Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:21:44 (4607)

1999-03-09 23:21:44# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, EgJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:21]

Egill Jónsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Náttúrlega liggur alveg ljóst fyrir hver ástæðan er fyrir því að þessar tvær tillögur eru ekki afgreiddar með sömu fyrirsögn. Það var ekki einu sinni mælt fyrir þáltill. Magnúsar Stefánssonar og fleiri hv. þm., hér í þinginu. Til þess að tillögur séu teknar til meðferðar, afgreiddar og ræddar í þingnefndum þarf auðvitað að mæla fyrir þeim í þinginu. Það liggur fyrir að ef þær aðstæður hefðu verið þá hefðu þessar tillögur verið afgreiddar á sama þingskjali. En þannig fór ekki.

Tillaga Magnúsar Stefánssonar kom aldrei til afgreiðslu og aldrei til umræðu í samgn. sem slík. Þess vegna var hún auðvitað ekki afgreidd á þessu þingskjali. Málið er nú ekki margbrotnara en þetta. Það væri alveg nýtt hér í þingstörfum ef fjallað yrði um mál og þau afgreidd, án þess að talað væri fyrir þeim í þinginu. (HG: Nefndir flytja tillögur.)