Raforkuver

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:33:55 (4675)

1999-03-10 11:33:55# 123. lþ. 83.15 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:33]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hef í iðnn. gert grein fyrir mínu áliti sem liggur fyrir þinginu sem minnihlutaálit. Ég er því andvígur að Alþingi veiti lagaheimildir fyrir raforkuverum sem yfirlýst er að eigi að þjóna hefðbundinni stóriðjuuppbyggingu. Alþingi á ekki að veita frekari slíkar heimildir fyrr en mótuð hefur verið sjálfbær orkustefna til framtíðar og einstökum virkjunarkostum hefur verið raðað í forgangsröð eins og Alþingi ályktaði um að gert skyldi þegar á árinu 1989.

Ég tel líka að áður en heimildir eru veittar þurfi að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum varðandi einstaka virkjanakosti. Ég er því út af fyrir sig ekki andvígur að yfirfærð verði virkjanaheimild varðandi Villinganesvirkjun til Landsvirkjunar en hins vegar er ekki rétt að veita þá heimild nú eða taka þá ákvörðun fyrr en mat á umhverfisáhrifum þeirrar virkjunar liggur fyrir. Ég er því jafnframt mjög andvígur að veitt verði heimild fyrir jarðgufuvirkjun í Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Það gengur gegn sjónarmiðum Náttúruverndar ríkisins, Náttúruverndarráðs og fjölmargra fleiri aðila og felur í sér mjög mikla stefnubreytingu varðandi verndun Mývatnssveitar. Ég minni hins vegar á, virðulegur forseti, ályktun Alþingis um sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit sem þarf að taka á vegna félagslegra aðstæðna í sveitinni.