Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:07:38 (4665)

1999-03-10 11:07:38# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, LB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:07]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að nýta eigi hvalastofna við Ísland eins og aðrar auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt. Á hinn bóginn er til þess að líta að meiri hluti þjóða heims hefur verið andvígur því að hvalveiðar séu stundaðar. Sú staðreynd að meiri hluti þjóða heims skuli vera andvígur hvalveiðum endurspeglar í mínum huga það viðhorf sem er ríkjandi meðal almennings í okkar viðskiptalöndum.

Það að taka um það ákvörðun nú að hefja hvalveiðar eins og tillagan gerði ráð fyrir án þess að undirbúa eða kynna nokkuð okkar málstað meðal viðskiptaþjóða okkar finnst mér vera mikill ábyrgðarhluti og hætta er á því að við munum standa ein og óstudd í þeirri baráttu. Enn fremur óttast ég að með því að fara þá leið sem meiri hlutinn leggur til sé verið að setja í uppnám mikla efnahagslega hagsmuni án þess að hafa í augsýn nokkurn efnahagslegan ávinning af því að hefja hvalveiðar. Því er í mínum huga mikill ábyrgðarhluti að samþykkja að hefja hvalveiðar við þessar aðstæður.

Að lokum vil ég segja það, virðulegur forseti, að öll röksemdafærsla um hvað þessi ákvörðun kunni að hafa í för með sér er spádómur um það hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég óttast að sú aðferð sem hér er lögð til við að hefja hvalveiðar geti sett mikla hagsmuni í uppnám þó í hjarta mínu vonist ég til þess að ég hafi rangt fyrir mér í þeim efnum. Af þeim sökum treysti ég mér ekki til að greiða þessari tillögu atkvæði og sit því hjá við 1. og 3. mgr. en greiði 2. mgr. atkvæði mitt.