Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:12:49 (4671)

1999-03-10 11:12:49# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, MagnM (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:12]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég man að ég fylgdist af áhuga með atkvæðagreiðslu á Alþingi í sjónvarpi í febrúar 1983 þegar greidd voru atkvæði um að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. (Gripið fram í: Varstu fæddur.) Ég var 14 ára. Ég man eftir að ég fagnaði innilega þegar úrslitin lágu fyrir. Ég var í hjarta mínu á móti hvalveiðum.

Nú 16 árum síðar er afstaða mín enn nokkuð áþekk þó að rökin séu önnur. Ég tel að í ljósi þess að ríkisstjórn Íslands ætlar ekki að undirrita Kyoto-bókunina á tilskildum tíma, þá væri Ísland að sverta ímynd sína í umhverfismálum mjög alvarlega með samþykkt þessarar tillögu. Ég segi nei við tillögunni í heild sinni og tek ekki afstöðu til einstakra greina.