Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 10:59:55 (4659)

1999-03-10 10:59:55# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GMS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[10:59]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Höfuðvandi okkar Íslendinga í hvalveiðimálinu svonefnda er sá að við gerðum ekki fyrirvara innan tilskilins tíma við hvalveiðibannið þegar það var samþykkt 1982 eins og t.d. Norðmenn gerðu. Þess í stað samþykkti Alþingi í febrúar 1983 að mótmæla banninu ekki.

Ég hygg að öllum sé ljóst að hvalveiðar sem hafnar væru utan aðildar okkar að Alþjóðahvalveiðiráðinu geta haft mjög varhugaverðar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf. Endurinnganga okkar í Alþjóðahvalveiðiráðið áður en hvalveiðar í ágóðaskyni hefjast að nýju verður því að vera þannig að Ísland sé óbundið af banni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Um þetta er að ég hygg ekki mikill ágreiningur meðal lögfræðinga. Hvernig innganga samhliða mótmælum við banninu gæti átt sér stað liggur hins vegar ekki fyrir. Við eigum að byrja á að leysa það vandamál áður en við lýsum því yfir að hvalveiðar skuli hafnar. Með samþykkt þáltill. sem hér liggur fyrir er verið að byrja á vitlausum enda. Því get ég ekki stutt málið eins og það liggur fyrir hér og segi nei.