Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:23:22 (4608)

1999-03-09 23:23:22# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, Frsm. EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:23]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja þetta mál mikið frekar. Ég gerði áðan grein fyrir því hvernig þessi mál hefði borið að. Ég gerði grein fyrir því að nefndin hefði samhljóða komist að niðurstöðu. Fulltrúar allra þessara stjórnmálaflokka sem á annað borð eiga sæti í samgn. komust að samhljóða niðurstöðu. Í nefndinni var fullkomin samstaða um að fara í málið eins og hér getur að líta. Ég kynnti mér það á sínum tíma að fordæmi væru fyrir viðlíka þannig að ekkert var óeðlilegt við að vinna málið svona.

Það sem gerðist var einfaldlega að upp voru komnar aðrar aðstæður í umræðunni þegar málið kom til lokaafgreiðslu nefndarinnar. Málið hafði verið rætt á einum fundi, farið yfir umsagnir eins og gengur en síðan hafði umræðan þróast og nefndin komst að þessari niðurstöðu sem hér getur að líta. Það er alveg rétt sem hv. 3. þm. Austurl. vakti athygli á, að málið sem við m.a. studdumst við og gerum rækilega grein fyrir hér í nál. hv. samgn., þ.e. þingmál hv. þm. Magnúsar Stefánssonar og fleiri, var ekki komið til nefndarinnar. Því gátum við ekki tekið það til efnislegrar umfjöllunar. Við studdumst hins vegar við þetta mál eins og við vekjum athygli á og við fjöllum um þetta mál í ljósi breyttra aðstæðna og þannig kom það út úr nefndinni. Það er eðlilegt að það komi með þessum hætti enda var það samhljóða niðurstaða allra nefndarmanna sem viðstaddir voru umræðuna, sjö fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka, þannig að engin ástæða var til að ætla annað en prýðileg sátt ætti að nást um þetta mál og þessa efnislegu niðurstöðu.