Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:17:14 (4687)

1999-03-10 12:17:14# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:17]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru aðeins um undirtektir við mál hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar og þakklæti fyrir stuðning hans við málið. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm., sem er búsettur í Rangárþingi, Rangárvallasýslu eins og hún er enn nefnd, og þekkir vel til á fjórða svæðinu sem var viðfangsefni tillöguinnar, þ.e. Mýrdalsjökulssvæðinu, svæði Mýrdalsjökuls, Eyjafjallajökuls og annarra jökla sem hugsanlegt væri að fella inn í stórt verndarsvæði og tengja friðland að fjallabaki, sem þegar nýtur friðlýsingar, og hinu stórmerka svæði Heklu og nágrenni. Það eru einmitt slíkar heildstæðar hugmyndir sem ég held að geti orðið til þess bæði að auðvelda stjórnun á hálendinu út frá sjónarmiðum náttúruverndar og jafnframt að verða til þess að lyfta þessum svæðum bæði í hugum þjóðarinnar og á alþjóðavísu svo sem vert er. Ég trúi því að þess verði ekki langt að bíða að einnig þetta svæði sem hv. þm. vék að falli undir slíka vernd.

Vert er að hafa í huga að þær tillögur sem liggja fyrir í upphaflegri þáltill. féllu mjög að hugmyndum og tillögu um skipulag miðhálendisins, tillögu sem bíður nú staðfestingar og fékk einmitt sérstakar undirtektir frá Skipulagsstofnun, og raunar einnig frá ráðuneytum eins og félmrn. þegar málið kom þaðan eða umsögn barst um málið þaðan. Mér sýnist því að það stefni í að þarna geti tekist veruleg sátt varðandi verndarhagsmuni. Þá þurfa menn ekki að deila lengur um t.d. álitaefni af því tagi hvort mörg sveitarfélög séu dregin inn á jökla landsins því að þeir eru felldir undir samþætta verndarstefnu.