstaddir, sem voru fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti í samgn. Alþingis. Ég kannaði það sérstaklega á sínum tíma hvort fordæmi væru fyrir því að gera verulegar breytingar á efnisatriði tillögu og niðurstaðan var sú að til væru fordæmi um það.

Eins og rakið er í raun í nál. er ekki verið að draga neina fjöður yfir að það er verið að gera miklar breytingar á þessari tillögu, grundvallarbreytingar. Vakin er athygli á því í síðustu mgr. á 1. bls. að mikil umræða hafi verið um gerð jarðganga og þess vegna hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að höggva á þann hnút í umræðunni og reyna að færa hana inn í þennan farveg með því að setja málið upp eins og þarna er verið að gera og það er gert með þessu móti. Líka er vísað í tillögu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, og ég rakti það í ræðu minni áðan, að þetta sé, eins og segir í nál., ,,í samræmi við tillögu til þingsályktunar um langtímaáætlun um jarðgangagerð sem nú liggur fyrir Alþingi og Magnús Stefánsson o.fl. eru flutningsmenn að. Í tillögugreininni, eins og samgöngunefnd leggur til að hún verði, er að talsverðu leyti stuðst við fyrrgreinda tillögu.`` Ekki þó að öllu leyti en að talsverðu leyti.

Í þessari tillögu eru líka tekin upp efnisatriði sem lúta alveg sérstaklega að tillögu þeirri sem upphaflega var lögð fram fyrir samgn. Hér er því alveg eðlilega að verki staðið og auðvitað á valdi nefndarinnar að gera efnislegar breytingar á tillögutextanum.

Ég hef líka tekið þátt í því, til að mynda í starfi einstakra nefnda, að teknar hafa verið upp nýjar efnisbreytingar við tiltekin frumvörp sem hafa verið á leið til nefndar sem hefur haft viðkomandi mál til meðhöndlunar. Það eru því alls konar aðferðir til við það og alls konar útgáfur af niðurstöðum nefndarstarfs sem hafa birst okkur í þinginu þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart.